Bloggfærslur mánaðarins, júní 2010
27.6.2010 | 15:05
Fnjóskadalur
Það verður ekki meira lagt á Sunnlendinga og Suðurnesjamenn í bili. Þeir hafa þolað að horfa upp á mig hjóla spandexklædda og meira að segja á brjóstahaldaranum síðustu misserin, svo nú var mál að hvíla þá og herja á Norðanmenn í staðinn.
Það var svolítið einkennilegur farangur í skottinu, hækjur og reiðhjól, en sem betur fer var hjólið meira notað. Ég labbaði nánast ekkert þessa viku, var í sumarbústað í Fnjóskadal, lá og sleikti sólina þegar hún bauðst, og svo var hjólað eitthvað í nágrenninu á hverjum degi og farið í sund.
Síðasta sumar hjólaði ég á Suð-vesturlandi, allt á mjög góðum malarvegum. Ég er ekki mikið að fara vegleysur eða út í óbyggðir á reiðhjóli, þess vegna valdi ég mér hybrid hjól í vor, sem er meira götuhjól, enda taldi ég að ég yrði mest á malbiki og betri malarvegum þegar ég færi að hjóla út úr bænum.
Þessa viku var ég eiginlega 90% á hvílíku stórgrýttu fjallaslóðunum, að ég hefði sko ekki treyst mér að keyra þá á Jepplingnum. Svo ef það hafa verið afskekktir ferðamenn sem hafa setið úti í móa og séð mig hjóla fram hjá aleina, grenjandi af hlátri, þá var það bara tilhugsunin um rennisléttu malarvegina sem ég ætlaði að hjóla í fríinu, verandi hálfbækluð með biluð hné og á götuhjóli með sléttum dekkjum.
Lengsti hringurinn sem ég hjólaði var Fnjóskadalur - Hellugnúpsskarð - niður með Eyjardalsá - og svo þjóðveg 1 til baka inn í Fnjóskadal. Samtals 70 km og hæsti punktur 600 metrar. Ég skal viðurkenna að þegar ég var að fara niður sumar brekkurnar og hjólið var eins og stjórnlaus ótemja á milli fótanna á mér, þá hugsaði ég "Nú væri gott að vera á fjallahjóli"
Vegurinn hvarf á köflum undir snjóskafla en ég gat alltaf fylgt rafmagnsmöstrunum þar til ég komst í menninguna við Goðafoss, þar er þjóðvegasjoppa, og ég var búin að sjá hamborgara með öllu í hvílíku hyllingunum þegar ég húkti hundköld í kaffipásu uppi á toppi (hitinn alveg niðri við frostmark, þó að það væri 15 stig niðri á jafnsléttu), en ég á bara ekki að komast í hamborgara á mínum hjólaferðalögum, en þar fengust þó samlokur og pulsur með öllu. Og súkkulaði.
Fyrsta morguninn sem ég vaknaði í sumarbústaðnum og tók úr mér eyrnatappana hrökk ég í kút. Það voru hvílíku klór-hljóðin og þungir dynkir sem heyrðust, að ég hélt einna helst að það væru birnir eða úlfar að reyna að komast inn í bústaðinn. Eftir að hafa kíkt út um gluggana og ekki séð neitt, fór ég út til að sjá hver væri að berja bústaðinn að utan. Það voru þá litlir sakleysislegir fuglar að trítla á mæninum, bara hljóðið magnaðist svona upp innandyra. Annars er mjög gaman að stúdera dýralífið þegar maður er svona einn á ferð, það hafa raunar bara kindur og fuglar orðið á vegi mínum, en það er mikill munur á hegðun þeirra eftir því hvar maður er hverju sinni.
Rollurnar á Látraströndinni voru skíthræddar við mig. Hópuðust saman og hlupu og hlupu eins og þær ættu lífið að leysa. Stoppuðu svo og góndu á mig og hlupu aftur af stað í hvert sinn sem ég nálgaðist. Á köflum var ég farin að upplifa mig sem rollu-reka, það var hvílíkur hópur kominn á undan mér á veginum. Ég var farin að hafa áhyggjur af því að þær myndu hlaupa fyrir björg, enda bratt niður í sjó, og þær gætu farið sér að voða. Eins gott að engum detti í hug að "bjarga" þeim frá bráðum bana með því að hleypa skotveiðimönnum inn á svæðið. Kynsystur þeirra á malbikinu á þjóðvegi 1 voru hins vegar öllu vanar og létu mig ekkert trufla sig, héldu bara áfram að bíta gras alveg í vegarkantinum. Hvort sem ég fór hjá á bíl eða reiðhjóli.
Þegar ég hjóla á Höfuðborgarsvæðinu sé ég bara fugla út undan mér. En þegar ég er ein á ferð á fáförnum sveitarvegum, sérstaklega þegar ég hjóla á þeirra flughraða, þá hópast þeir að mér. Mynda fagurlega fylkingu rétt á undan mér, kvaka og syngja og eru greinilega að bjóða mér í gleðskap. Sveigja svo út af veginum upp í næsta klett en allt fer í upplausn þegar ég fylgi ekki á eftir, enda verð ég að hjóla áfram á veginum, þýt ekkert rétt si svona út í móa á eftir einhverjum partý-gaukum. Þá koma þeir aftur, garga á mig, mynda nýja fylkingu, og reyna aftur að fá mig með, áður en þeir gefast upp á þessari einstefnulegu kvensu sem fer bara sínar eigin leiðir.
Fleiri myndir frá ferðalaginu má sjá á Picasa vefnum, sem og aðrar myndir sem ég hef tekið á hjólaferðum, ýmist ein eða með Fjallahjólaklúbbnum. Ég tek þó ekki mikið af myndum, ég er meira að filma myndbönd þegar ég er á ferð með öðru fólki. Þau eru hér á barnum til vinstri undir tenglar.
https://photos.app.goo.gl/uXseVggDex4kmyBy8
Dægurmál | Breytt 2.4.2020 kl. 14:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.6.2010 | 08:38
Bláa Lóns áskorun
Það var þreyttur, skítugur en ánægður hjólari sem kom heim í hlað eftir frábæra keppni á sunnudaginn. Maður þarf eiginlega að taka þátt til að átta sig á hversu mikið er lagt í undirbúning og utanumhald í kring um svona stóra keppni, við í Fjallahjólaklúbbnum fengum Albert formann HFR til að koma á opið hús og fræða okkur um leiðina og undirbúning, mjög gagnlegt og margir góðir punktar sem þar komu fram. Úrslit og myndir frá þessum magnaða viðburði má sjá á vef Hjólreiðafélags Reykjavíkur www.hfr.is
Það var smá beygur í mér fyrir keppni, verandi með svolítið bilað hné og á hybrid (hjól á sléttum dekkjum, mitt á milli fjallahjóls og götuhjóls), en ég á ekki fjallahjól í augnablikinu. Ég ákvað að leggja alla vega af stað, vonaðist til að ná í mark áður en tímatöku lyki (eftir ríflega 4 tíma), annars myndi ég bara breyta keppninni í rólegheita sunnudags-hjólatúr og taka allan daginn í þetta.
Ég sé marga hjólara sleppa báðum höndum af stýri og geta athafnað sig við ýmislegt á meðan þeir hjóla áfram eins og ekkert sé. Ég get þetta alls ekki, á meira að segja erfitt með að halda jafnvægi ef ég sleppi annari hendi af stýri. Og komst að því að ég get ekki drukkið og hjólað í einu, það fer allt einhverja vitlausa leið og ég bara hósta og frussa. Og hjálpi mér, þetta orkugel var svo mikill vibbi að ég var með klígju í langan tíma á eftir, hélt einhvern veginn að þetta væri þynnra, blautara og rynni betur niður. Þessu hefði ég alls ekki komið niður á ferð, en ég stoppaði tvisvar sinnum á leiðinni, fyrst til að klæða mig úr jakkanum og svo til að fá mér gelið og liðka axlir áður en ég lagði í Ingólfsskálabrekku, en þá var ég farin að finna fyrir smá hungur-skjálfta og vildi nú ekki fara að lyppast niður orkulaus rétt fyrir framan markið.
Það eru kostir og gallar við að vera á Hybrid í Bláa Lóns keppninni. Kostirnir eru þeir að ég komst hraðar á malbikinu, en gallarnir þeir, að ég þurfti að fara varlega í mölinni, hjólið dansaði full mikið niður malarbrekkurnar og það er líka meiri hætta á að sprengja dekk. Hristingurinn var hroðalegur á köflum, það eru brotnir teinar í afturgjörðinni, hún er eitthvað skökk og ljóst að fákurinn þarfnast smá aðhlynningar.
En ég komst í mark og bara mjög ánægð með tímann minn, 2:47:10, varð 3ja í mínum aldursflokki, 10unda af 48 konum og 135ta af 294 sem tóku þátt á 60 km leiðinni. Nú á ég tvo verðlaunapeninga eftir tvær hjólakeppnir í ár.
Þetta verður að teljast bara nokkuð gott í ljósi þess að ég var í hörmulegu formi fyrir tveimur árum, 35 kg þyngri en ég er í dag, með marga kvilla tengda offitu og bara, aldrei hefði mér dottið í hug árið 2008 að ég ætti eftir að komast á verðlaunapall í hjólakeppni.
Dægurmál | Breytt 1.1.2012 kl. 12:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.6.2010 | 05:25
100 km á einu epli
Ég ætlaði að hjóla áleiðis upp í Mosfellsbæ og kannski skreppa í sund ef heilsan leyfði. Ég var í gönguferð við Garda vatnið og eftir flugferðina heim var ég með mikið vatn i hnjánum, en ég er með slitgigt. Leyfi mér þó að fara í svona gönguferðir einu sinni á ári, enda fátt sem lyftir andanum betur upp en mátuleg blanda af hreyfingu og menningartengdum viðburðum.
Ég ætlaði að taka þátt í Bláa lóns áskoruninni, hjóla 60 km leið frá Hafnarfirði að Bláa Lóninu, en eftir hjólatúr á mánudaginn, þar sem ég komst varla upp fyrir 10 km hraða og rétt náði 10 km, þá runnu á mig tvær grímur, kannski betra að fresta þátttöku til næsta árs. Annað hnéð læstist reglulega og ég fékk lamandi verk niður eftir fótlegg í kjölfarið. Fór samt aftur út að hjóla næsta dag, náði aðeins lengri vegalengd, þó að hraðinn væri ekki mikið betri.
En í gær ákvað ég að prófa að hjóla 20-30 km og athuga hvernig hnéð væri eftir það. Þegar ég kom upp í Mosfellsbæ var ég bara komin í sæmilegt form og stöðugt lengra á milli læsinga í hnénu. Svo ég ákvað að hjóla aðeins upp á Mosfellsheiðina og breyta rólegheita hjólatúrnum í próf, hvort ég væri í formi fyrir Bláa Lónið. Ætlaði að hjóla ca 30 km án þess að stoppa og snúa svo við svo ég næði 60 km heildarvegalengd. Veðrið var guðdómlegt, sól, hiti og ég á stuttermabol og stuttbuxum.
Þá fékk ég eina af mínum góðu hugmyndum, að halda áfram yfir á Þingvelli, fá mér ís og hjóla svo aftur í bæinn. Eftir því sem ég nálgaðist Þingvelli og svengdin og garnagaulið jókst breyttist planið í hamborgara og ís í eftirrétt. Hnéð var alveg hætt að læsast og ég veit af fenginni reynslu að hjólreiðarnar hjálpa til við að fjarlægja vökvann úr hnjánum. Ég var jafnvel að spá í að fara Nesjavellina heim úr því veðrið var svona gott, ég gæti nestað mig upp á Þingvöllum, en ég tók bara með eitt epli og vatnsbrúsa í hjólatöskuna sem ég ætlaði að snæða eftir sundið.
Af tvennu illu er betra að gleyma aukafötunum, en gleyma veskinu heima og vera nánast nestislaus í 100 km hjólaferð. Þar með breytti ég aftur planinu, ákvað að éta epla skömmina og hjóla aftur yfir Mosfellsheiðina. Eplið náði að seðja sárasta hungrið og ég hjólaði aftur af stað, áætlaði að vera 2 tíma á leiðinni heim, en ég var rétt 1 og hálfan að fara frá Reykjavik til Þingvalla. Lendi ég ekki í einum stífasta mótvindi sem ég hef nokkurn tíma lent í. Var sem betur fer með jakkann ofan í hjólatöskunni, annars hefði ég verið bæði svöng og köld á heimleiðinni. Sem tók upp undir 5 tíma. Með tveimur góðum sólbaðspásum, en ég var að vona að hann myndi lægja með kvöldinu. Það gerðist náttúrulega ekki fyrr en ég kom í Mosfellsbæinn, og þá var ég komin með einkenni blóðsykurfalls, en ég hef glímt við sykursýki á undanförnum árum. Er þó hætt að taka lyf við henni, enda næ ég núorðið að halda sykrinum góðum með bættu mataræði.
Fyrst verður maður svangur, svo fær maður magaverki, svo vanlíðan og loks þegar blóðsykurinn er orðinn hættulega lágur fær maður yfirþyrmandi tilfinningu að leggjast niður og fara að sofa. Vöðvar láta illa að stjórn og ég var komin með þreytu dauðans, en ég á alveg að hafa úthald í 7 tíma hreyfingu, hvort sem það er göngu eða hjólaferð. En þá þarf maður að næra sig til að hafa úthald. Ég þurfti að setjast á annan hvern bekk i Gravarvoginum til að hvíla mig og reyna að yfirvinna svefnþörfina. Gemmsinn var náttúrulega í veskinu heima, svo ég gat ekki hringt eftir hjálp, en ákvað að ég yrði að stoppa einhvern vegfaranda ef ég færi að sjá svartar flygsur, sem er merki um að blóðsykurinn sé orðinn verulega lágur. Fyrst var ég að íhuga að banka upp á hjá einhverjum bóndanum á leiðinni og biðja um banana, en þegar ég er í þessu ástandi riða ég til og verð þvoglumælt, svo ég var nú ekki viss um að ég fengi bliðar móttökur ef ég færi að banka upp á hjá bláókunnugum og betla mat. Fólk með sykursýki i blóðsykurfalli hefur liðið út af og ekki fengið hjálp frá fólki af því það telur að viðkomandi sé drukkinn eða undir áhrifum eiturlyfja.
Þegar ég kom heim mældi ég blóðsykurinn og hann var farinn niður fyrir 3, en á þessum tíma dags er æskilegt að hann sé nálægt 8. Gúffaði í mig ab-mjólk með músli, tveimur ávöxtum, fékk kuldakast og skalf inn í ómegin. Vaknaði svo eftir 7 tíma, stálslegin, hress og kát, hnén í fínu lagi, engar harðsperrur.
Svo ég er klár í slaginn, Blú Lagún, hír æ komm!
Hafa komið til móts við skuldavandann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Eldri færslur
- Október 2017
- Ágúst 2017
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Desember 2013
- Október 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Maí 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Febrúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Janúar 2009
- Nóvember 2008
- Maí 2008
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar