Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2010

Skvísast um bæinn

Eitt dimmt vetrarkvöld var ég að klæða mig í gult endurskinsvesti í húsnæði Fjallahjólaklúbbsins og Sesselja hafði á orði að þessi gulu vesti væru hræðilega óklæðileg, við litum út eins og Pólskir verkamenn í þess háttar múnderingu.  Ég er alveg sammála því, það er langtum skemmtilegra að horfa á karlmenn grafa skurði eða dytta að einhverju nakta niður að mitti en þegar þeir eru klæddir í þessi gulu öryggisvesti.

Ég hjóla oftast í gulu öryggisvesti þegar ég er úti á þjóðvegunum, en finnst þau vera full heit á sumrin.  Svo mér datt í hug að prófa að sauma eitthvað ögn svalara upp úr gömlu öryggisvesti.  Þetta varð útkoman.

IMG_7992

Ég stefni á að hjóla um Austurland á næsta ári.  Þá mun þetta nýja öryggisvesti koma að góðum notum í veðurblíðunni.  Ég vona að ég sé ekki að kalla óveðursský og kuldakast yfir Austfirðinga, en þar var ég síðast fyrir 12 árum, þá labbaði ég Lónsöræfin með gönguklúbbnum mínum.  Við höfðum labbað Fjörður á Norðurlandi árið áður í rigningu, súld og þoku, og ákváðum að fara næst til Austfjarða sem er jú annálað fyrir veðurblíðu.

Þessi gönguferð er eins sú magnaðasta og erfiðasta sem ég hef farið í, þetta var í júlí, það var tveggja stiga frost, það snjóaði á okkur, ég var komin 5 mánuði á leið og fyrsta dagleiðin var 13 tímar.  Við vorum með GPS tæki meðferðis og það kom svo sannarlega að góðum notum, annars hefðum við ekki fundið skálann í muggunni, við gengum nánast fram hjá honum, skyggnið var bara 2-3 metrar og bara heppni að ein í hópnum bókstaflega gekk á skálavegginn.  Þriðja daginn brast hann svo á með sól og brakandi blíðu.  Austfirðirnir sviku ekki eftir allt saman, við gátum spókað okkur á bikini og náttúrufegurðin í Lónsöræfum er sko engu lík.

Hér eru myndir sem Geir, bróðir minn tók á Menningarnótt:

https://photos.app.goo.gl/B7xtgijmq1EykPFM7

Ég gerði smá myndband um viðburðinn, ég var með vél aftan á bögglaberanum, en því miður virðist eitthvað hafa klikkað þar í myndatökunni, tómt minniskort eftir hjólatúrinn.  Ég var sem betur fer líka með litlu imba-vélina.  Hún er orðin örlítið lúin, enda búin að detta ansi oft í götuna, ýmist ein eða kútveltast með myndatökumanninum.


Berrössuð um bæinn

Á síðasta ári fjölmennti hjólreiðafólk og hjólaði saman á götum borgarinnar til að vekja athygli á aðstöðuleysi þeirra sem velja reiðhjól sem samgöngutæki.  Þetta var viðburðurinn Berbakt um Bæinn, fólk fækkaði fötum og skrifaði slagorð á bakið.  Sumir voru kappklæddir, aðrir naktir niður að mitti, sumir berleggjaðir og aðrir með bara bakið bert.  Ég var lasin í fyrra, ennþá að jafna mig eftir svínaflensu og ákvað að vera kappklædd, en náði samt að tækla hugtakið nokkuð vel.  Þ.e. ég var með bakið bert og áritað.

bert-bak

Í ár verður aftur hjólað um götur borgarinnar á Menningarnótt.  Lagt af stað frá Klambratúni (áður Miklatún) kl 15:00.  Að þessu sinni ætla ég að gera eitthvað öðru vísi, mun pottþétt verða fáklæddari ef ég verð ekki kvefuð eða með flensu, en er samt ekki alveg viss hvernig ég ætla að hafa þetta.  Best er að reyna að finna eitthvað í klæðaskápnum, þar á ég t.d. forláta hjólabuxur sem ég keypti á netinu, sem eru afskaplega skrítnar í sniðinu.  Þær eru háar upp í mittið að aftan, en ná varla upp fyrir hárlínu að framan.    Einhvers konar Racer-dæmi svo konur líti vel út í áltútri stöðu á reiðhjóli.  Það bara gleymdist að gera ráð fyrir því að konur þurfi að stíga af baki eftir hjólatúrinn án þess að vera með búrku meðferðis til að skýla sér.  Ég fer ekki út úr svefnhverberginu í þessum hjólabuxum, þær flokkast undir dónó stuff & dót á þessum bæ.  Ef ég fer í þær öfugar, þ.e. læt botnstykkið styðja við konumagann og hef framhliðina aftur, þá breytist viðburðurinn í "Berrössuð um bæinn".  Spurning hvort ég næði að hjóla viðburðinn á enda áður en löggan mætir og handtekur strípalinginn...

Hvet fólk til að fjölmenna og hjóla saman, þeir sem vilja geta fengið útrás fyrir strípihneigðina, hinir geta mætt í föðurlandinu...


berir-bossar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband