Bláa Lóns áskorun

06-14 005

Það var þreyttur, skítugur en ánægður hjólari sem kom heim í hlað eftir frábæra keppni á sunnudaginn.  Maður þarf eiginlega að taka þátt til að átta sig á hversu mikið er lagt í undirbúning og utanumhald í kring um svona stóra keppni, við í Fjallahjólaklúbbnum fengum Albert formann HFR til að koma á opið hús og fræða okkur um leiðina og undirbúning, mjög gagnlegt og margir góðir punktar sem þar komu fram.  Úrslit og myndir frá þessum magnaða viðburði má sjá á vef Hjólreiðafélags Reykjavíkur www.hfr.is 

Það var smá beygur í mér fyrir keppni, verandi með svolítið bilað hné og á hybrid (hjól á sléttum dekkjum, mitt á milli fjallahjóls og götuhjóls), en ég á ekki fjallahjól í augnablikinu.  Ég ákvað að leggja alla vega af stað, vonaðist til að ná í mark áður en tímatöku lyki (eftir ríflega 4 tíma), annars myndi ég bara breyta keppninni í rólegheita sunnudags-hjólatúr og taka allan daginn í þetta.

Ég sé marga hjólara sleppa báðum höndum af stýri og geta athafnað sig við ýmislegt á meðan þeir hjóla áfram eins og ekkert sé.  Ég get þetta alls ekki, á meira að segja erfitt með að halda jafnvægi ef ég sleppi annari hendi af stýri.  Og komst að því að ég get ekki drukkið og hjólað í einu, það fer allt einhverja vitlausa leið og ég bara hósta og frussa.  Og hjálpi mér, þetta orkugel var svo mikill vibbi að ég var með klígju í langan tíma á eftir, hélt einhvern veginn að þetta væri þynnra, blautara og rynni betur niður.  Þessu hefði ég alls ekki komið niður á ferð, en ég stoppaði tvisvar sinnum á leiðinni, fyrst til að klæða mig úr jakkanum og svo til að fá mér gelið og liðka axlir áður en ég lagði í Ingólfsskálabrekku, en þá var ég farin að finna fyrir smá hungur-skjálfta og vildi nú ekki fara að lyppast niður orkulaus rétt fyrir framan markið.

Það eru kostir og gallar við að vera á Hybrid í Bláa Lóns keppninni.  Kostirnir eru þeir að ég komst hraðar á malbikinu, en gallarnir þeir, að ég þurfti að fara varlega í mölinni, hjólið dansaði full mikið niður malarbrekkurnar og það er líka meiri hætta á að sprengja dekk.  Hristingurinn var hroðalegur á köflum, það eru brotnir teinar í afturgjörðinni, hún er eitthvað skökk og ljóst að fákurinn þarfnast smá aðhlynningar.

06-14 006

En ég komst í mark og bara mjög ánægð með tímann minn, 2:47:10, varð 3ja í mínum aldursflokki, 10unda af 48 konum og 135ta af 294 sem tóku þátt á 60 km leiðinni.  Nú á ég tvo verðlaunapeninga eftir tvær hjólakeppnir í ár.

06-14 007

Þetta verður að teljast bara nokkuð gott í ljósi þess að ég var í hörmulegu formi fyrir tveimur árum, 35 kg þyngri en ég er í dag, með marga kvilla tengda offitu og bara, aldrei hefði mér dottið í hug árið 2008 að ég ætti eftir að komast á verðlaunapall í hjólakeppni.

2008-2011


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Vá, til hamingju með þetta, frábær árangur!

Úrsúla Jünemann, 16.6.2010 kl. 09:07

2 identicon

Mikið rosalega er ánægjulegt hvað þú hefur náð góðum árangri Hrönn og til hamingju með Bláa Lóns keppnina:o) Þetta er stórkostlegt hjá þér og mikið þrekvirki. Bloggið þitt er mjög svo skemmtilegt- búin að hlæja mikið. Gangi þér vel.

Regína Vilhjálmsd (IP-tala skráð) 20.6.2010 kl. 00:05

3 Smámynd: steinimagg

Frábært, til hamingju.

steinimagg, 27.6.2010 kl. 09:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband