8.9.2010 | 10:37
Kjölur - Hveravellir - Reykjavík
Á þriðjudaginn í hjólaferð með Fjallahjólaklúbbnum sagði Unnur mér frá því að hún væri að fara að hjóla Kjöl um helgina. Spurði hvort ég vildi ekki koma með. Ég er alltaf til í að hjóla eitthvað, að eyða helgum í að bæla sófa og góna á sjónvarp er ekki minn tebolli. Svo við lögðumst í smá skipulagsvinnu og ákváðum að taka rútuna upp á Hveravelli og hjóla í bæinn á tveimur dögum. Þriðja skvísan varð svolítið spennt og við ákváðum að gera hópferð úr þessu og athuga hvort fleiri vildu koma með, auglýstum á vef Fjallahjólaklúbbsins. Björg er nýgengin í Fjallahjólaklúbbinn og fékk póst um þessa harðjaxlaferð, en auglýsingin var orðuð nægilega groddalega til að það kæmu ekki með einhverjir sunnudagshjólarar sem myndu gefast upp eftir 10 km. Vegalengdin er nefnilega u.þ.b. 200 km og þá þurfa menn að vera í formi og geta hangið á reiðhjóli í nokkra klukkutíma á dag. Þá vorum við orðnar fjórar, en ein hætti við á síðustu stundu, svo við vorum aftur þrjár. Allar fæddar 1964. Þessi líka fína árgerð.
Björgvin í Fjallahjólaklúbbnum bauðst til að taka að sér túrinn, það er óneitanlega þægilegra að sitja í góðum jeppa en hossast með rútu í nokkra klukkutíma. Þegar við komum upp á Hveravelli var hífandi rok. Svo sem ekkert nýtt að það sé rok á Íslandi. En hitinn var í kring um 16-18 stig, ágætt skyggni og við lögðum víggreifar af stað. Sýnist þó sem Björgvini hafi ekki litist á blikuna að senda okkur einar út í óvissuna, en Hrólfur, sonur hans hefur róað kallinn með því að hann væri með mynd af okkur fyrir björgunarsveitirnar.
Eftir einn og hálfan tíma vorum við bara búnar að leggja að baki 6 km. Það var svo stífur hliðarvindur að Unni var bókstaflega feykt út í móa, það tók svo í dýnuna sem hún var með á bögglaberanum. Slasaðist ekki mikið, eitthvað þó aum í lærinu og það setti strik í reikninginn.
Þá ákváðum við að skilja dýnuna eftir, við hlóðum hana steinum svo hún myndi ekki fjúka og vonuðum að einhver myndi taka hana upp í bíl. Ef einhver les þetta og veit um afdrif dýnunnar er hann beðinn að hafa samband við Unni (unnur@unnur.is). Eftir þetta tókst Unni loks að hemja ólman fákinn og við stefndum hægt en örugglega áfram í áttina að Gullfossi. Eða þar til farangursteygja losnaði og flæktist í gírskiptinum. Smá bras að losa það, og þegar við vorum rétt lagðar af stað aftur, þá sprakk hjá mér.
Þegar ég var búin að sitja sveitt, skipta um slöngu og handpumpa í dekkið, kom Björgvin keyrandi með rafmagnsloftdælu meðferðis sem ég hefði gjarnan viljað nýta mér. Haldiði að það hafi ekki brotnað hjá honum stýrisendi (eða eitthvað annað, ég veit ekkert hvað snýr fram eða aftur á bílum) og hann þurfti að leggjast í viðgerðir með jeppann, rétt eins og við stelpurnar með hjólin.
Planið hjá okkur var að ná niður á Gullfoss fyrsta daginn, 90 km leið. Við gáfum okkur 8 tíma í það með pásum, og þar eð fyrstu tveir tímarnir fóru í eintóma vitleysu var nokkuð ljóst að það myndi ekki nást fyrir myrkur. Við höfðum keyrt fram hjá litlum skála á leiðinni og ákváðum að reyna að ná þangað og gista þar, ekki fýsilegt að gista í tjöldum í brjáluðu roki. Þ.e. ef skálinn væri sæmilegur og ekki mikil fýla í honum. Já, já, ég veit, pjattið alltaf að drepa mann. Hófst nú mikill barningur við Kára sem vildi ólmur blása okkur aftur upp á Hveravelli, en við fundum loks skálann við Hvítá, en hann reyndist vera læstur. Leituðum við í myrkrinu og fundum ágætis grastó hinu megin við veginn sem rúmaði bæði tjöldin.
Björg var með sannkallað partýtjald með fortjaldi, við tróðum okkur þrjár inn í það og komum okkur vel fyrir. Grófu konur nú ofan í pinkla sína, kenndi þar ýmissa grasa, bjór, rauðvín, viský og vodki. Buggles snakk kórónaði svo kvöldvökuna. Það voru sagðar draugasögur, ferðasögur, grobbsögur, raunasögur, farið á trúnó, hlegið og hlegið og bara verulega næs og skemmtilegur endir á deginum, sem fór ekki alveg eins og áætlaður var. En þannig eru harðjaxlaferðir, það þarf að gera ráð fyrir því að ferðaplön fari út í veður og vind.
Við sáum ekki fram á að ná til Reykjavíkur á sunnudeginum, við bjuggumst fastlega við því að þurfa að láta sækja okkur á Laugarvatn eða Þingvelli. En veðurguðirnir voru með okkur seinni daginn, að vísu fengum við aftur vindinn skáhalt á móti framan af, en svo fengum við þennan líka fína meðvind og bókstaflega fukum frá Gullfossi að Laugarvatni. Eða kannski var það kjötsúpan á Gullfossi sem gaf okkur svona góðan kraft.
Ís og kaffistopp á Laugarvatni og í ákafa okkar að takast á við Lyngdalsheiði gleymdum við hjálminum og myndavélinni á veitingastaðnum Bláskógum. Eigandinn stökk upp í jeppann sinn, elti uppi ótemjurnar og afhenti okkur góssið. Kunnum við honum bestu þakkir fyrir það og veitingarnar, kaffið var í boði hússins í minningu vinar þeirra sem fórst í bifhjólaslysi.
Þegar við komum á Þjónustumiðstöðina á Þingvöllum varð mér litið á hraðamælinn og sá að við vorum búnar að brjóta 100 km múrinn þann daginn. Gátum varla beðið með að færa Unni tíðindin, en hún og annar hjólamaður komu að á sama tíma, Bjarni sagðist nú sem minnst vilja tjá sig um sinn hjólatúr þegar hann heyrði okkur garga "101 kílómetri" á Unni. Klukkan 18:30 og nokkuð ljóst að við næðum heim á eigin vöðvaafli. Bara 50 km eftir inn í Reykjavík, svo þetta er lengdarmetið hjá mér, 161 km á einum degi. Sem sjá má vorum við orðnar örlítið framlágar í lokin.
Smá tölfræði í lokin yfir þessa tvo daga.
Hjólaðir km : 222 (61 fyrri daginn, 161 seinni)
Tími á hnakknum : 13 klst og 17 mín
Meðalhraði: 16.7 km / klst
Þó að við höfum farið svona stutt fyrri daginn var hann miklu erfiðari en sá síðari. Kom mér á óvart hvað það er erfitt að hjóla lengi í hliðarvindi. Raunar var hann svona ská á móti á köflum. Þessi mynd er tekin á Þingvöllum, til minningar um 101 km múrinn. Ég er bara sæmilega stolt af okkur fyrir að hafa klárað dæmið, það leit ekki út fyrir það á laugardeginum. Ætli við verðum ekki þekktar sem 1964-naglarnir hér eftir!
Fleirir myndir úr ferðalaginu er að finna hér:
Eldri færslur
- Október 2017
- Ágúst 2017
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Desember 2013
- Október 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Maí 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Febrúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Janúar 2009
- Nóvember 2008
- Maí 2008
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 9
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 9
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Verð að viðurkenna að ég fæ smá fiðring við að skoða myndirnar, þetta hefur örugglega verið alveg hrikalega gaman!
Kolbrún Jónsdóttir (IP-tala skráð) 8.9.2010 kl. 13:53
Hörkugott. Það er eitt að hjóla þetta án pinkla í þokkalegu veðri (held ég) - en annað að vera í roki og klyfjuð. Síðan er það andlegi þátturinn - að vera undir pari á fyrsta degi og láta það ekki trubbla sig. Glæsilegt enn og aftur.
örlygur Sig (IP-tala skráð) 8.9.2010 kl. 14:25
Vá, hvað þið eruð flottar!
Úrsúla Jünemann, 8.9.2010 kl. 22:44
Sæl Öllsömul.
Sæl Hrönn.
Skemmtileg ferðasaga og góðar myndir. Haltu þessu áfram.
Þið eruð meiri járnkerlingarnar, alveg ryðrfrítt hamrað stál í ykkur sko.
Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir sjálfmyndina að fara svona ferðir af og til.
Gott að geta sagt: "Sjáðu slóðann, þarna fór ég."
Ég hef ekki farið í almennilegan hjóltúr í ca. 7 ár. Núna þegar maður á allar græjur, þá fer maður ekki neitt, hjóla í mesta lagi í vinnuna. Ef hægt er að kalla það að hjóla að renna innan við kílómeter.
Kannski komin tími til að hrista rykið af ferðabúnaðinum, áður en maður flytur með hann inn í íbúð fyrir aldraða.
Kveðja,
Heimir H. Karlsson.
Heimir H. Karlsson (IP-tala skráð) 13.9.2010 kl. 13:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.