Bloggfærslur mánaðarins, september 2015

Útivist - Strútshátíð

Ég var félagi í Útivist á mínum yngri árum.  Þrammaði þá með þeim nokkrar perlur Íslands, Fimmvörðuhálsinn, fullt af dagsferðum og ógleymanleg páskaferð á Snæfellsjökul.  Svo tók ómegðin og sófasetutímabilið við og ég hreyfði mig lítið á þeim tíma.  Það var alls ekki leiðinlegt tímabil, að horfa á börn að leik er líka góð skemmtun.  En því lauk og allt í einu sat ég ein inni í stofu og enginn vildi leika við mig.  Kallinn í boltanum og krakkarnir úti að leika við vini sína.  Svo ég fór á stúfana og fann Fjallahjólaklúbbinn.  Búin að eiga margar góðar stundir hjólandi með félögum mínum út um hvippinn og hvappinn.  En stundum hafa fallið niður ferðir hjá okkur, og þá hafa félagarnir í Hjólarækt Útivistar ættleitt mig.  Svo ég ákvað að gerast aftur félagi í Útivist og nota síðsumarið í minni hjólandi tilveru til að njóta þess að ferðast um á reiðhjóli.  Á meðan ég get og gigtin leyfir.  Enginn veit sína æfi fyrr en öll er.

6 hjolandi

Það var hjólað, sungið, etið, drukkið og skemmt sér á 40 ára afmælishátið Útivistar við Strútsskála. Ég var hópi 6 sem hjóluðu á svæðið, en jeppadeildin mætti líka, sem og gönguhópar. Mikið gasalega var þetta gaman.  Ég gleymdi að kíkja á veðurspá, bókaði mig í ferðina og borgaði matinn fyrirfram.  Úps.  Grenjandi rigning og rok.  Shit.  Jæja, ég hætti þá bara við.  En sem betur fer skánaði veðurspáin smám saman og daginn sem við keyrðum áleiðis og hjóluðum 30 km leið að Strútsskála var komið fínasta veður.  Þennan sama dag var drusluganga haldin viða um land.  Guðbjartur var eini karlkyns hjólarinn í hópnum, hafði þó andlegan stuðning af Grétari sem sá um að trússa dótið okkar inn í Strút. 

gudbjartur

Til að fyrirbyggja misskilning, við vorum allar góðar við Guðbjart.  Hann, í augnabliks aðgæsluleysi datt á nánast engri ferð og skrámaðist.  Sem betur fer ekkert alvarlegt, en hann sá um druslugönguna fyrir okkar hönd.

Leiðin er falleg og við hjóluðum á vegi, sem breyttist um tíma í nokkuð þungfæran sand.  Og eftir að við mættum hópi hestafólks, þá breyttist þungfæri sandurinn í ófært helvíti.  En samt, að ganga og styðja sig við reiðhjól er auðveldara en ganga án reiðhjóls.  Og miklu meira töff en venjuleg göngugrind, sem ég ehemm, skal viðurkenna að ég hef verið að íhuga að fjárfesta í til að nota við ákveðnar aðstæður, svo ég geti sest þegar hnén bera mig ekki lengur.

gamli grani

Á reiðhjóli skynjar maður hluti öðruvísi.  Ef þú sérð eitthvað fallegt í náttúrunni, þá stoppar maður á 5 sekúndum og nær að festa augnablikið á filmu.  Eða flögu réttara sagt.  Á 90 km hraða er það aðeins flóknara og fólk nennir ekki að standa í því að stöðva, snúa við, keyra til baka, snúa aftur við og finna jafnvel ekki staðinn aftur.  Stundum er þetta metraspurgsmál að stoppa á rétta staðnum.

broen

Talandi um að stoppa á rétta staðnum...  Á ferðalagi um holt og hæðir þarf fólk óhjákvæmilega að gera þarfir sínar úti í guðsgrænni náttúrunni.  Í einu stoppinu gekk ég vel frá hópnum svo andblærinn myndi ekki bera ilminn aftur til þeirra.  Verandi með mín ónýtu hné, þá á ég í smá erfiðleikum með að koma mér í góða stellingu.  Ef ég er bara að pissa geri ég það hálfstandandi með rassinn út í loftið.  Sérlega skemmtilegt sjónarhorn ef einhver kemur óvænt aftan að mér á þeim tímapunkti...

En ég þurfti að gera meira og þá vandast málið örlítið.  Ég get ekki sest á hækjur mér eins og fólk gerir almennt úti í náttúrunni.  Ég notaði stóran stein, hallaði mér upp að honum og lét mig síga niður þangað til ég var komin í sömu stellingu og þegar ég sit á skínandi hvítu postulíni.  Þarna sit ég að því er virðist í lausu lofti þegar bíll kemur úr hinni áttinni og stoppar rétt hjá mér.  Þar eð ég var í skærgulu öryggisvesti get ég ekki ímyndað mér annað en fólkið hafi séð mig, en það er ekki alveg víst að þau hafi áttað sig á hvað ég var að gera.  Kannski verið að furða sig á þessari houdini stellingu og, ehemm, kannski tekið mynd...  Eða kannski bara að skoða kort, en það voru gatnamót framundan.  Um leið og ég stóð upp og girti mig, þá spændu þau í burtu.  Kannski var fólkið í bílnum þá fyrst að fatta að ég var ekki sitjandi á steini.

toiletPapier

Þessi mynd af mér var tekin fyrr um morguninn fyrir utan Strútsskála, kannski teikn um það sem koma myndi.  Og talandi um teikn.  Þegar hjólaferð helgarinnar var lokið, þá var þessi tala á mælinum.

07-25 666

Hjólafélagar mínir skildu ekkert í því að ég skyldi bera hjólið nokkra metra upp á grasbalann, sem ég gerði til að hafa skemmtilegri bakgrunn með þessari mögnuðu tölu. Sem ég hefði nú kannski átt að segja þeim að væri á mælinum. Ég bar hjólið til að skemma ekki töluna, en það hefði ég gert ef ég hefði leitt hjólið þangað.

Ég gerði þau mistök að taka bara eina mynd, súmmaði inn og sýndist myndin vera í fókus. Sem hún er ekki. Og Guðrún myndaðist alveg skelfilega. Nei, hin Guðrúnin. Nei, sú þriðja. Sem er yfirmáluð með grænu.  Dísus, þegar það eru þrjár konur á einni mynd sem heita allar Guðrún og ein af þeim er þarna eða ekki, eða einhver allt önnur kona, þá geta skrif mín vissulega virkað ruglingsleg.

Ef þið rekist á mynd af mér einhvers staðar á netinu skítandi úti í móa, þá já, er leyfilegt að glotta út í annað en vinsamlega ekki dreifa henni áfram.  Hver hefur ekki verið í mínum sporum, ég bara spyr..

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband