Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2011

Jómfrúarferð jeppakerru

jeppakerra 

Það mátti sjá margan jeppakallinn snúa sig úr hálsliðnum síðastliðna helgi, en þá fór Fjallahjólaklúbburinn með nýju hjólakerruna sína jómfrúarferð Upp í Landmannalaugar.

08-13 025

Þar voru fákarnir leystir úr læðingi, og 14 knapar þeystu af stað áleiðis í Dalakofann.  Þrír jeppakallar og kellingar komu svo í humátt á eftir.  Farin var svokölluð Dómadalsleið, mikið um brekkur, bæði upp og skiljanlega líka niður.  Stundum er gott að hafa meðvindinn þegar maður er að hjóla, en hann hefur náttúrulega líka galla með í för.  Það var svolítið mikið um sandrok og erfitt að koma auga á holur sem leyndust í veginum.  Þó að sól hafi sést á köflum á laugardaginn, þá var ekki hangið í sólbaði, til þess var aðeins of mikil vindkæling.  Við fengum hins vegar þessa líka fínu húðslípingu af öllum sandblæstrinum, húðin verður slétt eins og á nýfæddum barnsrassi.

08-13 022

Enginn veit hvað það er góð skemmtun að láta vindinn feykja sér áfram á 40 km hraða eftir sléttum og góðum malarvegi.  Nema prófa það sjálfur.

08-13 030 

Við ákváðum að grilla lambalæri, snæða saman og hafa huggulega kvöldvöku i Dalakofanum.  Björgvin sá um að jeppakerran yrði klár í tíma, Sif keypti í matinn, Unnur skar niður grænmeti, ég pakkaði inn lærunum, ekki mínum, hvílauksgljáðum lambalærum sem strákarnir tóku við og skelltu á grillið.

08-13 024 

Kristjana ætlaði að sjá um skemmtiatriði kvöldsins, og það gerði hún svo sannarlega með stæl.  A la 2007.  Þyrla og alles.  Var nú ekki upphaflegt plan, en fór þó þannig.

08-13 023 

Fólk er mis glannalegt á reiðhjólum.  Ég misreiknaði t.d. eina bratta brekku, fetaði mig niður með aðra löpp á grundu, en þegar ég hélt að ég ætti stutt niður á jafnsléttu sleppti ég bremsunum og svo var ég bara komin á 50 km hraða niður holótta brekku, hjólið hristist og skalf og ferðafélagarnir sem voru fyrir neðan brekkuna stóðu á öndinni að aðdáun.  Hvar ég hefði lært svona mergjaða downhill takta.  Þegar ég hafði endurheimt hjartað úr buxunum viðurkenndi ég að ég hefði nú ekki ætlað að fljúga niður brekkuna, bara misreiknaði hvað hún var löng.

08-12 022

Það gerði hins vegar Kristjana ekki, hún fer ætíð mjög varlega, leiðir niður varasamar brekkur, og var á cm 5 km hraða (svipað og gönguhraði) þegar hjólið skrikaði í sviptivindi og hún datt á hliðina og meiddi sig.

 08-12 006

Við vorum svo heppin að með í för var Stefanía, hjúkrunarfræðingur af slysadeild og Sif sjúkraþjálfari.  Eftir stutta skoðun var ljóst að Kristjana var farin úr axlalið og handleggsbrotin.  Hún var flutt í skálann sem var rétt hjá og hlúð að henni þangað til þyrlan mætti til að flytja hana á sjúkrahús.  Þó að það sé ekki hægt að kalla svona atburð skemmtan, þá voru fæst okkar sem höfðu séð þyrluna í návígi og við fegin að hjólafélagi okkar fékk svo fljótt nauðsynlega aðhlynningu og viðeigandi lyfjagjöf til að lina verki sem fylgja svona beinbroti. 

08-12 014

Enn og aftur er maður minntur á hversu mikilvægt það er að hafa björgunarsveitir og þyrlur starfandi hér á Íslandi, þar sem náttúran er óblíð og óvægin þeim sem um hana fara.  Það verður sko bruðlað í flugelda um næstu áramót!

08-13 034

Við hin héldum áfram kvöldvökunni eftir að vinir okkar voru flognir á vit heilbrigðiskerfisins, ég fékk óvænta afmælistertu frá Önnu og Munda, gómsæta fallega skreytta skyrtertu.  Og svo var afmælissöngurinn sunginn svo glumdi í Dalakofanum.

08-12 026

Það voru óvenju margar byltur í þessari ferð.  Af 14 hjólurum hlutu 3 aðrir byltu.  Einn rispaði síðuna, annar fleytti kerlingar, missti andann og fyllti munninn af sandi.  Og svo gleymdi ég mér aðeins við að dáðst að útsýninu þegar sandrokinu slotaði og lá allt í einu í götunni með svona syngjandi fugla yfir mér eins og maður sér í teiknimyndasyrpum.  Eftir að hafa skoðað vegsummerki hef ég hjólað  á góðri ferð inn í sandgloppu, hjólið stoppað á punktinum, en ekki ég.  Hjálmurinn með þremur sprungum, svolítið ringluð, aum í öxlinni, pínu marin á mjöðminni og búin að týna pumpunni.  Það þótti mér verst, sjæse ef það skyldi nú springa dekk hjá mér...  Þá er nú gott að hafa varadekk

08-13 017

Stuttu síðar kom Björgvin á jeppanum að athuga, hvað ég væri að drolla þarna úti í mýri og tók mig upp í.  Ég var svo keyrð niður á Hellu, fékk kaffi, ibufen og ís.  Eftir það var ég bara ljómandi hress.  Skelltum okkur svo í sund til að mýkja skrokkinn sem var óneytanlega svolítið lemstraður eftir átökin við móður náttúru.

08-12 002 

Maður hefur heyrt um slöngur sem gleypa menn og önnur spendýr í heilu lagi og hrúgaldið sést þá utan frá á belgnum.  Ekki veit ég hvað þessi slanga át, það hlýtur að hafa verið mús eða hamstur.

08-13 014 

Hér má svo sjá myndband úr ferðinni, þar á meðal björgunarleiðangur þyrlunnar:


Þingvellir

08-06 027 

Ég skar smá flipa framan af fingurgómi þegar ég var að taka hjólið mitt niður af bílnum þegar ég var að keppa uppi á Akranesi fyrir nokkrum vikum.  Var ekki með sjúkrakassann með mér en ljósmyndari staðarins gaf mér tvo plástra sem dugðu til að hemja blóðflæðið.  Ég býst raunar allt eins við að ég hefði ekkert látið blæðandi fingurgóm stoppa mig í að taka þátt, þó að ég hefði ekki getað búið um sárið.  Mér til mikillar ánægju vann ég kvennakeppnina og hreppti mitt fyrsta gull og bikar til eignar. 

Daginn fyrir Íslandsmeistaramótið í hjólreiðum skar ég mig á beittu áli.  Aftur í fingurgóm.  Ætli þetta sé fyrirboði, hugsaði ég.  Og mikið rétt.  Ég vissi að annað gull væri í höfn.  Raunar daginn áður en ég tók þátt.  Það var nefnilega enginn skráður í B flokk kvenna í Íslandsmeistaramótinu nema ég.  Ég var því nokkuð örugg um gullið, nema mér tækist ekki að ljúka keppni á skikkanlegum tíma.  Það myndi þurfa meira til en sprungið dekk, ég er bara örfáar mínútur að skipta um slöngu.

Ég vissi líka eftir að hafa skoðað þátttakendalistann og séð að fólk var ræst í keppnishópum, að ég myndi ekki geta draftað hjá neinum.  Oftast hef ég valið mér stæðilega karlmenn sem eru örlítið sterkari hjólarar en ég og náð að hanga aftan í þeim og nýta kjalsogið.  Þá er snöggtum minni orkunotkun, og maður finnur raunar púlsinn fara niður í rólegheit.  Ég var ræst í hópi 4 afrekskvenna, svo ég vissi vel að þær myndu stinga mig af í fyrstu brekkunni.  Sem þær gerðu.

08-05 002

Að hjóla í keppni.  Það er erfitt að lýsa hvað er svona sérstakt við það.  Adrenalínið fer á milljón og maður fyllist einhverri einkennilegri "ég-skal" þörf.  Í fyrstu keppninni sem ég tók þátt í, Reykjanesmótið 2010, þá stóð ég úti í móa að filma keppendur þegar þeir lögðu af stað.  Svo átti ég eftir að hlaupa að hjólinu, ganga frá myndavélinni og koma mér af stað.  Þá voru allir keppendur horfnir og ég fylltist þessari sérstöku þörf ég-skal-þó-ná-manninum-með-hundinn.  Það er nefnilega svolítið krúttlegt við íslensku keppnirnar.  Þó að þarna sé afburða íþróttafólk að taka þátt, þá eru keppendur af öllu tagi, allt frá spandex liði yfir í ja, fólk í sunnudagshjólatúr með hundana sína.  Og svo miðaldra gigtveikar húsmæður eins og ég.  Það fór svo að ég hjólaði fram úr hverjum þátttakendum á fætur öðrum og endaði á verðlaunapalli, 3ja af 7 konum.  Þarna komst ég á bragðið, hvað keppnishjólreiðar geta fært manni mikið kikk.

Svo ég setti mér önnur markmið en venjulega þegar ég sá umgjörðina á þessu móti.  Að æfa mig í að drekka á ferð, erfiðara en marga grunar, taka því með æðruleysi ef það spryngi hjá mér (sem gerðist ekki) og athuga hvað ég væri lengi að fara 34 km ein í nánast logni.  Þetta var svipuð vegalengd og á Akranesinu, en ég var 7 mínútum lengur að hjóla Þingvellina.  Það munaði því að ég gat draftað í mótvindinum uppi á Skaga hálfa leið og var með meðvind hinn helminginn.  Ég skal viðurkenna að ég var líka farin að gleyma mér á köflum, ilmurinn af gróðrinum var yndislegur.  Landslagið var fallegt.  Ég var farin að glápa á léttklædda karlmenn í vegarkantinum, það var slatti að fólki við veiðar, á göngu eða hjólandi.  Þetta allt tefur og glepur þegar maður er í hjólakeppni!

Ég hef aldrei hjólað sömu leið tvisvar sinnum sama daginn.  Fyrr en þennan dag.  Ég fór einu sinni út að labba með  vinnufélaga í hádeginu í mörg ár.  Við löbbuðum 20 mínútna hring í Breiðholtinu.  Alltaf sama hringinn.  Einn daginn datt okkur í hug að labba öfugan hring.  Þá sáum við hluti sem við höfðum aldrei tekið eftir áður.  Gosbrunna, runna og ný blóm.  Allt annað Breiðholt.  Þannig var það með Þingvellina.  Það var skýjað fyrri hringinn, en svo brast hann á með sól og blíðu.  Seinni hringurinn var allt öðru vísi og mikið fallegri.  Allt annar Þingvöllur.

Í dag vildi ég óska að ég hefði hefði tekið örlítið betur á.  Af því A flokkur karlmanna náði að hringa mig rétt fyrir endamarkið.  Það hefði verið rosalegt kodak-moment fyrir mig ef ég hefði verið sjónarmun á undan þeim í mark, þó að ég væri að klára minn annan og seinni hring og þeir sinn þriðja af sex.  Stundum verður maður að stela athygli þegar færi gefst...  Ég var raunar að hugsa þetta á meðan ég var að hjóla.  Að ég yrði pottþétt hringuð.  Bjóst jafnvel við að það yrði af öllum keppendum, A og B flokki karla og A flokki kvenna.  Svo ég er bara ánægð með að það var eingöngu fyrsti hópur A flokks sem náði að taka fram úr mér á minni leið.

Og hvar annars staðar en á Íslandi fær maður að prófa racer sigurvegarans?  Karen Axelsdóttir varð Íslandsmeistari kvenna, við erum álíka háar og með svipað innanfótarmál.  Ég hafði prófað racerinn hans Garðars, sem er stærð 58, fékk strax verki í háls og handlegg og hélt jafnvel að ég gæti ekki verið svona álút á hjóli.  En racerinn hennar Karenar er 54 og hann smellpassaði, engir verkir og bara, vííí, gaman.  Þá er bara að endurskoða fjárhagsáætlunina fyrir næsta ár.

Sjá nánar úrslit og myndir á www.hfr.is

Myndavélin var líka með í för, svolítið snubbótt myndatakan í verðlaunaafhendingunni, ég var komin á aðvörun með rafhlöðuna, var ekki viss um að ná öllum með.

https://youtu.be/23kSkXKTcjQ


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband