Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2010

Sól og blíða á Ísafirði

 febrúar 2009 112

Ég hjólaði inn í Engidal sem er rétt fyrir utan Ísafjörð og rakst á þetta skilti. 

 febrúar 2009 017

Blóðlangaði að hjóla upp að Fossavatni og þaðan yfir á Kubbinn, en ákvað að hemja mig og mæta næsta dag, vel nestuð og hafa góðan tíma til að hjóla þetta.

febrúar 2009 040

Þegar ég var krakki á Ísafirði hjóluðum við oft upp Dagverðardalinn (næsti dalur við Engidal) og eftir að hafa erfiðað upp brekkuna var upplagt að fá sér sundsprett í þessari tilbúnu "sundlaug".  Gallinn var að þetta var ekki nein útilaug, heldur vatnsból Ísfirðinga.  Svo fór maður heim um kvöldið og drakk skítinn af sjálfum sér.  Við fórum ekki alltaf ofan í, stundum flutu þar rolluhræ sem höfðu álpast ofan í á meðan þær voru lifandi.  Það sem drepur mann ekki gerir mann sterkari!

febrúar 2009 045

Ég veit ekki hvað Fossavatnið er notað í, nokkuð örugg um að það er ekki til manneldis, en ég vona svo heitt og innilega að það sé notað til að brynna skepnum, sérstaklega rolluskjátum, þá er ég búin að láta þær súpa seiðið af mér og hefna fyrir allt það sem ég drakk af þeim sem barn og unglingur á Ísafirði.

febrúar 2009 056

Tröllin í Engidal voru í stríðnara lagi þennan sólríka og heita sumardag.  Hvergi sá ég stíginn yfir að Kubbnum, datt helst í hug að þau hefðu flutt hann og sætu nú skellihlæjandi ofan á fjallahringnum að virða fyrir sér þessa kellingu sem var að burðast með hjólið yfir urð og grjót og upp á fjöll og firnindi.  Svo ég hætti við að hjóla yfir að Kubbnum og nálgast hann frekar næsta dag frá Dagverðardal.

febrúar 2009 105

Hvað er það annars með mig og stórgrýttu vegarslóðana þetta sumar?  Ég bara virðist sogast að endalausum ófærum og torfærum.  En hver stenst mátið þegar svona krúttlegir línuvegir laða mann og lokka að sér.

febrúar 2009 083

Útsýnið af toppnum var alveg óviðjafnanlegt.

febrúar 2009 089

Ég var ekki í stuði fyrir malbikið og göngin, ákvað að hjóla aftur yfir Breiðadalsheiði.  Enda komin nánast niður á Evuklæðin sökum hita.  Vildi ekki valda umferðarslysum með því að hjóla hálfnakin í gegn um göngin.  Og nei, þið fáið ekki mynd af mér í hjólaskónum einum fata.  Rakst loks á vegarslóðann yfir á Kubbinn Engjadals megin.  6 km og þótt að ég yrði að labba þetta allt saman, þá myndi það bara taka 3 tíma.  Svo ég lagði af stað.  Og varð að lúffa fyrir Kubbinum í annað sinn.  Hélt að það yrði auðveldara að fara með hlíðinni í staðinn fyrir að taka hækkun upp á 2-300 metra.  Lenti í skriðu og smá vandræðum, erfitt að fóta sig og teyma hjólið um leið.  Varð að fara til baka á rassinum og toga hjólið með mér.  Fúlt, en svona fer þetta stundum.  Kubburinn fer ekki neitt og hann verður lagður að velli einhvern daginn!

febrúar 2009 075

Ef þið eigið einhvern tíma leið í Kristjánsbúð, þá tekur húsfreyjan vel á móti ykkur, það er boðið upp á gómsæta naglasúpu, og þar eð það er alltaf sól, logn og blíða á Ísafirði, þá er ekki úr vegi að bæta á sig smá skvettu af sólarvörn sem einhver hugulsamur ferðalangurinn hefur skilið eftir.

febrúar 2009 071


Snæfellsnes - Bifröst

07-16 029 

Snæfellsnesið átti að taka í rólegheitum, fyrsti túrinn var áætlaður ríflega 30 km hringur og svo sund í Borgarnesi á eftir.  Nema ég dáleidd af jöklinum taldi mig hafa keyrt fram hjá fyrsta afleggjaranum.  Skipti svo sem ekki máli, stoppaði við næsta og ákvað að hjóla hringinn rangsælis.  Svo var hjólað af stað.  Helgi og bænastund við Álftaneskirkju, borðað nesti og lífið og tilveran hugleidd.

07-16 018

Þegar ég klára hringinn beygði ég í átt að Snæfellsnesinu, toguð áfram af kvöldsólinni og jöklinum sem glóði þar í allri sinni dýrð.  Ég hjóla og hjóla og hjóla.  Hvergi sé ég bílinn.  Hjóla fram á skilti sem ég man ekki eftir að hafa keyrt fram hjá.  Og öðru.  Og þriðja.  Hvurslags.  Mundi að ég hafði tekið mynd af fyrsta skiltinu og kíki á það til að sjá hvort ég hafi ekki örugglega farið í réttan hring.  Sé þar rauðan depil til merkis um að ég hafi farið inn í fyrsta afleggjarann og hjólað hringinn réttsælis.  Hvernig mér tókst þetta án þess að fatta skekkjuna á leiðinni er mér óskiljanlegt.  Var samt að furða mig á að vindáttin var ekki alveg rétt miðað við hvar ég var stödd í hringnum.  Svo fyrsti hjóladagurinn varð 80 km í staðinn fyrir 30.

07-16 008

Í fyrra þegar ég var á nokkurra daga hjólreiðaferðalagi um Vesturland rakst ég á einn mann á hjóli og tvo hjólandi krakka á einum bóndabænum.  Það var allt og sumt.  Það var alveg hellingur af hjólafólki á Snæfellsnesi, ég mætti mörgum ferðalöngum með klyfjuð hjól, og líka hóp af flottum hjólagörpum á æfingu sem fóru of hratt til að ég gæti borið kennsl á þá, ég hefði svo sannarlega flautað til baka ef ég kynni að blístra ;)

07-16 057

Arnarstapi - Snæfellsjökull - Fróðárheiði.  Ég sá lýsingu á þessari leið inni á umræðuvef Fjallahjólaklúbbsins og ákvað að fara í hjólför Örlygs.  Fékk alveg æðislegt veður, hef áður gengið á Snæfellsjökul, þá var veður leiðinlegt framan af en á meðan við gengum upp ruddi jökullinn sig af skýjum og við fengum útsýni í allar áttir.  Aftur gerðist það núna, það rigndi á leiðinni inn á Arnarstapa, en eftir því sem ég fór ofar glaðnaði yfir nesinu og hann brast á með brakandi bliðu.

07-16 062


07-16 049


07-16 058 

Rétt hjá Bröttubrekku rakst ég á þetta fróðlega skilti.  Þetta er held ég í fyrsta sinn sem ég sé karlmanni talið til hnjóðs að hafa samrekkt of mörgum konum.

07-16 034

Ég hef átt í smá brasi með afturgjörðina, ólin á hjólatöskunni flæktist í þeim fyrir nokkrum vikum með þeim afleiðingum að teinarnir hafa verið að gefa sig einn af öðrum.  Neyðin kennir klæddri konu að teina...  Maður bjargar sér bara!

07-16 080fixed

 

Bláa Lóns - myndband

Ég var með litlu myndavélina með mér í Bláa Lóns keppninni.  Var með litla tösku aftan á bögglaberanum með slöngum, pumpu, orkugeli og auka vatnsbrúsa.  Það var lítill vasi á töskunni og þar kom ég myndavélinni fyrir, skar út smá gat fyrir linsuna.  Ég vissi raunar ekkert hvað myndi nást, kannski bara blár himinn eða grá gata, en sjónarhornið var bara fínt og það sést vel stemmingin í hjólahópnum.  Hins vegar var keppnisskapið svo mikið að ég gleymdi að stöðva myndavélina, hún filmaði uns minnið var búið og fyrir vikið varð skráin mjög stór og ég náði henni ekki yfir í tölvuna mína.  Þurfti að leita ásjár hjá vini með öflugri tölvu og nýrra stýrikerfi.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband