Snæfellsnes - Bifröst

07-16 029 

Snæfellsnesið átti að taka í rólegheitum, fyrsti túrinn var áætlaður ríflega 30 km hringur og svo sund í Borgarnesi á eftir.  Nema ég dáleidd af jöklinum taldi mig hafa keyrt fram hjá fyrsta afleggjaranum.  Skipti svo sem ekki máli, stoppaði við næsta og ákvað að hjóla hringinn rangsælis.  Svo var hjólað af stað.  Helgi og bænastund við Álftaneskirkju, borðað nesti og lífið og tilveran hugleidd.

07-16 018

Þegar ég klára hringinn beygði ég í átt að Snæfellsnesinu, toguð áfram af kvöldsólinni og jöklinum sem glóði þar í allri sinni dýrð.  Ég hjóla og hjóla og hjóla.  Hvergi sé ég bílinn.  Hjóla fram á skilti sem ég man ekki eftir að hafa keyrt fram hjá.  Og öðru.  Og þriðja.  Hvurslags.  Mundi að ég hafði tekið mynd af fyrsta skiltinu og kíki á það til að sjá hvort ég hafi ekki örugglega farið í réttan hring.  Sé þar rauðan depil til merkis um að ég hafi farið inn í fyrsta afleggjarann og hjólað hringinn réttsælis.  Hvernig mér tókst þetta án þess að fatta skekkjuna á leiðinni er mér óskiljanlegt.  Var samt að furða mig á að vindáttin var ekki alveg rétt miðað við hvar ég var stödd í hringnum.  Svo fyrsti hjóladagurinn varð 80 km í staðinn fyrir 30.

07-16 008

Í fyrra þegar ég var á nokkurra daga hjólreiðaferðalagi um Vesturland rakst ég á einn mann á hjóli og tvo hjólandi krakka á einum bóndabænum.  Það var allt og sumt.  Það var alveg hellingur af hjólafólki á Snæfellsnesi, ég mætti mörgum ferðalöngum með klyfjuð hjól, og líka hóp af flottum hjólagörpum á æfingu sem fóru of hratt til að ég gæti borið kennsl á þá, ég hefði svo sannarlega flautað til baka ef ég kynni að blístra ;)

07-16 057

Arnarstapi - Snæfellsjökull - Fróðárheiði.  Ég sá lýsingu á þessari leið inni á umræðuvef Fjallahjólaklúbbsins og ákvað að fara í hjólför Örlygs.  Fékk alveg æðislegt veður, hef áður gengið á Snæfellsjökul, þá var veður leiðinlegt framan af en á meðan við gengum upp ruddi jökullinn sig af skýjum og við fengum útsýni í allar áttir.  Aftur gerðist það núna, það rigndi á leiðinni inn á Arnarstapa, en eftir því sem ég fór ofar glaðnaði yfir nesinu og hann brast á með brakandi bliðu.

07-16 062


07-16 049


07-16 058 

Rétt hjá Bröttubrekku rakst ég á þetta fróðlega skilti.  Þetta er held ég í fyrsta sinn sem ég sé karlmanni talið til hnjóðs að hafa samrekkt of mörgum konum.

07-16 034

Ég hef átt í smá brasi með afturgjörðina, ólin á hjólatöskunni flæktist í þeim fyrir nokkrum vikum með þeim afleiðingum að teinarnir hafa verið að gefa sig einn af öðrum.  Neyðin kennir klæddri konu að teina...  Maður bjargar sér bara!

07-16 080fixed

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábær ferð og reddingarnar ekki af verri enda.

Örlygur Sig (IP-tala skráð) 20.7.2010 kl. 19:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband