15.6.2009 | 18:10
Blíður og rómantískur
Trúi ekki öðru en einhver muni vitja þessa timbraða herramanns. Hann er blíður, rómantískur, kann að hlusta, þó að hann sé ekki sérlega ræðinn. Færði mér blóm þegar ég hitti hann á Sæbrautinni fyrir nokkrum vikum.
Timbraður gestur lýsir eftir eiganda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 2.4.2020 kl. 14:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.6.2009 | 17:37
Maður er aldrei ánægður!
Síðasta vetur var ég svolítið að leita á netinu að stórum hjólafötum. Vissulega eru einhverjar netverslanir sem selja slíkt, en stærstu stærðirnar voru iðulega uppseldar eða ekki nógu stórar fyrir mig. Ég hef svo sem alltaf glímt við þetta vandamál, þegar ég er í kjörþyngd og þrusuformi nota ég kvenstærð 48, og það er einmitt stærðin sem er alls staðar útundan. Tískuvöruverslanir og íþróttabúðir eru almennt ekki með stærra en 46 fyrir konur, það vantar tilfinnanlega íþróttabúð með vörum fyrir feitt fólk. Svona af því við erum ekki neinn minnihlutahópur lengur, þorri þjóðarinnar að flokkast yfir þyngdarmörkum. Svo var ég að skoða hér á einni síðu og fann jakka sem gæti hentað mér:
http://www.rei.com/product/771258
Jei, fletti honum upp í nánari detail og jú, til í 2x (54) og 3x (56). Það er bara of stórt, hefði passað á mig í vetur, en ekki lengur, ég er komin á þennan leiðinlega stað, að vera að detta út úr plus-size flokknum, en eiga eitthvað í land með að geta verslað í venjulegum búðum. Og þá er ég að tala um að passa í karlmannastærðir í venjulegu búðunum. Það er svona, maður er aldrei ánægður, búin að missa tuttugu og eitthvað kíló síðan ég breytti um lífstíl fyrir réttu ári. Þá nöldra ég yfir því að passa ekki lengur í plus stærðirnar.
Ég á einar hjólabuxur, sem ég fer varla úr núorðið, það er bara tímaspursmál hvenær hnén eða rassinn fer í gegn. Og að ég skyldi finna þær á Spáni, finnst mér allra fyndnast. Af því fólkið þar nær mér varla í öxl og á þverveginn hefðu þrír Spánverjar getað rúmast inni í mér þegar ég keypti þær. Buxurnar eru meira að segja of síðar, þótt þær séu full þröngar. En það er það góða við spandex, það teygist endalaust!
Svo má ég til með að segja ykkur frá einni dúllu á Barnalandi. Hún var nýkomin úr brjóstastækkun, var áður í stærð 32C sem er mjög algeng stærð hjá kvenfólki, en nei, hún var ekki ánægð og lét stækka brjóstin upp í DD skál. Hún var að spyrjast fyrir hálfgrátandi á spjallþráðnum hvar hún fengi á sig flotta brjóstahaldara, því núna væri hún með svo stór brjóst að hún fengi ekkert á sig nema hallærisleg kellinga-brjóstahöld í BH búðinni eða álíka lummó verslunum og allir kúnnarnir fyrir utan hana væru gamlar kellingar með sigin brjóst. Nú horfði hún á alla gömlu flottu brjóstahaldarana sína og vildi óska þess að hún kæmist í þá aftur. Djöfull hló ég að stelpukjánanum. Verandi grannvaxin og með fína brjóstastærð (handfylli á hvaða karlmanni sem er) að fara á skurðarborðið með tilheyrandi þjáningum og fjárútlátum til að fá tvo körfubolta framan á sig og geta hvergi fengið á sig falleg brjóstahöld. Ekki er öll vitleysan eins.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.6.2009 | 10:34
Hvar er bíllinn?
Það var sumarhátíð í leikskólanum í síðustu viku. Þegar ég kom að leikskólanum voru allir krakkarnir komnir út í garð og nokkrir strákar gáfu sig á tal við mig, á meðan ég læsti hjólinu mínu við girðinguna. "Af hverju ertu á hjóli?" spurði einn 3ja ára. Ég notaði tækifærið og hélt smá ræðu um gagnsemi hjólreiða, heilnæma loftið, minni mengun og svo er bara svo gaman að hjóla. "Hvar er bíllinn?" spurði þá annar og stöðugt þjappaðist hópurinn af litlum 3ja ára gormum sem virtust hafa miklar áhyggjur af því að ég væri búin að týna bílnum mínum.
Eða strax búnir að mynda sér þá skoðun að miðaldra mömmur ættu að koma keyrandi á Lexus, snyrtilega málaðar og tipla inn á háum hælum. Hmmm.
En í dag fór ég á bílnum í leikskólann, þarf að útrétta og sækja hjólið mitt sem er ennþá niðri í miðbæ. Þá var ein 5 ára upprennandi hjólreiðahnáta sem spurði "Af hverju ertu á bíl, hvar er hjólið?" Sjúkk, æsku landsins er þá ekki alls varnað.
Dægurmál | Breytt 24.1.2016 kl. 16:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.5.2009 | 17:36
Nesjavellir
Það er ekki beint hægt að kvarta undan veðrinu sem var á laugardaginn, brakandi sól og tveggja stafa hitatala. En ef ég byggi í Ameríku myndi ég lögsækja Veðurstofuna og græða fullt af pening. Þeir lofuðu nefnilega 2 metrum á sekúndu, en raunin var 8+ metra mótvindur alla leið til Nesjavalla. Samt var hægt að hjóla á stuttermabol meirihlutann af leiðinni, það var það heitt. Ég skal viðurkenna að ég var orðin pínu lúin í síðustu brekkunum. En ekkert meira en ég er eftir svipað langan göngudag. Við vorum 5 og hálfan tíma á leiðinni með nokkrum góðum stoppum. Við komum í hús kl 18:30 og ég ákvað að skella mér strax í heita pottinn til að minnka líkur á harðsperrum. Planið var svo að fara upp úr kl 19 og fylgjast með Eurovision og grilla, en það var bara svo næs og notalegt í heita pottinum að ég missti alveg tímaskynið og missti af hálfu Eurovision. Var svo sem búin að sjá þetta, ég fylgdist með báðum undankeppnunum. Ísland í öðru sæti var svo held ég toppurinn á góðum degi.
Eftir kjarngóðan morgunverð var svo haldið heim á leið, fyrsta brekkan tók aðeins í, enda malarvegur og humm, smá timburmenn að saga og svona. En orkan á Nesjavöllum feykti öllu slíku burt og það var sko gaman að láta sig húrra niður brekkurnar sem ég puðaði daginn áður, og aldrei þessu vant, þá var vindurinn ekki búinn að snúa sér. Svo ég var í 3.7 gír alla leið inn í Reykjavík.
Ef ég labba álíka mikið og ég hjólaði þessa tvo daga, þá er ég fremur illa haldin, með blöðrur á tánum og vökva í hnjánum. Ég finn ekki til í hnjánum eftir hjólaferðina, tærnar eru í fínu lagi, en ég finn aðeins til í bakinu. Sem segir mér að þar skorti aðeins upp á vöðvastyrkinn. Ég er orðin ansi vöðvuð fyrir neðan mitti eftir allar hjólreiðarnar, en er eins og gúmmíhanski fullur af hafragraut þar fyrir ofan. Þarf að finna mér einhverja skemmtilega hreyfingu samfara hjólreiðunum til að koma á jafnvægi í líkamanum.
Ég veit vel að ég er ekki á góðu hjóli, níðþungum járnhlunk. En það er einhver meinloka í mér, mér finnst einhvern veginn að ég, verandi þung kona, verði að vera á þungu hjóli sem beri mig örugglega. Mér finnst einhvern veginn að létt álhjól hljóti að brotna undan mér. Ég þarf bara að herða upp hugann, loka á þessa meinloku, storma inn í góða hjólabúð, biðja um létt álhjól með læsanlegum framdempurum (sko, hvað ég er orðin fróð eftir helgina) , vera tilbúin að reiða fram 100-150 þúsund (ég er sko búin að spara annan eins pening á að hjóla í allan vetur) og svo bara halda áfram að styrjkast og njóta þess að hjóla úti í náttúrunni.
Dægurmál | Breytt 2.4.2020 kl. 14:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.1.2009 | 14:46
Hjólað á Kanarí
Búið að vera eitthvað svo kalt og drungalegt undanfarið, svo ég ákvað að hlýja ykkur með smá ferðasögu frá suðrænum slóðum.
Árið 95 fór ég til Kanarí með foreldrum mínum. Eftir tvær vikur vorum við búin að fara í hverja einustu skoðunarferð og ég orðin hundleið á ströndinni og þessum tveimur, þremur verslunarkjörnum sem var hægt að fara í. Þá rakst ég á hjólaleigu og ferðin breyttist í skemmtilega hjólaferð. Fyrsta daginn hjólaði ég til Mogán, vinalegs sjávarþorps á austurströndinni.
Ég hjólaði þar á hraðbraut með 120 km hámarkshraða. Umferð var töluverð en ég hafði ágætis pláss til að hjóla. Það var bara á einum stað sem mér leið illa, en það var þegar ég fór í gegn um niðadimm göng í gegn um klett, þá vissi ég vel að ég var ekki sýnileg, og ökumenn voru ekkert allir að kveikja ljósin, en göngin voru bara nokkur hundruð metra löng. Einn keyrði fram hjá mér ljóslaus í göngunum á ofsahraða og ég var næstum búin að missa stjórn á hjólinu þegar ég lenti í vindhviðunni sem fylgdi bílnum. Þegar ég fór til baka beið ég uns langt var í næsta bíl og hjólaði svo eins hratt og ég gat í gegn. En Mogán beið eftir mér, fallegur og friðsæll.
Ég eyddi deginum í að hjóla um nágrennið, klifra upp brattar tröppur, fá mér bjór og annan og snæða á litlum vinalegum veitingastöðum. Og svo synda í svölum sjónum áður en ég fór aftur heim rétt fyrir myrkur.
Hér hefur Ísland eitt framyfir, og það er birtan, hægt að hjóla allan sólarhringinn og maður er ekki bundinn af myrkrinu að koma sér á áfangastað.Svona liðu næstu dagar, ég fór að heiman eftir morgunmat, skildi gömlu hjónin eftir skjálfandi á beinunum, fór ýmist meðfram ströndinni á hraðbrautinni eða fór upp í fjöllin.
Þetta hefur greinilega verið á litríka tímabilinu, og þessi fatnaður er úr flís. Fór líka svona klædd *hjálpi mér* í brakandi sól upp á Hvannadalshnjúk þar sem ég komst að því að tannholdið og slímhúðin í nösunum getur líka sólbrunnið við endurkastið frá snjónum.
Ég trúi á fyrri líf og framhaldslíf. Það er ekki einleikið hvað ég verð einkennileg ef ég sé þröngar götur, tröppur, steinhleðslur og afskekkt býli. Ég hef einhvern tíma í fyrra lífi búið á Ítalíu eða Spáni í einhverju heillandi fjallaþorpi.
Þegar ég hjólaði fram hjá þessu afskekkta ávaxtabýli, varð ég alveg veik. Þorði samt ekki að fara upp að húsinu til a athuga hvort það væri í eyði. En næst þegar ég fer til Kanarí á ég pottþétt eftir að hjóla alla fjallaslóðana í leit að býlinu, banka upp á og athuga hvort það sé til sölu. Eitthvað verður maður jú að gera í ellinni, og ég sé mig alveg í anda eyða hluta af vetrinum í að hjóla um Kanarí...
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.11.2008 | 12:09
Tveir þumlar upp
Ég trúði ekki mínum eigin augum þegar ég hjólaði eftir göngu-og hjólastígnum á Sæbrautinni í morgun. Haldiði að leiðin hafi ekki verið teppt af vinnubíl með gul blikkandi ljós. Það var barasta vinnuflokkur mættur að lagfæra rampinn! Ég fór út á Sæbrautina innan um bílana glöð og sæl, enda komin í eiturgult vesti með hlussustórum endurskinsborðum. Fékk það í Europris á tæpan 800 kall.
Ég sendi email í gærkveldi með myndunum úr síðustu færslu (Sópa Sæbrautina takk) til Framkvæmda- og eignasviðs sem sér um viðhald göngu-og hjólreiðastíga. Og þegar ég kom niður á Kirkjusand, þá var búið að skafa stíginn og ryðja grjótinu burt.
Þetta kallar maður flott viðbrögð!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.11.2008 | 17:28
Sópa Sæbrautina takk
Ég man ekki betur en á hjóladeginum í vor hafi menn malað mikið, hjálmum prýddir og lofað að stígunum yrði haldið opnum og þeir sópaðir og mokaðir og haldið opnum allan ársins hring. Ja, hér hefur ekki verið sópað lengi. Ég er með lítinn sóp með mér þegar ég er að hjóla, sópa burt glerbrotum og öðru smálegu sem getur reynst vegfarendum hættulegt. En mér féllust hendur þegar ég kom niður á Sæbrautina til móts við höfuðstöðvar Glitnis. Stígurinn er stórhættulegur, ef það myndi snjóa, þá er ekki víst að fólk sjái hnullungana og hjóli inn í steinahrúguna. Það er alveg öruggt að ef einhver hjólar inn í svona hrúgu, þá dettur hann. og ef einhver dettur á svona hnullunga, þá brotnar hann. Ég ætla að tilkynna þetta akút þar til gerðum aðilum. Eða kannski bara senda myndina til einhvers fjölmiðils. Þá verður búið að sópa áður en ég fer til vinnu í fyrramálið.
Og úr því ég er að gagnrýna sæbrautina hérna, þá er annar hættulegur kafli, þar sem trérampi hefur verið komið fyrir, þar eð stígurinn er ófær vegna byggingaframkvæmda. Rampurinn er bara aðeins of stuttur, þegar maður kemur af malbikinu í rigningu, þá lendir maður ofan í moldarflagi og ég hef stundum nánast misst stjórn á hjólinu. Hættan á að sporðreisast yfir grindverkið er mikil og þarna eru margir flutningabílar á ferð. Það þarf ekki að gera mikið til að lagfæra Sæbrautina, nokkrar spýtur til að framlengja rampinn fram á malbik og svo litla vinnuvél til að moka grjótinu út af stígnum.
Og svo langar mig að nöldra enn frekar, en nokkrir bílstjórar eru búnir að uppgötva frítt bílastæði rétt við Kolaportið. Gallinn er að þeir taka hálfa gangstéttina, og ekki var hún breið fyrir. Gangstétt og sér hjólabraut hér, takk fyrir.
Dægurmál | Breytt 1.1.2012 kl. 13:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.5.2008 | 10:47
Ein ég sit við sauma
Svona flík þarf að sérsníða handa hverjum og einum. Annars gægist millifótakonfektið niður undan kiltinu. Þetta er upplagt að nota á sólríkum dögum og getur hæglega leyst af hefðbundnar hjólabuxur. Alls velsæmis gætt. Bæði að framan og aftan. Hann Jón Þór, ferðafélagi minn var svo elskulegur að sitja fyrir í múnderingunni og fékk kiltið að launum. Kvartaði raunar yfir því að það væri of lítið, ég er enga stund að redda því, get tekið niður faldinn og sett blúndu neðst eða skeytt inn efnisbút.
Eins og glöggir menn hafa áttað sig á þá er þessi færsla ekki ný af nálinni. Samt ekki eins gömul og hún virðist vera.
Dægurmál | Breytt 27.10.2017 kl. 11:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Eldri færslur
- Október 2017
- Ágúst 2017
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Desember 2013
- Október 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Maí 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Febrúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Janúar 2009
- Nóvember 2008
- Maí 2008
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 9
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar