Fínasta ferðaveður

vedur2010-02-19

Þetta er veðurspáin fyrir daginn í dag.  Fínasta hjólaveður.  Sannleikurinn er hins vegar sá að í dag er fyrsti dagurinn á þessum vetri sem ég lenti í vandræðum vegna veðurs á leið minni til vinnu.  Það er nefnilega hífandi rok og skítakuldi.  Ég var á Skúlagötunni og vindstyrkurinn slíkur á móti að ég var orðin alveg stopp.  Beygði þá upp á Hverfisgötuna, ef það skyldi vera skjól þar inn á milli húsanna.  Ég komst ekki einu sinni niður Hverfisgötuna, ég fauk aftur á bak í hviðunum.  Svo ég teymdi hjólið síðasta spölinn í vinnuna.  Það er varla stætt úti í miðbæ Reykjavíkur, en samt sýnir Veðurstofan ennþá 3 metra á sekúndu þegar þetta er skrifað, kl 13:40.  Ekki hef ég séð neina stormviðvörun eða að fólk sé varað við því að vera á ferli.

Þar eð ég ætlaði að hjóla frá Reykjavík til Selfoss um helgina ásamt fleira fólki, hef ég verið að fylgjast svolítið náið með veðurspánni, og sjá hversu áreiðanleg spáin er.  Spáin var mjög svipuð fyrir þessa þrjá daga.  Svo ég þori ekki öðru en blása ferðina af og reyna aftur seinna þegar það er farið að vora og minni líkur á skyndilegum vetrarstormum sem enginn sá fyrir.  Ekki heldur Veðurstofan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Davíðsson

Leiðinlegt að ferðinni er aflýst. Ég hefði ekki komist núna en kannski síðar í vor.

Mér finnst oftast gefa betri raun að skoða vindakortið því það sýnir betur breytileikann í vindi eftir landslagi. Það er vel þekkt að í norðan átt verður bálhvasst í streng frá Esjunni sem oft nær landi yst á Seltjarnarnesinu. Eftir aðstæðum verður líka mjög hvasst annarsstaðar með norðurströndinni og inn í Mosfellsbæ. Ætli það hafi ekki verið þannig í dag.

Ég hef séð hvirfilbyli bera mold upp í mörg hundruð metra hæð af urðunarstaðnum á Álfsnesi í svona veðri. Ysta sískrifandi veðurstöðin er á Reykjavíkurflugvelli og hún sýnir oftast þetta veður betur en Bústaðavegurinn.

Árni Davíðsson, 19.2.2010 kl. 14:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband