Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010
19.4.2010 | 18:52
Háskahelgi
Þar eð ég vinn sitjandi við tölvu flesta daga og eina hættan við atvinnuna er að brjóta á sér nögl, þá langar mann að gera eitthvað öðru vísi um helgar. Ég var búin að plana langan hjólatúr þegar ég sá frétt frá Landlækni, að fólk skyldi halda sig innandyra og hafa rykgrímur við höndina. Eftir það iðaði ég í sætinu að komast út að hjóla. Eftir að hafa skoðað veðurspána (norðan og vestan átt um helgina) þótti mér ekki miklar líkur á að verða skyndilega umvafin gjósku úr Eyjafjallajökli. Enda er þá minnsta málið að draga buffið yfir vitin og húkka far með næsta bíl. Hvað fleira er hægt að gera til að gera tilveruna ögn meira spennandi? Júbb, það má gista í þessum líka heillandi afskekkta sumarbústað.
Hverjar eru líkurnar á að það hrynji bjarg úr fellinu og brjóti kofann í spað? Þ.e. einmitt nóttina sem maður veldi að gista þar? Það væri ekki vitlaust fyrir eigendurna að prófa að auglýsa á eBay eina helgi í þessum sumarbústað með yfirvofandi grjóthruni eða öskufalli. Spennufíklarnir gætu heldur betur barist um hituna og menn grætt á tá og fingri. Nei, ég gisti raunar ekki hér, en ég gæti sko látið freistast ef það væri í boði!
Ég gleymdi ekki að afklæðast þegar ég fór ofan í pottinn, þessi buff eru bara svo ljómandi praktísk, hægt að nýta þau á marga vegu, ég notaði bara svona þunn buff undir hjálminn síðasta vetur, tvö saman ef það var meira en 5 stiga frost eða mikil vindkæling. Það var ansi stífur vindur þetta kvöld og mér kalt á hausnum ofan í pottinum. Þetta er bara venjulegt buff, ég klippti rifu þvert yfir fyrir andlitið, þannig að það virkar sem kragi og eyrnaband eftir tilfæringar. Ég hefði kannski átt að fara með hjálminn ofan í, eða hjólið. Svona til að standa undir nafni!
Ég hjólaði í kring um þrjú vötn um helgina, Þingvallavatn, Úlfljótsvatn og Álftavatn. Þetta voru samtals 90 kílómetrar. Ég keyrði til Úlfljótsvatns í útilegu í fyrra, og umferðarþunginn var slíkur að ég ákvað að hjóla aldrei hringinn í kring um Þingvallavatn. Mér finnst bara ekki heillandi að hjóla úti í náttúrunni og mæta bíl á 5 sekúndna fresti. En núna er lag, ferðamannatíminn er ekki byrjaður, umferðin er ekki svo mikil og veður farið að skána. Að vísu var 4 stiga frost um helgina, svo ég þorði ekki að taka nagladekkin undan hjólinu, ég fékk svo brjálaðan meðvind að ég var eiginlega hálfnuð með hringinn eftir 1 1/2 tíma. Það tók hins vegar ívið lengri tíma að fara á móti vindi. Það brast á með sól, haglél á köflum, hellidembu fékk ég líka, mótvindur sama í hvaða átt ég hjólaði. En þetta er bara náttúran á Íslandi, yndisleg í alla staði.
Dægurmál | Breytt 24.1.2016 kl. 16:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.4.2010 | 17:25
Gönguljós við Réttarholtsveg
Í fyrravetur var ég næstum því búin að keyra niður dreng á reiðhjóli. Þetta var við gönguljós yfir Réttarholtsveg, drengurinn kom dökkklæddur og ljóslaus út úr myrkrinu og skaust yfir götuna þegar gula ljósið var farið að blikka fyrir ökumenn. Ég bölvaði drengnum í sand og ösku, en ökumaðurinn á móti mér þurfti líka að nauðhemla til að keyra ekki á piltinn. Næsta dag lá þessi sami drengur í götunni, reiðhjólið við hliðina og ökumaður að hlúa að honum.
Aftur taldi ég drenginn hafa sýnt aðgæsluleysi og hjólað út á götuna þegar honum bar að bíða. En svo átti ég leið hjólandi fram hjá þessum gatnamótum og ákvað að skoða þessi ljós betur. Þegar einhver ýtti á hnappinn kom rautt ljós hjá ökumönnum, grænt ljós hjá þeim sem ætlaði yfir götuna. Eftir ákveðinn tíma byrjaði græna gönguljósið að blikka, á sama tíma kom gult blikkandi hjá ökumönnum. Svo drengurinn hefur talið að sér væri óhætt að fara yfir, ennþá grænt hjá honum. Börn eru ekki með sömu athyglisgáfu og fullorðnir og á fleygiferð á hjóli er erfitt að meta hvort ljósið sé farið að blikka eða ekki. Lýsingu var líka ábótavant við gönguljósin, ég sá drenginn ekki fyrr en hann skaust fram fyrir bílljósin hjá mér, samt var ég búin að rýna vel í báðar áttir til að sjá hvort fleiri voru að fara yfir.
Það er búið að gera þrengingu við þessi gönguljós, tíminn sem það tekur gangandi að fara yfir hefur styst og er það vel. Fólk hins vegar notar ekki alltaf hnappinn þegar það fer yfir, sérstaklega stálpuð börn og fullorðnir. Núna eru komin hvílíkar merkingar til að vara sljóa ökumenn við því að gatan sé einbreið á kafla, að það eitt og sér skapar nýja hættu. Gangandi geta verið ósýnilegir á bak við skiltin, sérstaklega börn. Ökumenn lenda í töfum þegar enginn er að fara yfir á gönguljósunum, þessi gata er með töluverðum umferðarþunga. Pirraðir ökumenn aka stundum yfir svona þrengingar, frekar en bíða eftir að röðin komi að þeim.
Þeir tveir þættir sem að mínu mati voru hættulegastir við þessi gönguljós fyrir breytingu eru enn til staðar. Ég gerði mér ferð að þessum ljósum til að sannreyna það. Það er ennþá grænt blikkandi ljós hjá gangandi þegar gult blikkar hjá ökumönnum. Og lýsingin er ennþá léleg.
Hér hefði kannski dugað að breyta ljósunum þannig að græna gönguljósið logi lengur, skipta svo strax yfir í rautt gönguljós, sleppa þessu blikkandi græna og stytta gula blikkandi ljósatímann hjá ökumönnum. Og koma upp lágum ljósastaurum við sitt hvorn endann. Kannski væru gönguljósin öruggari þannig í dag tvíbreið en við núverandi aðstæður?
Vilja draga úr umferðarhraða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 24.1.2016 kl. 16:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.4.2010 | 20:30
Fyrir nákvæmlega ári síðan...
... skrifaði ég bloggfærslu þar sem ég sagðist vera hætt að hjóla vegna heilsubrests. Auglýsti hjólin mín og hjólafatnað til sölu. Þetta var að sjálfsögðu aprílgabb og nokkrir hlupu fyrsta apríl og sendu inn fyrirspurnir um hjólin. Tveir tóku sérstaklega fram að þeir vissu vel að það væri 1 apríl, en vildu samt gera tilboð ef ég hefði ekki fattað sjálf að það væri 1 apríl og væri í alvörunni að selja hjólin.
Einn vildi fá myndir af mér í fötunum senda í email. Ég er enn að kitla hégómagirndina, að hann hafi virkilega langað í myndir af mér í þröngum spandex klæðnaði en væri ekki að reyna að láta mig hlaupa fyrsta apríl til baka.
Eftir því sem dagar, vikur og mánuðir liðu hélt fólk áfram að hlaupa apríl. Senda mér tilboð í hjólin. Ég fékk síðast tilboð í mars síðastliðnum, tæpu ári eftir að ég setti gabbið fram. Þá ákvað ég að fela færsluna, þó að það sé gaman að gabba fólk í einn dag á ári, þá vill maður ekki plata fólk allan ársins hring. Þó að ég hafi verið búin að uppfæra færsluna með 1 apríl klausu, þá dugði það ekki til, fólk las bara "hjól til sölu" og sendi svo póst hið snarasta til að missa nú ekki af tækifærinu.
Mér hefndist raunar fyrir gabbið, hjólinu mínu var stolið úr bakgarðinum um hábjartan dag. Við áttum þó margar ánægjustundir allt síðasta ár, þessi mynd er tekin nálægt Húsafelli einn sólríkan dag síðastliðið sumar. Einstaklega skemmtileg leið til að njóta náttúrunnar í návígi.
Ég hefði kannski átt að halda færslunni inni og sjá hvort ég geti ekki sett Íslandsmet í lengd aprílgabbs.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Eldri færslur
- Október 2017
- Ágúst 2017
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Desember 2013
- Október 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Maí 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Febrúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Janúar 2009
- Nóvember 2008
- Maí 2008
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar