Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010
23.1.2010 | 13:27
Hver nennir að hjóla í þessu veðri
Skítaveður. Ef þetta er ekki dagurinn til að hanga heima, fúlskeggjuð á hlýrabolnum, með bjór í annarri æpandi ÁFRAM ÍSLAND! Þá veit ég ekki hvað...
Nei, nei, maður verður nú að vinna sér inn fyrir bjórnum, það verður farið út að hjóla! Það er ekki freistandi að taka langa hjólatúra í roki og rigningu, en þá er fínt að koma við í sundinu og fá smá smá yl í kroppinn, þá hefur maður úthald í annan hjóla-hálftíma.
Ég hef verið með önnur plön báða dagana sem Ísland var að spila. Í bæði skiptin hef ég horft á leikina og þurft að fara þegar 5 mínútur voru eftir af leiknum. Í bæði skiptin voru þetta unnir leikir, 3ja marka forskot. Frétti svo úti í bæ að leikirnir enduðu með jafntefli. Ég er með samviskubit. Þetta er allt mér að kenna. Af því ég stóð upp og fór. Kláraði ekki leikina.
Í kvöld mun ég sitja sem límd við sófann á meðan leik stendur, ég mun ekki einu sinni standa upp til að míga! Maður verður nú að leggja eitthvað á sig fyrir Strákana sína...
Leikurinn er ekki fyrir þá sem þola illa spennu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 24.1.2016 kl. 16:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.1.2010 | 23:47
Skautar
Það eru ein 30 ár síðan ég steig síðast á skauta. Þegar ég var krakki á Ísafirði fórum við á hverjum einasta degi niður að Rækjuverksmiðjunni og skautuðum þar á affallsvatninu. Fínasta skautasvell og nógu stórt til að rúma allan púkaskarann. Og ef það var ekki nógu mikið frost og ísinn ekki nægilega traustur, þá var vatnið bara hnédjúpt, svo það var engin hætta á ferðum. En hjálpi mér fnykurinn af manni ef ísinn brotnaði og maður lenti ofan í gúanóinu.
Það er alveg eins með skauta eins og reiðhjól. Ef maður hefur einhvern tíma lært á þetta, þá gleymist það aldrei. Kom mér á óvart hvað ég var flink, gat farið töluvert hratt og stoppað á punktinum. Meira að segja skautað afturábak. Datt bara einu sinni, þá var ég einmitt að hugsa að ég væri bara assgoti góð, en þá er nú gott að vera svolítið bólstraður og hafa mjúkan rass til að detta á.
Ef við hefðum drifið okkur út á svellið í desember eða fyrr, þá hefðu verið skautar í jólapökkum strákanna. Já og mínum líka!
Litli gormur var að fara í fyrsta sinn og eftir einn hring settist hann með skeifu á bekkinn. Hundfúll yfir að mamma væri að hanga í honum. Hann vildi fá að skauta einn eins og hinir! Sem hann fékk með aðstoð grindar. Og í lokin var minn maður farinn að skauta einn með aðra hendi fyrir aftan bak, bara eins og professional.
Meira að segja unglingurinn vildi koma með, það hafa allir gaman af því að skauta, alveg sama hvað þeir eru gamlir.
Dægurmál | Breytt 24.1.2016 kl. 16:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.1.2010 | 11:49
Vona að ég finni ekki nektarmynd af mér á netinu
Ég er fædd og uppalin á Ísafirði og hef farið skrilljón sinnum í þessa sundlaug. En hef ekki orðið vör við þetta vandamál, kannski ekki fattað að maður sé að afklæða sig fyrir framan Pétur og Pál. Og ég er svo heitfeng að ég stend iðulega alveg við gluggann og læt ferskt loftið leika um mig eftir sundið.
Í gamla daga var kvennaklefinn kvennaklefi og karlaklefinn karlaklefi. Karlaklefinn var ívið stærri og þar var komið fyrir gufubaði. Sem olli því að kellurnar risu upp á afturlappirnar og heimtuðu að fá líka gufubað. Kvennaklefinn er hins vegar ca 20 fermetrar og ekki séns að koma fyrir gufubaði þar. Svo núna er skipt reglulega, suma daga fer maður til hægri, aðra til vinstri. Heyrst hefur af ákveðnum stjórnmálamönnum sem geta ekki hugsað sér að fara í sund á röngum dögum. Og hættan á að vaða inn á gagnstætt kyn hefur aukist umtalsvert.
Humm, er þetta að verða ár hinna miklu játninga, ég var svolítið að prakkarast og kíkja inn í strákaklefann á unglingsárunum, og auðvitað voru strákarnir að opna dyrnar hjá okkur og kíkja inn. En ég er búin að borga það til baka. Ég ruglaðist þegar ég ætlaði á klósettið í búningsklefanum sem hýsti áður karlmenn eingöngu, stormaði fram og til baka í leit að klóinu og endaði berrössuð úti á laugarbakkanum við mikla lukku viðstaddra sundlaugargesta.
Óánægja meðal nemenda með baðaðstöðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 24.1.2016 kl. 16:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.1.2010 | 20:07
Mansal - Ég játa
Ég játa. Ég hef tekið þátt. Mér til afsökunar vissi ég ekki að strákarnir hennar Línu væru fórnarlömb mansals.
Lína rak Kínverska nuddstofu í Kópavogi og strákarnir voru fluttir hingað frá Kína til að nudda holdugar miðaldra Íslenskar húsmæður. Síðar kom í ljós að strákarnir fengu ekki greidda krónu fyrir viðvikið, fengu bara svefnstað, mat og smáaura til einkaafnota. Þeir voru held ég lærðir nuddarar, alla vega voru þeir déskoti góðir og bakið á mér tók miklum stakkaskiptum til hins betra eftir að hafa sótt strákana heim í nokkrar vikur.
Nuddið var svolítið skrítið ef ég miða við það sem ég hef fengið hjá Íslenskum nuddurum og sjúkraþjálfurum. Ég var stungin með nálum, lamin duglega með handarjörðunum, kreist og klipin, og svo hoppuðu strákarnir upp á nuddbekkinn og hnoðuðu mig með iljunum. Löbbuðu meira að segja upp og niður hryggjarsúluna. Þeir voru allir léttir og grannir, nema einn sem var þokkalega hávaxinn og digur á Kínverskan mælikvarða, og ég svitnaði iðulega þegar hann kom og benti mér að koma með sér. Vissi að þann daginn fengi ég extreme og "þunga" meðferð.
Ég hefði aldrei trúað því að óreyndu að það gæti verið svona gott að láta karlmenn traðka á sér. En eftir að ég komst að sannleikanum um mansal Línu, þá gat ég samvisku minnar vegna ekki notið þjónustunnar lengur. Ekki nema fara að tipsa strákagreyin. Þeir hefðu getað misskilið það og haldið að ég væri að biðja um meiri og persónulegri þjónustu...
Áfram í gæsluvarðhaldi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.1.2010 | 17:01
Nagladekk nauðsynleg
Ég var tímanleg þennan vetur, keypti nagladekk í ágúst sem fóru undir hjólið við fyrstu frostamerki í oktober. Viku síðar var hjólinu mínu stolið og ég keypti annað sett af nagladekkjum.
Það var sprungið hjá mér í morgun og þar sem ég hafði ekki tíma til að gera við eða skipta um slöngu að aftan, blikkaði ég kallinn og fékk hans hjól lánað. Vissi að þá yrði mitt hjól viðgert og hjólafært þegar ég kem heim í kvöld. Hans hjól er hins vegar ekki á á nöglum og ég var rétt komin 20 metra þegar ég flaug á hausinn. Hvílíka glerhálkan á götum Reykjavíkur. Alveg bráðnauðsynlegt að vera á nöglum þessa dagana. Þ.e. ef maður er á reiðhjóli.
Meiddi mig ekki mikið, skrapaði skinnið af hnjánum og það bættist aðeins í marblettasafnið. Hjálmurinn skall svolítið hraustlega í götuna, á eftir að skoða hann og meta skemmdir, þarf líklega að skipta honum út. Huasnin er smat alevg jfan gðuór og áuðr!
Ef þú skilur ekki síðustu setninguna þá hefur þú ekki verið á Facebook síðustu viku
Hálkublettir austan Selfoss | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Eldri færslur
- Október 2017
- Ágúst 2017
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Desember 2013
- Október 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Maí 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Febrúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Janúar 2009
- Nóvember 2008
- Maí 2008
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar