Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011
30.12.2011 | 15:44
Meiri snjó, meiri snjó, meiri snjó...
Svona var ástandið fyrir utan hjá mér í gærmorgun. Fyrsta hugsun var að skríða aftur upp í og taka frí frá vinnu. Ég man eftir vetrinum 1999-2000, þá var hraukurinn frá moksturstækjunum svo hár og harður, að við þurftum að höggva tröppur í hann með exi til að komast inn í hús. Minnir að hann hafi náð mér í öxl. Þá var snjódýpt 28 cm en mælist núna 33 cm í desember 2011. En ég er ómissandi í vinnunni svona rétt fyrir áramót og fjarvera er einungis afsakanleg ef ég þarf að fara í mína eigin jarðaför. Hvað er ég lengi að labba frá Háaleiti niður í miðbæ í svona færð? Ætli stígarnir séu mokaðir eða fer allur mannafli í að halda akstursleiðum færum?
Hvað með Strætó? Þar eð ég var nýbúin að fylgjast með nágrönum mínum pikkföstum á hlaðinu þótti mér líklegt að það væri allt fullt af vanbúnum smábílum fastir hér og þar og enginn kæmist leiðar sinnar í dag. Svo ég ákvað að leggja af stað á hjólinu, ef það væri ekki fært, þá er minnsta mál að vippa hjólinu af götunni og læsa við næsta ljósastaur og sækja síðar. Maður er í aðeins meiri vandamálum með eitt tonn af blikki sem situr pikkfast á miðri Miklubraut. Þegar ég kom niður í hjólageymslu og opnaði hurðina var ég næstum hætt við...
En ákvað að drösla hjólinu í gegn um skaflana og sjá hvernig Háaleitisbrautin hefði það. Ástandið þar var bara ljómandi fínt.
Í svona færð getur maður gleymt því að nýta sér göngustíga til hjólreiða. En þá er um að gera að nýta sér göturnar. Fór Háaleitisbraut, Skipholt, Rauðarárstíg, Hverfisgötu að miðbæ. Venjulega er ég 15 mínútur á þessari leið, ætli ég hafi ekki verið 20 mínútur að þessu sinni, það þurfti að fara varlegar vegna fjölda af bílum sem voru í ógöngum í Skipholtinu. Töluverður þæfingur og hálka undir og margir náðu ekki upp brekkur og þurftu að bakka aftur niður. Ég var sú eina sem mætti á reiðhjóli í mína vinnu, það var raunar eitt hjól fyrir, en það sést á snjóþykktinni á hnakknum að það er svolítið síðan það var notað.
Þegar ég byrjaði að hjóla aftur fyrir 3ur árum eftir langt hlé, fannst mér hrikalega óþægilegt að hjóla á götunni, fannst alltaf eins og einhver væri í þann veginn að fara að keyra á mig. En þetta venst, í dag er ég pollróleg, rétt eins og ég sæti í hægindastól heima í stofu. Ef einhver hefði sagt við mig þá að ég ætti eftir að hjóla upp endilanga Suðurlandsbrautina á götunni, hefði ég talið viðkomandi með óráð. Ég miða venjulega við að hjóla á götum með 30-50 km hámarks hraða. En ég geri undantekningu þegar Suðurlandsbrautin er annars vegar, hún er fremur fáfarin, með tveimur akreinum og ég hef aldrei fundið fyrir því að ég sé að tefja þegar ég hef hjólað hana. Heimleiðin var sumsé Skúlagata, Suðurlandsbraut, Háaleitisbraut og Safamýri.
En ég ætti kannski ekkert að vera að biðja um meiri snjó, jólin eru búin og bíllinn minn er fastur á þessu plani og allt útlit fyrir að hann verði það fram yfir áramót.
Innskot 1.1.2012 Eftir á að hyggja, þá sýna myndirnar mínar ekki fannfergið nógu vel, en það gerir myndband sem ég rakst á á youtube
Dægurmál | Breytt 2.4.2020 kl. 13:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
21.12.2011 | 15:33
Hjólabókin
Það var þykkt umslag í pósthólfinu mínu í vikunni, ég var búin að fá dagatal 2012 frá viðskiptabankanum mínum og taldi að nú væri samkeppnisaðili að senda mér veglegra dagatal. En þegar ég opnaði umslagið reyndist þar vera komin Hjólabókin, skrifuð af Ómari Smára Kristinssyni. Gjöf höfundar til mín, þakklæti fyrir þá fræðslu og skemmtan sem bloggið mitt hefur veitt honum. Mikið svakalega var gaman að fá þessa sendingu.
Þessi bók er bara eins og skrifuð með mig í huga. Ég ferðast iðulega þannig að ég finn mér 20-80 km hringleiðir, kem mér á áfangastað á bíl með hjólið aftan á, og hjóla svo í hring, aftur að bílnum eða náttstað, tek jafnvel annan hring ef stutt er liðið á daginn. Þ.e. þegar ég er ein á ferð. Ég er sjálf búin að skipuleggja þrjár sumarleyfisferðir með þessum hætti, fór fyrst Vesturland, svo Norðurland og Austfirði í sumar. Ég hef skipulagt fyrirfram hvað ég ætla að hjóla á ja.is. Vesturlandið var aðeins of auðvelt, enda mest megins flatt. Norðurlandið kom mér á óvart, hvað það var mikið af troðningum og illfærum vegum sem litu út fyrir að vera sæmilega færir akvegir á kortinu, ég hélt að ég væri að fara svipaða slóða og á Vesturlandinu og var á götuhjóli í hvílíku torfærunum og grjóthnullungum.
Austurlandið var mikið á malbiki og heiðarnar það háar að ég er ekki viss um að ég hefði lagt í þær ef þokan hefði ekki byrgt mér sýn upp á topp. En þetta sér maður ekki á ja.is, þó að þar séu uppgefnar hæðarlínur, þá gefur það manni ekki tilfinningu fyrir hversu erfið eða illfær viðkomandi leið er, þá eru ekki gefin upp vöð og annað sem máli skiptir.
Í Hjólabókinni er margs konar fróðleikur, þarna er 14 dagleiðum lýst í máli og myndum, gps hnit gefin upp, erfiðleikastigsflokkun og sýnt hversu mikil hækkun og lækkun er á leiðunum. Þetta er alveg upplagt fyrir hjólafólk eins og mig, sem veit ekkert þegar ég legg af stað í hringinn, hvort ég verði tvo eða tíu tíma á leiðinni. Ég er raunar alltaf með nesti fyrir 24 tíma og fatnað fyrir hvaða veður sem er þegar ég fer í dags hjólatúr, en það er mikil hjálp í því að vita nokkurn veginn hvað maður er að fara út í fyrirfram. Og einmitt Vestfirðir, en ég hef lítið hjólað þar, hef þó hjólað tvær leiðir í bókinni, hringinn í kring um Reykjanes og Steinadalsheiðina. Ég var á leiðinni að setjast niður og skipuleggja hjólaferð næsta sumars, en þarf þess ekki, þessi bók mun sjá mér fyrir skemmtilegum hjólaleiðum alla vega tvö sumarfrí.
Það ættu allir að hafa gaman af þessari bók, hvort sem þeir eru nýbyrjaðir að hjóla, sem og reyndir hjólanaglar sem eru nú þegar búnir að hjóla þetta, alltaf gaman að rifja upp hvað maður er búinn að afreka.
Ómar Smári, til hamingju með þessa líka fínu bók, og hjartans þakkir fyrir að gefa mér eintak.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.12.2011 | 21:09
Hó, hó, hó
Ég vorkenndi jólasveininum þegar ég var lítil stelpa heima á Ísafirði. Sveinki birtist á öllum myndum sem gamall, feitur kall með hvítt skegg og mér fannst ófært að láta hann klifra upp á aðra hæð til að gefa mér í skóinn. Ég sjálf klifraði oft upp á skyggnið yfir dyrunum og stundum alveg upp á þak til að sækja bolta sem höfðu skorðast í þakrennunni. Svo ég vissi vel að þetta var erfitt. Hvað þá um hávetur þegar snjór og hálka var á skyggninu.
Eitt kvöldið datt mér það snjallræði í hug að binda þveng í skóinn minn og láta hann síga niður á götu. Næsta morgun spratt ég á fætur, og varð hissa á að sjá nammi í gluggakistunni, en skórinn minn var fullur af snjó þegar ég dró hann upp. Þótti mér skrítið að Sveinki hefði klöngrast upp með öll sín aukakíló þegar hann gat látið nammið í skóinn sem lá niðri á stétt.
Myndin hér fyrir ofan er tekin að sumarlagi, en á henni sést skyggnið. Afi og amma í móðurætt, mamma og svo hið merkilega, báðir bræður mínir á hjólum, en ekki ég! Engin furða að ég sé með hjólabakteríu í dag, hef ekkert fengið hjóla í æsku... Jú, jú, ég átti líka hjól, það er bara ekki til nein mynd af mér hjólandi. Veturnir voru hins vegar snjóþungir fyrir vestan og ekkert hjólafæri marga mánuði ársins, þó man ég eftir að við vöfðum snæri um dekkin og gátum hjólað eitthvað á þeim þannig. Þá voru ófá snjóhús byggð og ég man varla öðru vísi eftir mér en hálf ofan í skafli, á skautum eða skíðum.
Ég er nú ekki skömminni skárri en jólasveinninn. Ég hef undanfarin 2 ár hjólað sjálf með jólakortin til ættingja og vina á höfuðborgarsvæðinu, það hefur tekið mig 3 góða hjólatúra, og ég veit ekki alveg af hverju ég er að þessu þegar ég get setið heima með heitt súkkulaði og piparkökur og látið Íslandspóst bera þetta út fyrir mig. En ég get ekki svikið strákana, þeim finnst svo gaman að bera út jólapóstinn með mér.
Dægurmál | Breytt 24.1.2016 kl. 16:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eldri færslur
- Október 2017
- Ágúst 2017
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Desember 2013
- Október 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Maí 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Febrúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Janúar 2009
- Nóvember 2008
- Maí 2008
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar