Bloggfærslur mánaðarins, maí 2014

Lattelepjandi hjólandi treflar

Horft fram á veginn 

Ég byrjaði að blogga árið 2008.  Af því ég byrjaði að hjóla þá eftir langt hlé og hafði þörf fyrir að tjá mig einhvers staðar um það sem mætti betur fara í umhverfismálum án þess að ganga fram af vinnufélögum, vinum og ættingjum.  Alveg sama hvert efnið er.  Trúarbrögð, stjórnmál, umhverfismál, umferðarmannvirki, hjólreiðar, hvaðeina...  Allt ofstæki (aka brennandi áhugi) virkar fráhrindandi.  Það eru bara 10-20 færslur sýnilegar í dag, ég ætlaði aðeins að taka til og birta þær aftur smám saman.  Fólk skiljanlega sökkvir sér ofan í það sem því finnst skemmtilegt, og sumir hafa dvalið við neðan-nafla færslur á meðan aðrir dást að dugnaðinum, og enn aðrir hvetja mig áfram vegna áhrifanna sem ég hef haft á fólk.    Ef ég get hjólað allan ársins hring, miðaldra, gigtveik kona í yfirvigt, geta þá ekki allir hjólað?  Flestir.  Og þetta er alveg jafn gaman og á meðan maður hjólaði sem krakki.

05 20 010 

Það græða allir á því að sem flestir hjóli.   Líka bíleigendur.  Annars yrðu umferðarteppur þyngri og erfiðara að finna bílastæði.  Meiri mengun, meiri pirringur, minni tími með fjölskyldunni vegna tafa í umferðinni.  Lýðheilsulegur ávinningur, heilsan hjá hjólandi fólki batnar og veikindadögum fækkar.  Tilefni þessarar færslu er slagorð hjá einum stjórnmálaflokki.  Hva, ætla ekki allir að hjóla?  Og í neðanmáli segjast þau ætla að skipuleggja borgina fyrir alla Reykvíkinga, ekki bara 101...

Þessa auglýsingu má skilja eða misskilja á ýmsa vegu.  Erum við hjólafólk orðin hip og kúl og á að moka meira undir okkur?  Sér hjólabrautir, hjólavísa á rólegar íbúagötur, fleiri hjólaboga sem er gott að læsa hjólin við, yfirbyggð skýli og svo framvegis, og svo framvegis.  Eða er þetta sprottið af vanþekkingu, halda menn að það séu bara einhverjir örfáir lattelepjandi treflar í miðbænum sem nota reiðhjól?  Er verið að gera góðlátlegt grín að okkur?  Varla rætið þegar endasprettur kosninga er hafinn.

ReykjavikGreiddFelagsgjold 

Hæg eru heimatökin.  Ég sé um félagatal Fjallahjólaklúbbsins og bar saman greidd félagsgjöld eftir póstnúmerum við tölur frá Hagstofu Íslands.  Íbúar Reykjavíkur í 101 er 13% íbúa, varla er herferðinni beint að þeim, hvað um hin 87 prósentin.  Er henni kannski beint að 87% Reykvíkinga og tæplega 16 þúsund aðilar í miðbænum móðgaðir með því að kalla þá óbeint Lattelepjandi hjólandi trefla?  Þó að það sé ekki hægt að alhæfa, þá benda virkir félagar hjá okkur til þess að flesta hjólandi íbúa sé að finna í póstnúmeri 105.  Því næst 108.  101 er í þriðja sæti.

Ég veit nákvæmlega að hvaða markhópi þessi auglýsing beinist.  Ungu fólki á aldrinum 18-22 ára sem er að kjósa í fyrsta sinn.  Þetta er sá hópur sem hjólar lítið, á ekki enn börn sem hjóla, er með standpínu yfir flottum og hraðskreiðum ökutækjum og finnst fátt leiðinlegra en þegar einhver á reiðhjóli tekur fram úr þeim í bílabiðröðinni á Laugaveginum.  Flestir leggja reiðhjólinu þegar þeir fá bílpróf og byrja aftur að hjóla þegar hraðskreiðu ökutækin missa ljóma sinn og menn vilja fara hægar yfir til að njóta alls þess sem umhverfið hefur upp á að bjóða.

08-01 062b 

Frá því ég byrjaði að hjóla aftur árið 2008 hefur margt gott verið gert.  Sér hjólabrautir í Fossvogi og meðfram Suðurlandsbraut.  Góður stígur kominn á milli Reykjavíkur og Mosfellsbæjar.  Núna er verið að leggja sér hjólabraut meðfram Sæbraut.  Frábært.  Fullt af vel hönnuðum hjólabogum um alla borg.  Einhvers staðar í gamalli bloggfærslu sagði ég að við værum í ákveðnum vítahring, það hjóla svo fáir af því það það er ekki gert ráð fyrir hjólafólki í skipulagi sveita og bæja.  Og það eru engar úrbætur, af því það eru svo fáir sem hjóla.  Þetta hefur heldur betur snúist við.  Fólki sem hjólar að staðaldri fjölgar stöðugt.  Sem og úrbótum fyrir hjólreiðafólk.  Hefur þetta eitthvað með stjórnmál að gera eða hvaða flokkar eru við völd hverju sinni?  Nei, þetta er einfaldlega þrýstingur frá sífellt stækkandi hópi hjólandi fólks.  Og rökrétt þróun til hagsbóta fyrir alla.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband