Bloggfærslur mánaðarins, júní 2014

Harðsoðin egg

06-14 105

Frosin, harðsoðin egg?  Nei, það gengur ekki.  Áður en ég lagði af stað í útilegu með félögum mínum í Fjallahjólaklúbbnum, þá sauð ég nokkur egg, og þar eð þau voru heit, vildi ég kæla þau örlítið áður en ég setti þau í kæliboxið.  Auðvitað gleymdust þau og chilluðu í frystinum alla helgina.  Ég var með bæði smjör, ost og kæfu, en gleymdi að sjálfsögðu ostaskeranum.  Hefði náttúrulega bjargað mér og stíft hann úr hnefa ef á þyrfti að halda og svengd sækti að.  Í óbyggðum er allt leyfilegt.  En, já, ehemm, við gistum á Stykkishólmi, svo þetta var nú ekki beint óbyggðaferð, enda var farið út að borða um kvöldið, snætt gómsætt og margrétta í litlu fallegu húsi við höfnina, Sjávarpakkhúsinu, og drukkið öl með.  Ég var ekki alveg búin að ákveða hvort ég héldi útilegunni áfram eftir að formlegri hjólaferð lyki, svo ég hrúgaði bara nóg af matvælum ofan í kælibox og þvottakörfu og hefði getað lifað af heilan mánuð á öræfum.

06-14 083

Fyrri daginn hjóluðum við í gegn um Berserkjahraun.  Komum við á hákarlasafninu Bjarnarhöfn, þar er margt skrítið og skemmtilegt að skoða, dýr hænast að manni í hrönnum, bæði lifandi og látin.  

06-14 026

Það var boðið upp á hákarl.  Ég hef áður komið í þetta safn og smakkaði þá í fyrsta sinn hákarl, enda kunni ég ekki við annað þar eð einhverjir útlendingar voru að smakka og snafsa sig á Íslensku brennivíni og ekki vildi ég vera lélegur Íslendingur og fúlsa við hákarlinum, svo ég gleypti hann í mig og skolaði niður með brennivíni.  Hákarlinn bragðaðist nú bara betur en ég átti von á og Íslenska brennivínið er alltaf gott, eftirbragðið sterkt, ferskt og blandað kúmeni.  Rétt eins og að kyssa einhver sem er nýbúinn að borða kringlu.  Ekkert var brennivínið að þessu sinni, en bæði harðfiskur og rúgbrauð, svo það gekk alveg að innbyrða 2 hákarlateninga, sér til heilsubetrunar, þetta ku vera allra meina bót.  Ég held þó að það sé brennivínssnafsinn sem er iðulega drukkinn með sem sótthreinsar, bætir, hressir og kætir.  Án þess að hafa nokkurt vit á, ekki ætla ég að þykjast vera einhver sérfræðingur að sunnan, ég er nú einu sinni að vestan.

06-14 056

Það var svolítið meiri óbyggðastemming á sunnudaginn, við hjóluðum ýmist á malbiki, góðum sveitavegi, prýðilegum malarstígum og svo þurftum við að tækla smá vegleysur til að komast í Rauðamelsölkelduna.  

06-14 109 

Við komum þarna við árið 2011, þá var ekki dropa af vatni að finna í keldunni, Ölli plankaði þá yfir herlegheitin, það hefur greinilega haft góð áhrif, í dag er hún hálffull af fersku vatni með smá kolsýru.  Eða hálftóm, eftir því hvernig á það er litið.  Það hefði liggur við verið hægt að baða sig í henni...  en nei, slíkt gerir enginn með snefil af sómatilfinningu.  Maður lætur ekki Pétur, Pál, Guðmund og Jón drekka af sér seyðið.  Lágmarks kurteisi að menn (konur) viti hvað er verið að innbyrða hverju sinni.  En vatnið bragðaðist afskaplega vel, svipað og að fá sér vel kælt sódavatn.

06-14 122

Á sunnudag tók ég þá ákvörðun að gera hlé á útilegunni, fernt sem réði því.  Ég pakkaði nóg af mat, bjór og vodka.  En engin egg, ostaskerann vantaði og svo ehemm, gleymdi ég hreinum nærfötum til skiptanna.  Var þó með þvottaklemmur, svo ég hefði getað þvegið í höndunum og hengt upp á kvöldin.  En það spáði rigningu eins langt og veðurfræðingurinn eygði, svo ég fór heim með allan matinn og bjargaði eggjunum úr frystinum.  Eins og mér þykja egg góð, hvort sem þau eru linsoðin, harðsoðin, steikt, brösuð eða eggjakökuð þá, bara... nei, gott fólk.  Það er ekki hægt að borða afþýdd harðsoðin egg, þau eru algjör vibbi.  Á 2 eftir ef einhvern langar að smakka.  Ég á vodka til að skola þeim niður með.

06-14 060

Matarblogg?  Hvað meinaru???


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband