3.8.2009 | 11:58
Leitin að Ásláki
Í gær fór ég í hjólatúr sem var skipulagður fyrir ca 12 árum síðan. Þó að ég sé svolítill "lonly ranger" hef ég líka gaman af félagsskap skemmtilegs fólks. Það myndast ákveðin orka í göngu og hjólaferðum og þegar ég var nýskriðin upp úr langvinnum veikindum árið 92 drógu systurnar Bryndís og Sara mig með sér í ferð með Útivist upp á Snæfellsjökul. Þar kynntumst við Garðari, sem seinna varð eiginmaður og barnsfaðir Bryndísar. Þessa mynd tók ívar, ljósmyndari sem var í ferðinni.
Við fórum saman í nokkrar gönguferðir í nágrenni Reykjavíkur, Esjan, Fimmvörðuhálsinn og seint gleymist ferðin á Keili, en þar klikkuðum við Garðar bæði á óbyggðafræðunum, hann leit á veðurspána í vikugömlu Morgunblaði, en ég gleymdi að það væri vetur og ekki fært á bíl að Hörðuvöllum. Þá ákváðum við að labba að Keili frá Keflavíkurveginum, Keilir virtist vera rétt hjá, en gangan að honum tók eina 3 tíma. Keilir er auðklifinn, en þegar við stóðum á toppnum sáum við óveðursskýin hrannast upp úti við sjóndeildarhring, og svo brast á þessi líka þreifandi blindbylur. Svo það sem átti að vera 2 tíma rólegheita göngutúr breyttist í ja, kannski ekki baráttu upp á líf og dauða, en eins gott að Garðar var með áttavita meðferðis og gat lóðsað okkur aftur að Keflavíkurveginum þar sem við fengum far að bílnum, annars værum við enn að ráfa um hraunið, kannski í annarri vídd.
Við fórum líka í hjólatúra, en bara styttri túra, sá lengsti sem við fórum á þessum árum var frá Vesturbæ út á Álftanes. Einn daginn kom upp sú hugmynd að við myndum hjóla upp í Mosfellsbæ og fá okkur bjór á sveitakránni Ásláki. Ekkert varð úr þeim hjólatúr, þar eð við Bryndís urðum báðar barnshafandi. Í gegn um tíðina höfum við iðulega rifjað upp þessa áætlun þegar við höfum hist. "Hvenær ætlum við á Áslák?" Og svo breyttist grínið í "Ætluðum við ekki á Áslák, eða var það Þorlák?" þegar Áslákur virtist vera hættur starfsemi.
En í gær ákváðum við að fara þessa ferð sem við skipulögðum fyrir 12 árum, athuga hvort við fyndum ekki Áslák eða aðra krá í Mosfellsbænum. Og viti menn, þó að Áslákur væri í hálfgerðum felum, umkringdur hótel Laxnes fundum við pleisið. Mikið hrikalega var bjórinn góður.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.7.2009 | 12:37
Hjólaði þvert yfir Ísland
Dægurmál | Breytt 1.1.2012 kl. 12:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.7.2009 | 20:39
Sumarfrí - afslöppun
Ég fékk leigðan sumarbústað á Ísafirði og keyrði vestur með strákana mína, pakkfullan bíl af farangri og hjólin okkar aftan á. Planið var að herða drengina aðeins upp í fríinu, hjóla, synda og spæna upp og niður Tungudalinn og svo líka slappa hæfilega mikið af enda veðurspáin dásamleg.
Fyrsta daginn datt yngri strákurinn af hjólinu og skrapaði skinnið af enninu, olnboganum og maganum. Næsta dag var eldri pjakkurinn næstum því búinn að reka sig í hvassan greinastúf í brekkunni fyrir ofan Tungudal, og á meðan ég las yfir honum að gæta að hvar hann stigi niður í skóglendi, hrasaði ég á #$%#%$ trjástubbinn og fékk stóran skurð á lærið. Þriðja daginn byrjaði ég svo á túr. Men, þetta er búin að vera ansi blóðug sumarbústaðaferð!
Þar með duttu bæði sund og hjólaferðir út af dagskránni, slasaði pjakkurinn harðneitaði að hjóla meira á þessum vonlausu vestfirsku vegum. Svo þeir eru búnir að liggja inni í sófa við videogláp og ég úti á palli í sólbaði. Ég er ekki hönnuð fyrir svona hreyfingarleysi og endaði með bévítans tak í mjóbakinu, get varla snúið mér í rúminu né gert nokkurn skapaðan hlut. Svo ég sá ekkert annað í stöðunni en senda drengina suður með flugi til pabba síns, næstu tvo daga verð ég á kojufyllerí í sumarbústaðnum í von um að bakverkirnir lagist, en svo ætla ég að hjóla bara og aðeins þvert yfir Ísland!
Dægurmál | Breytt 24.1.2016 kl. 16:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.7.2009 | 18:05
Reykjanes
Þó að ferðalagið hafi gengið glimrandi vel, verður þó ein hrakfallasaga að fylgja með. Sunnudaginn síðasta var steikjandi sól og hitinn um 22 gráður. Planið þann daginn var að hjóla frá Keflavík og þræða nokkur sjávarþorp á Reykjanesinu. Koma við í Höfnum, en ég man ekki eftir að hafa nokkurn tíma komið þangað. Hjóla niður að Reykjanesvita og fara í sund í Grindavík áður en hjólað yrði aftur til Keflavíkur. Ég vildi ekki hjóla á Reykjanesbrautinni, svo ég valdi að taka malarstíg sem lá frá Grindavíkurvegi að afleggjaranum til Hafna. Samtals yrðu þetta um 70 km með Reykjanesvitanum, en ég hafði allt kvöldið og þess vegna alla nóttina til að komast hringinn. Þar eð hitinn var svona mikill var ég bara klædd í stuttbuxur og brjóstahöld. Varð þó að vera með gula vestið þar eð ég var á malbikuðum akvegum og gæti allt eins búist við að ökumenn væru á mikilli ferð og því gott að þeir sæju mig í tíma.
Ferðin gekk glimrandi vel framan af, en þegar ég var hálfnuð að Reykjanesvita var farið að blása svolítið hraustlega á móti og mér orðið kalt. Ákvað að fara í langermabol á meðan vindurinn var á móti, vissi að frá Grindavík fengi ég meðvind. Stoppa og gref ofan í bakpoka. Úps, aukafötin urðu eftir í bílnum Ég vó og mat aðstæður, ef ég héldi áfram að fara hringinn, þá fengi ég hliðarvind frá Reykjanesvita að Grindavík. Svo yrði meðvindur frá Grindavík að Keflavík. Gæti stoppað í Grindavík og fengið mér að borða eða farið í sund eins og upphaflega planið var. En svo fattaði ég að ég gæti nú hvergi farið inn á matsölustað á brjóstahaldaranum einum fata. Eða lítandi út eins og hálfviti í gula endurskinsvestinu, sem er opið á hliðunum. Og ekki víst að það væri opið frameftir á sunnudegi í sundinu. Eða ég gæti snúið við strax og hjólað aftur sömu leið til baka, en þá fengi ég ská-mótvind frá Höfnum að Keflavík. Svo ég ákvað að halda áfram, tók handklæðið úr sundpokanum og strengdi yfir axlirnar innan undir vestinu. Var með buffið og notaði það til að halda hita á hálsinum og eyrunum. Á leiðinni til Grindavíkur varð sífellt kaldara og smám saman dró fyrir sólu, uns það var orðið alskýjað og ég komin með tannaglamur af kulda.
Þá spáði ég virkilega í því að skilja hjólið eftir og húkka mér far að mínum bíl. Koma svo á bílnum og sækja hjólið. En var nú ekki alveg á því að fólk myndi stoppa til að gefa mér far, lítandi svona út, þetta ljósbláa er handklæðið.
Og ábyggilega því síður ef ég hefði farið úr vestinu og staðið þarna á brjóstahaldaranum við að húkka far. Hmmm, eða kannski menn stoppað og haldið að ég væri að bjóða eitthvað í skiptum fyrir farið....
Svo það fór svo að ég ákvað að hjóla áfram eins og fjandinn væri á hælum mér, sleppa malarstígnum og taka Reykjanesbrautina í staðinn. Þó að það sé þægilegt að hafa smá vegaröxl til að hjóla á, þá víkja ökumenn ekki við þær aðstæður. Ekki einu sinni þó að það séu tvær akreinar og lítil umferð. Og hávaðinn frá dekkjunum er einhvern veginn mun meiri og óþægilegri þegar menn fara fram úr á 110 km hraða en þegar hraðinn er 60-70.
Eftir á reiknast mér til að ég hafi hjólað um 65 km. Á 3 og hálfum tíma. Með hæfilegu drolli framan af á meðan veður var gott. Ætli það sé þá ekki bara Bláa-lóns keppnin á næsta ári?
Bíllinn minn getur ekki talist sá glæsilegasti heimi, 11 ára gamall Opel Vectra. En mér fannst þetta sko flottasti bíll sem ég hef nokkurn tíma sest uppí þegar hann tók á móti mér sjóðandi heitur eftir að hafa beðið eftir mér í sólinni í Keflavík.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.7.2009 | 13:06
Hjólað um sveitir Íslands
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.7.2009 | 14:02
Hjóla-Hrönn vs Ísbjörn
Hver skyldi vinna þá viðureign?
Á árum áður var ég mikið ein á flækingi upp um fjöll og firnindi, og var svo sem ekki með áhyggjur af einu né neinu, enda einhleyp og barnlaus. Núna get ég ekki alveg leyft mér að gassast áfram eins og ég sé ein í heiminum eigandi tvö börn á grunnskólaaldri. Hér áður fyrr breyttust ferðaplönin oft með engum fyrirvara, t.d. ætlaði ég einu sinni að ganga frá Hvalfirði yfir að Þingvöllum, tjalda þar og labba til baka næsta dag. En þegar ég kom í Hvalfjörð var þar hífandi rok og ekki stætt úti. Svo ég ákvað að keyra aðeins áfram og sjá til hvort veðrið skánaði, það er merkilega oft brjálað veður bara í Hvalfirði, en rjómablíða nokkrum kílómetrum sunnar eða norðar. Ég stoppaði í Hreðavatnsskála til að fá mér hamborgara og rak augun í auglýsingu um dansleik, Bogomil Font og Milljarðamæringarnir áttu að spila. Þá voru þeir ekki orðnir frægir, en ég ákvað að slaufa gönguferðinni fyrir fyllerí, keypti mér svefnpokapláss í Bifröst og fór svo á djammið. Þetta varð ekkert smá skemmtilegt kvöld þar sem ég dansaði alla nóttina við fótbrotinn trukkabílstjóra, sem var merkilega fimur á dansgólfinu þrátt fyrir hækju og gifs.
Nú er ég að fara ein út úr bænum í fyrsta sinn í ja, 11 ár. Þar eð ég er hrakfallabálkur hinn mesti ákvað ég að prenta út leiðarlýsinguna fyrir bóndann, svo hann vissi hvert hann ætti að senda hjálparsveitirnar ef ég myndi ekki skila mér aftur úr útilegunni. Ég var nú búin að segja honum að ég ætlaði í hjólatúr þegar krakkarnir færu í sumarbúðir, en hann hefur greinilega haldið að ég ætlaði að hjóla um Reykjavík og nágrenni. "Ertu ekkert hrædd við að rekast á ísbjörn?" spurði hann í fúlustu alvöru.
Ja, tæknilega er það svo sem alltaf möguleiki, það gengu jú tveir til þrír á land í fyrra. Eitt er að rekast á úlfa á fjöllum, maður býður þeim bara inn í tjald, en ísbirnir, hmmm. Ætli sú viðureign endi ekki bara á einn veg. Einhvers staðar las ég að ef skógarbjörn stefnir á þig, þá áttu að gera þig eins stóran og þú getur, veifa höndunum fyrir ofan höfuð, öskra og berja á potta og pönnur. Það sama hlýtur að gilda fyrir ísbirni. Þó að ég sé almennt blíð og góð, þá get ég breyst í ægilega skessu á köflum. Ég tek þá út alla uppsafnaða gremju yfir bankahruninu, icesave, kúlulánunum og ástandinu almennt út á aumingja Bjössa. Alla vega rétt áður en ég enda ævina sem steikin hans.
Æi, nú fær mamma aftur kvíðakast. "Litla stelpan hennar" ein að hjóla einhvers staðar út í móa með ísbirni á hælunum.
Dægurmál | Breytt 24.1.2016 kl. 16:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.7.2009 | 22:07
Nýtt leikfang
Það er ekki langt síðan ja.is tók breytingum, og mjög svo í jákvæða átt. Það eru komin þessi líka fínu kort á vefinn, af öllu Íslandi, hægt að þysja niður á götuheiti og sjá næsta nágrenni. Líka hægt að sjá óbyggðir, bara finna símanúmer t.d. í Keflavík, þá er hægt að þysja út á Reykjanesið. Kemur sér vel þegar ég er að skipuleggja hvert skuli hjóla í sumarfríinu.
Ég hjólaði í vinnuna eins og venjulega, búin að sjá að ég hjóla 8 km að vinnu, 6 km heim. Nema í dag hjólaði ég 42 km. Veðrið var bara of gott til að fara stystu leið fram og til baka. Núna sit ég við tölvuna rauðglóandi eins og eldhnöttur, auðvitað hefði ég þurft sólarvörn eða sleppa því að vera með berar axlir. Note to self, sumarið er komið, svei mér þá.
Það er mælistika á kortinu, hægt að fikra sig áfram með línu og sjá hvað maður er búinn að hjóla. Þetta er dagurinn í dag, hjólaði sumar leiðir tvisvar sinnum, af því ég þurfti að fara aftur niður í miðbæ eftir að hafa hjólað í kring um Seltjarnarnes og Öskjuhlíð. Svo var of stutt að taka Miklubrautina heim, ákvað að taka smá krók út í Kópavog. Kom við í ríkinu í Breiðholti og verðlaunaði mig með tveimur bjórum Yndislegt að sitja úti í garði í góðu veðri og sötra bjór eftir ánægjulegan hjóladag.
Dægurmál | Breytt 24.1.2016 kl. 16:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.7.2009 | 09:08
Viðey
Í fyrra varð að aflýsa Viðeyjarferð Fjallahjólaklúbbsins vegna veðurofsa. Máttarvöldin ákváðu að vera góð við okkur í ár, það var alveg logn og 15 stiga hiti. Eins gott, því það var vel mætt, tuttuguogeinn hjólagarpur.
Þeir sem nenna ekki að lesa lengra geta brugðið sér á tengla-barinn hér til vinstri og kíkt á myndband úr ferðinni, merkt Viðey, fyrri og seinni hluti.
Það voru ekki samantekin ráð hjá okkur Eddu að klæða okkur alveg eins, þetta er algjör tilviljun, eins og svo margt annað í veröldinni.
Leiðsögumaðurinn okkar heitir Viðar, sérlega hentugt og viðeigandi nafn þetta kvöld.
Við hjóluðum um eyjuna þvera og endilanga í tvo og hálfan tíma. Skoðuðum og heyrðum sögu eyjarinnar utandyra sem innan og kíktum á friðarsúlu Yoko Ono.
Hjólin fóru með í ferjuna, og ég er orðin alveg ákveðin í að fjárfesta í léttu og góðu hjóli eftir að hafa fengið staðfest að ég var með þyngsta hjólið um borð:
Einstaklega góð, skemmtileg og fræðandi ferð.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.6.2009 | 00:25
Þriðjudagshjólatúr - Gvenndarbrunnar
Þetta er ég kl 18:45. Þá vissi ég að ég ættti að vera fararstjórinn í ferð hjá Fjallahjólaklúbbnum.
Bjarni hringdi og sagðist ekki komast og ekki finna neinn til að leiða ferðina. Ég benti honum á að ég væri annáluð fyrir að villast hægri vinstri og vita ekki hvað væri suður og hvað norður. Það er ekki langt síðan ég villtist á leiðinni heim frá Kópavogi, að vísu að næturlagi í niðamyrkri, en þetta er ívið lengri leið og ég veit ekkert hvar þessir Gvendarbrunnar eru.
Bjarni ætli skilið að fá Fálkaorðuna fyrir einstakt rólyndi, þuldi bara upp leiðarlýsinguna í símann, "þú getur þetta" og ég fann meira að segja "klapp á bakið" í gegn um símann.
Svo ég setti upp plan. Ef það kemur bara einn, þá hjóla ég með hann niður á Amokka kaffihús, þar sem við hefðum svindlað hægri, vinstri á þriðjudagshjólatúrnum, gúffað í okkur köku og drukkið dásamlega syndsamlegt kakó með. Ef það koma tveir, þá getum við alltaf farið á Ölver í karaóki...
En við vorum 5 sem mættum, og þá er hjólafært! Og þó við værum fámenn, þá var sko góðmennt í hópnum, hver kunni skil á ákveðnu hverfi og enginn að æsa sig þó að "Fararstjórinn" tæki vitlausa beygju hér og þar. Pissst - ætli það sé ekki styttra að taka þennan stíg, annars endum við uppi á Hafravatni. Við komumst upp í Heiðmörk og aftur til baka án þess að týna neinum úr hópnum. Nema einum, og það var nú bara af því hann átti heima í Árbæ og varð eftir þar.
Dægurmál | Breytt 24.1.2016 kl. 16:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.6.2009 | 21:51
Skorradalsvatn
Það er hvílíkt gaman að hjóla í kring um þetta fallega vatn. Örlítið grófur malarstígur í upphafi, en svo var leiðin bara mjög þægilegur malarstígur. Ég var aftur vopnuð litlu imbavélinni og tók video á hana. Afraksturinn er í tveimur bútum, youtube leyfir ekki skrár sem eru stærri en 1 gík.
Fyrri partur er hér:
og seinni partur er hér:
Hlekkirnir fara líka á barinn hér til vinstri.
Dægurmál | Breytt 2.4.2020 kl. 14:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Eldri færslur
- Október 2017
- Ágúst 2017
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Desember 2013
- Október 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Maí 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Febrúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Janúar 2009
- Nóvember 2008
- Maí 2008
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 9
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar