Reykjanes

Þó að ferðalagið hafi gengið glimrandi vel, verður þó ein hrakfallasaga að fylgja með.  Sunnudaginn síðasta var steikjandi sól og hitinn um 22 gráður.  Planið þann daginn var að hjóla frá Keflavík og þræða nokkur sjávarþorp á Reykjanesinu.  Koma við í Höfnum, en ég man ekki eftir að hafa nokkurn tíma komið þangað.  Hjóla niður að Reykjanesvita og fara í sund í Grindavík áður en hjólað yrði aftur til Keflavíkur.  Ég vildi ekki hjóla á Reykjanesbrautinni, svo ég valdi að taka malarstíg sem lá frá Grindavíkurvegi að afleggjaranum til Hafna.  Samtals yrðu þetta um 70 km með Reykjanesvitanum, en ég hafði allt kvöldið og þess vegna alla nóttina til að komast hringinn.  Þar eð hitinn var svona mikill var ég bara klædd í stuttbuxur og brjóstahöld.  Varð þó að vera með gula vestið þar eð ég var á malbikuðum akvegum og gæti allt eins búist við að ökumenn væru á mikilli ferð og því gott að þeir sæju mig í tíma.

07 12 010 

Ferðin gekk glimrandi vel framan af, en þegar ég var hálfnuð að Reykjanesvita var farið að blása svolítið hraustlega á móti og mér orðið kalt.  Ákvað að fara í langermabol á meðan vindurinn var á móti, vissi að frá Grindavík fengi ég meðvind.  Stoppa og gref ofan í bakpoka.  Úps, aukafötin urðu eftir í bílnum Frown  Ég vó og mat aðstæður, ef ég héldi áfram að fara hringinn, þá fengi ég hliðarvind frá Reykjanesvita að Grindavík.  Svo yrði meðvindur frá Grindavík að Keflavík.  Gæti stoppað í Grindavík og fengið mér að borða eða farið í sund eins og upphaflega planið var.  En svo fattaði ég að ég gæti nú hvergi farið inn á matsölustað á brjóstahaldaranum einum fata.  Eða lítandi út eins og hálfviti í gula endurskinsvestinu, sem er opið á hliðunum.  Og ekki víst að það væri opið frameftir á sunnudegi í sundinu.  Eða ég gæti snúið við strax og hjólað aftur sömu leið til baka, en þá fengi ég ská-mótvind frá Höfnum að Keflavík.  Svo ég ákvað að halda áfram, tók handklæðið úr sundpokanum og strengdi yfir axlirnar innan undir vestinu.  Var með buffið og notaði það til að halda hita á hálsinum og eyrunum.  Á leiðinni til Grindavíkur varð sífellt kaldara og smám saman dró fyrir sólu, uns það var orðið alskýjað og ég komin með tannaglamur af kulda.

Þá spáði ég virkilega í því að skilja hjólið eftir og húkka mér far að mínum bíl.  Koma svo á bílnum og sækja hjólið.  En var nú ekki alveg á því að fólk myndi stoppa til að gefa mér far, lítandi svona út, þetta ljósbláa er handklæðið.

07 12 001

Og ábyggilega því síður ef ég hefði farið úr vestinu og staðið þarna á brjóstahaldaranum við að húkka far.  Hmmm, eða kannski menn stoppað og haldið að ég væri að bjóða eitthvað í skiptum fyrir farið....

Svo það fór svo að ég ákvað að hjóla áfram eins og fjandinn væri á hælum mér, sleppa malarstígnum og taka Reykjanesbrautina í staðinn.  Þó að það sé þægilegt að hafa smá vegaröxl til að hjóla á, þá víkja ökumenn ekki við þær aðstæður.  Ekki einu sinni þó að það séu tvær akreinar og lítil umferð.  Og hávaðinn frá dekkjunum er einhvern veginn mun meiri og óþægilegri þegar menn fara fram úr á 110 km hraða en þegar hraðinn er 60-70.

Eftir á reiknast mér til að ég hafi hjólað um 65 km.  Á 3 og hálfum tíma.  Með hæfilegu drolli framan af á meðan veður var gott.  Ætli það sé þá ekki bara Bláa-lóns keppnin á næsta ári?

Bíllinn minn getur ekki talist sá glæsilegasti heimi, 11 ára gamall Opel Vectra.  En mér fannst þetta sko flottasti bíll sem ég hef nokkurn tíma sest uppí þegar hann tók á móti mér sjóðandi heitur eftir að hafa beðið eftir mér í sólinni í Keflavík.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: steinimagg

Já það er öruggara að tékka vél á því hvort allur búnaður sé með áður en lagt er af stað.

Sjáumst í Bláalóns keppninni næst :-)

steinimagg, 16.7.2009 kl. 20:08

2 Smámynd: Árni Davíðsson

Hvaaa á ég að selja þér tösku? Gott að hafa til að geyma smá aukaföt!

Það kemur nú fyrir bestu menn að gleyma sér á skýlunni þegar þeir koma til byggða.

Árni Davíðsson, 17.7.2009 kl. 10:21

3 Smámynd: Morten Lange

Þetta er nú bara hetjusaga  :-)

Morten Lange, 18.7.2009 kl. 15:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband