Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010
26.2.2010 | 12:03
Vígin falla eitt af öðru
Ef einhver hefði sagt mér í fyrra að ég ætti eftir að hjóla á Suðurlandsbrautinni, þ.e. akbrautinni hefði ég talið viðkomandi nett klikkaðann. En þetta gerði ég í gærkveldi af illri nauðsyn.
Ég hjólaði til vinnu í gær og valdi að fara stíginn við Miklubraut báðar leiðir, af því hann á að vera í forgangi hvað ruðning stíga varðar. Ég komst nokkuð auðveldlega til vinnu, en seinnipartinn náðu skaflarnir á köflum upp á mið læri, og ég þurfti að teyma hjólið ca 1/4 af leiðinni. [Innsk síðar] Ljósmyndari Fréttablaðsins var staddur á réttum stað á réttum tíma, þessi mynd af mér á Miklubrautinni birtist í Fréttablaðinu 27.02.2010
Ég hjólaði í klúbbhús Fjallahjólaklúbbsins í gærkveldi, á aðalfund LHM og ákvað að prófa Kleppsveginn, af því það er strætóleið og hún ætti að vera sæmilega mokuð. Það var hún ekki, væntanlega nógu góð fyrir strætó, en aðeins of mikill þæfingur fyrir mig. Svo ég ákvað að prófa Suðurlandsbrautina til baka, hvort það væri nokkuð mikil umferð í kring um miðnættið. Svo var ekki, og ég hafði alla akreinina fyrir mig. Vel skafin og gekk glimrandi vel að hjóla heim í Smáíbúðahverfið.
Í morgun var búið að moka stígana, en bara ekki nógu vel, snjórinn var oft 10-15 cm djúpur, sem væri í sjálfu sér ekki vandamál, en er það þegar stígurinn er fullur af djúpum fótsporum, þá er þetta eins og að reyna að hjóla á þvottabretti. Svo ég fór aftur út á Suðurlandsbraut. Núna var svolítil umferð, en samt ekki meiri en svo að ég gat ekki fundið að ég tefði fyrir ökumönnum. Ætli ég sé ekki búin að finna mér nýja leið til og frá vinnu. Nema maður verði svo mikill hjólanörd að hér eftir dugi ekkert minna en Miklabrautin! Það yrði síðasta vígið.
Fólk hvatt til að ganga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 1.1.2012 kl. 12:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
24.2.2010 | 16:45
Hún hefði betur verið á hjóli
Kvenkyns biskupinn sem var tekin full undir stýri. Þ.e. ef umferðarreglur eru sams konar og hér á landi. Það má nefnilega hjóla fullur á Íslandi, en það má ekki keyra vélknúnu ökutæki eftir að hafa drukkið áfengismagn sem samsvarar einum bjór, einu rauðvínsglasi eða einum snafs.
Reglan um áfengisdrykkju hjólreiðafólks er í grein númer 45 í umferðarlögunum, svohljóðandi:
"Enginn má hjóla eða reyna að hjóla eða stjórna eða reyna að stjórna hesti, ef hann er undir svo miklum áhrifum áfengis eða annarra örvandi eða deyfandi efna, að hann geti eigi stjórnað hjólinu eða hestinum örugglega." Tilvitnun lýkur.
Ég varð satt að segja svolítið hissa þegar ég rakst á þessa klausu í umferðarlögunum. Mér hefði þótt mun eðlilegra að hjólafólk væri flokkað með ökumönnum vélknúinna ökutækja, enda getur verið aukin slysahætta af drukknum hjólreiðamanni. Hvernig í dauðanum á ég að meta hvort ég sé of drukkin til að hjóla eður ei? Venjulega fyllist maður hvílíku stórmennskubrjálæði þegar maður er kominn í glas, getur allt, kann allt og "kva, hjóla heim, miiiinnsta málið!", þótt maður standi varla í lappirnar...
Ég hefði viljað vera fluga á vegg þegar þessi klausa var samin. Mig grunar að á fundinum hafi einhver gert athugasemd við það að hestamenn megi ríða fullir, en ekki hjólreiðamenn. Og þar eð hestasport er heldri manna sport og flestir fundarmanna ekki viljað missa skemmtilegu réttar- og landsmótastemminguna, til að friða þennan eina hjólandi sérvitring, þá hefur einhver svarað : "Jæja, þá, hesta- OG hjólreiðamenn"
Biskupinn segir líklega af sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 1.1.2012 kl. 12:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.2.2010 | 22:32
Selfoss
Ekki í fyrsta sinn og ekki það síðasta sem plönuð útivistarferð breytist í fyllerísferð í nálægu sveitarfélagi. Það hefur nú oftast gerst þegar ég hef ætlað að viðra mig í Hvalfirðinum eða Borgarnesinu. En núna guggnaði ég á að hjóla til Selfoss og til baka næsta dag. Aðallega af því það hefði verið töluverður mótvindur og 5 stiga frost seinni daginn. Það yrði nú vont að missa tærnar. Nú eða nefið. Þó að maður hjóli ekki með því.
Það var samt ekki legið og sumblað í heita pottinum alla helgina, ég tók hjólið með og tók nokkra hringi í nærsveitum Selfoss. Það var ansi kalt verð ég að viðurkenna, ég var meira að segja farin að líta æði krimmalega út á köflum.
Búrfellið reyndi að blikka mig, en við áttum stefnumót í september síðastliðnum þegar gönguklúbburinn minn kleif klettinn.
Rauða mölin er ákaflega falleg og vinsæl í heimreiðum sumarbústaða.
Ég verð að fara að kaupa mér skauta, það hefði verið geggjað gaman að skauta í Kerinu.
Hringirnir sem ég fór voru 25-30 km langir. Að hluta til malarvegir. Smávegis hækkun, engar brekkur til að tala um.
Dægurmál | Breytt 24.1.2016 kl. 16:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.2.2010 | 13:38
Fínasta ferðaveður
Þetta er veðurspáin fyrir daginn í dag. Fínasta hjólaveður. Sannleikurinn er hins vegar sá að í dag er fyrsti dagurinn á þessum vetri sem ég lenti í vandræðum vegna veðurs á leið minni til vinnu. Það er nefnilega hífandi rok og skítakuldi. Ég var á Skúlagötunni og vindstyrkurinn slíkur á móti að ég var orðin alveg stopp. Beygði þá upp á Hverfisgötuna, ef það skyldi vera skjól þar inn á milli húsanna. Ég komst ekki einu sinni niður Hverfisgötuna, ég fauk aftur á bak í hviðunum. Svo ég teymdi hjólið síðasta spölinn í vinnuna. Það er varla stætt úti í miðbæ Reykjavíkur, en samt sýnir Veðurstofan ennþá 3 metra á sekúndu þegar þetta er skrifað, kl 13:40. Ekki hef ég séð neina stormviðvörun eða að fólk sé varað við því að vera á ferli.
Þar eð ég ætlaði að hjóla frá Reykjavík til Selfoss um helgina ásamt fleira fólki, hef ég verið að fylgjast svolítið náið með veðurspánni, og sjá hversu áreiðanleg spáin er. Spáin var mjög svipuð fyrir þessa þrjá daga. Svo ég þori ekki öðru en blása ferðina af og reyna aftur seinna þegar það er farið að vora og minni líkur á skyndilegum vetrarstormum sem enginn sá fyrir. Ekki heldur Veðurstofan.
Dægurmál | Breytt 24.1.2016 kl. 16:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.2.2010 | 19:25
Ekkert spes lengur
Ég hef alltaf haft gaman af því að vera öðru vísi. Ég hef svo sannarlega verið öðru vísi í heimi hjólreiðafólks undanfarin ár, en kannski á fremur lummó hátt. Hef kannski aðeins gengist upp í því að hjóla allra minna ferða, þegar fólk á ekki von á því að miðaldra, gigtveik, allt of feit kona hjóli í hvaða veðri sem er á hálf-ónýtu byko hjóli. Í flís-skíðanærfötum einum fata.
Kreppan hefur ekki leikið okkur grátt, ég get alveg fjárfest í góðum búnaði, ég er bara svo nýtin, að ég hef ekki kunnað við það, enda átti ég 3 nothæf reiðhjól í haust. Svo mér fannst að ég þyrfti eiginlega að hjóla þau út áður en ég fengi mér nýjar græjur. Örlögin gripu í taumana. Þessi þrjú hjól yfirgáfu mig á innan við einum mánuði í vetur. Eitt var orðið 8 ára og eftir hraustlegt keðjuslit sem braut gírskiptinn og beyglaði kransana, þá endaði það hjól í varahlutum. Hin tvö hjólin voru rétt um árs gömul, þau voru keypt í full miklum flýti, það var útsala og hjólin kostuðu 18 og 24 þúsund. Annað var samanbrjótanlegt en stellið var aðeins of lítið, eða hnakkstöngin ekki nógu löng, mér fannst vanta nokkra sentímetra upp á að ég væri með nógu útrétta leggi á því. Hitt hjólið átti eldri strákurinn að fá þegar hann væri orðinn of stór fyrir 24 hjól. Öðru hjólinu var stolið úr bakgarðinum okkar um hábjartan dag, hitt hjólið á ég raunar enn, ég man bara ekki alveg hvar ég lagði því *hóst* eftir mjög svo skemmtilegt djamm í miðbæ Reykjavíkur....
Undanfarnar vikur hef ég verið á lánshjóli sem bróðir minn bjargaði frá Sorpu þegar húsfélagið fór í tiltekt og enginn vildi kannast við fararskjótann. Það hjól hefur verið eitt skemmtilegasta hjól sem ég hef nokkurn tíma hjólað á, stærðin passar mjög vel og það er létt og auðvelt að hjóla á því. Vantar að vísu dempara, mér finnst það betra, þó að maður sé á malbiki, ég er búin að fá hvílíku höggin upp í hné og jafnvel upp eftir öllum skrokk. Lenti í ferlegri holu á Dalveginum á leið á kóræfingu, ég emjaði alla vega hvílíkt hátt að ég var flutt úr altinum yfir í sópran...
En þetta hjól er búið að vera pínu gallagripur, við erum að verða búin með varahlutalagerinn og enn finnst mér vera eitthvað að, sennilega legurnar eða sveifaröxullinn við það að gefa sig. Svo ég ákvað að vera ekkert að bíða til vorsins, dreif mig niður í Örninn og keypti splunkunýtt hjól. Einhver verður að spreða seðlum og reisa við efnahag Íslands! Ég ákvað nú samt að kaupa ekki neitt voðalega dýrt hjól, annars myndi ég þurfa að skipta kallinum út og sofa með hjólið uppí...
Svo nú er ég bara eins og hver önnur hjólakona, komin í sæmilegt form, á nýju Trek hjóli, með Ortlieb hjólatöskur. Í hjólafatnaði frá Chain Reaction. Ekkert spes lengur.
Dægurmál | Breytt 24.1.2016 kl. 16:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.2.2010 | 17:20
Jákvæð afleiðing klámbyltingarinnar
Ég hef aðeins undrast þessa rakstursáráttu kvenna, ég er búin að stunda sund reglulega frá barnsaldri og það eru ekki mörg ár síðan maður sá fyrst rakaða píku í kvennaklefanum. Í dag er þetta mjög algeng sjón, eiginlega flestar á aldrinum 18-30 raka sig, mismikið þó. Mér þótti þetta afspyrnu kjánalegt og taldi þetta afsprengi klámbyltingarinnar, en ég er venjulega loðin eins og ég var sköpuð. Raka hvorki leggi, handarkrika né nokkurn annan stað á líkamanum. Helst að mig hafi langað til að raka á mig hanakamb, en það eru svona smá leifar af gamla pönktímabilinu. Held að ég reyni að standast freistinguna, verandi miðaldra húsmóðir.
Eeeeen í sumar var ég mikið á flækingi um sveitir landsins á reiðhjóli og þurfti að pissa hvenær sem er og hvar sem er. Var að reyna að vera umhverfisvæn og sleppti því að nota pappír, en þá vilja droparnir liggja í hárunum og í lok dagsins var ekki beint hægt að lýsa lyktinni af mér sem ferskum sumarblæ...
Svo ég prófaði að taka það brasilískt og ég verð að viðurkenna að þetta er þægilegra. Nú get ég migið úti í móa og hrist dropann eins og karlpeningurinn. Og girt upp um mig hreina og þurra.
Er þetta ekki annars jákvæð frétt? Finnst fyrirsögnin á fréttinni vera í full miklum hörmunga-stíl.
Og nei, þið fáið ekki mynd!
Flatlúsin í útrýmingarhættu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 16.10.2012 kl. 23:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
6.2.2010 | 19:35
Hjólað í sund í Mosfellsbæ
Það er ekki eins langt að hjóla upp í Mosfellsbæ og margur heldur. Mig langaði í sund og ákvað að hvíla Laugardalslaugina aðeins, fara í staðinn upp í Mosfellsbæ og reyna að finna nýju sundlaugina, en ég hef ekki komið í hana.
En svo gleymir maður sér við sjávarsýnina og ferska loftið og skyndilega var ég komin upp að gömlu sundlauginni við Varmárskóla, en sú nýja er mun neðar, nær Reykjavík. Það er gallinn við stígakerfið hérna, það þarf að sjálfsögðu vegvísa á því eins og er við umferðagöturnar. Ég var alfarið á stíg á leiðinni frá Reykjavík að lauginni, en mest megnis á götum á leiðinni til baka.
Ég hélt að ég hefði einhvern tíma komið í þessa laug, en greinilega ekki, laugin sjálf er 25 metrar, og dýpkar mjög skyndilega úr 1 metra í ca 4 eins og hönnunin var gjarnan á gömlu laugunum. Fyrir vikið fékk ég smá Avatar tilfinningu, enda með máð og lúin sundgleraugu sem juku á áhrifin. Magnað að synda fram af hengifluginu og stara skyndilega ofan í djúpið. Fyrsta og eina skiptið sem ég hef fundið fyrir lofthræðslu í sundi. Svo voru 3 heitir pottar og verkamenn að vinna að einhverju, sem gæti orðið busllaug fyrir yngstu gormana, en þessi laug er lítið spennandi fyrir fjölskyldufólk.
Ég var klukkutíma að hjóla frá Smáíbúðahverfinu og upp í Mosfellsbæ, meðfram sjónum með sterkan mótvind.. Svo hjólaði ég Hafravatnsleið til baka, í gegn um nýju hverfin í Gravarholti sem munu væntanlega standa með tómar tóftir um ókomin ár, ég gleymi alltaf að það er enginn góður stígur þarna á leiðinni til Reykjavíkur, ég enda alltaf á Vesturlandsvegi innan um bíla á 100+ km hraða.
Dægurmál | Breytt 24.1.2016 kl. 16:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.2.2010 | 18:53
Það sem hefur ekki vaðið upp á minn skjá...
Ég sé nú ekki alveg ástæðu til að hneykslast þó að karlmaður skoði myndir af fáklæddu kvenfólki í tölvunni sinni. Ég get alveg staldrað við fáklædda karlmenn ef þeir verða á vegi mínum við flæking á internetinu. Þó að það sé á vinnutíma.
Einu sinni var ég að horfa á fyndin myndbönd með syni mínum sem þá var 6-7 ára gamall. Síðan var íslensk og leiddi okkur inn á aðra síðu og ég ætlaði að athuga hvort þar væru fleiri fyndin myndbönd og klikkaði á link. Þá opnaðist gluggi þar sem tvær konur voru að leika sér með dildó. Það var enginn aðdragandi, ekkert verið að klæða sig hægt og æsandi úr fötunum, bara brjóst, læri, píkur og svo "plug and play action" á innan við 5 sekúndum.
Það sem maður verður skjálfhentur að reyna að hitta á agnarsmáa rauða krossinn í hægra horninu efst... Ég held að sonur minn hafi ekki beðið mikinn skaða af, hann alla vegar horfði á þetta áhugalaus með hönd undir kinn og sagði "þetta er ekkert fyndið, finnum eitthvað annað".
Skoðaði nektarmyndir í beinni útsendingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Eldri færslur
- Október 2017
- Ágúst 2017
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Desember 2013
- Október 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Maí 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Febrúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Janúar 2009
- Nóvember 2008
- Maí 2008
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar