Reykjanesmótið

Stundum er tilveran róleg og tíðindalítil.  Vikum saman.  Svo hrúgast skrilljón viðburðir á eina helgi, og maður veit ekkert í hvorn fótinn maður á að stíga.  Ég tók þátt í Reykjanesmótinu í hjólreiðum í fyrra.  Aðallega af forvitni, að sjá hvernig svona hjólakeppnir færu fram og hvers konar fólk tæki þátt.  Meirihlutinn var skiljanlega spandexklæddir karlmenn, ekkert nema vöðvar, fitt og flottir.  Ég sjálf reyndist vera í ívið betra formi en ég átti von á, lenti í 3ja sæti í kvennaflokkinum.  Fór heim með verðlaunapening og góðar minningar.

Ég ákvað að ég skyldi taka þátt að ári, ekki til að troða mér aftur á verðlaunapall, heldur til að taka þátt í skemmtilegri keppni, enda Suðurnesjamenn höfðingar heim að sækja.  Ég var líka forvitin að sjá hvort ég myndi bæta tímann eitthvað, en eftirá var loftþrýstingurinn mældur hjá mér og reyndist hann vera u.þ.b. 30, enda geng ég undir ýmsum viðurnefnum, ýmist Hjóla-Hrönn eða Hrönn-á-felgunni.  Ég er engin græjukelling þegar kemur að dóti eins og hjólum, bílum og kaffivélum.  Ef það virkar og gerir það sem ég ætlast til, þá er ég ánægð.  Maður kemst samt ekki hjá því að læra eitt og annað af fólki sem maður hjólar með.  Ég er búin að skipta út petölunum og fá mér hjólaskó sem festast á petalana, svokallað klítasystem.  Ég er farin að pumpa í dekkin og smyrja keðjuna.  Þríf meira að segja hjólið stöku sinnum, en það var eitthvað sem var ekki gert hér áður fyrr.  Ég taldi að ég ætti að geta bætt tímann hjá mér umtalsvert í góðum hjólaskóm og með 60-80 punda þrýsting í dekkjunum.

Tveimur vikum fyrir keppni veiktist ég hægt og rólega og endaði á að liggja nokkra daga í rúminu.  Gat ekkert hjólað eða synt í tvær vikur.  Og svo voru tónleikar daginn fyrir keppnina sem ég var löngu búin að ákveða að fara á.  Tvær af helstu þungarokkhljómsveitum landsins, Skálmöld og Sólstafir voru að spila á sömu tónleikunum.  Hófst nú mikill valkvíði, hvort ég ætti að velja djammið eða hjólakeppnina.  Ég vissi vel fyrirfram að ég yrði slæm í hnjánum eftir tónleikana, ég er með slitgigt.  Það er verst fyrir mig að standa upprétt, en ef ég myndi dansa nógu andskoti mikið, þá væri möguleiki á að ég yrði hjólafær næsta dag.  Svo planið var að drekka hóflega, dansa hraustlega og fara strax heim að sofa eftir tónleikana og rífa sig upp næsta morgun og taka þátt í hjólakeppni.

Næsta dag vaknaði ég kl 8, kýrskír í kollinum, ákvað að taka þátt og velti mér framúr.  Og komst að því að ég var draghölt eftir djammið.  Hófst nú aftur valkvíði, hjóla eða skríða aftur upp í.  Það tók mig hálftíma, sturtu og tvo kaffibolla að ákveða að ég skyldi alla vega mæta og hjóla af stað, engin skömm að því að hætta við ef heilsan hamlar eða búnaður bilar.

Það voru 39 sem tóku þátt í fyrra, þar af 7 konur.  Nú voru þátttakendur 54, þar af 10 konur, 4 fóru lengri vegalengdina,  6 fóru 30 km, þar á meðal ég.  Þegar keppnin var hálfnuð var ég í 1sta sæti af konunum í mínum riðli.  Ógeðslega ánægð með mig, eða þar til Þurí seig fram úr mér í einu brekkunni sem er á svæðinu.  Brekkur er eitthvað sem ég á ennþá erfitt með, og það fór svo að ég náði henni ekki aftur og lenti í öðru sæti.  Grjótfúlt, en samt bara nokkuð gott, miðað við að mæta hálftimbraður og draghaltur eftir að hafa legið í rúminu í tvær vikur.  Sýnir bara að það að vera í góðu formi dags daglega gerir manni kleift að takast auðveldar á við óvænt áföll.

webMedals
 

Svo nú á ég 3 verðlaunapeninga eftir 3 hjólakeppnir.  Ég hélt að ég hefði bætt tímann um 9 mínútur, en það var bara misminni, ég var mínútu lengur í ár en í fyrra.  Það verður að skrifast á Bakkus, Skálmöld og Sólstafi.  Nú hef ég eitthvað að stefna að á næsta ári, bæta tímaskömmina.  Það hlýtur að hafast ef maður sleppir alla vega djamminu kvöldið áður.  Ég filmaði ekki neitt þetta árið, gleymdi myndavélinni heima.  Svo ég set bara myndbönd af uppáhaldslögunum með Skálmöld og Sólstöfum í staðinn...  Ef grannt er skoðað má sjá mig í áhorfendaskaranum.

Og hér með Sólstöfum:


Vetur senn á enda

2011-03 003 

Ó, játið bara, veturinn er varla liðinn en við erum samt farin að sakna hans.  Ég tók þessar myndir einn fallegan vetrardag í mars síðastliðnum.  Þá var blankalogn, heiðríkt og 11 stiga frost.  Ætlaði að hitta hóp af hressu hjólafólki, en frétti seinna að þau voru á skíðum uppi í Bláfjöllum.  Svo ég ákvað að hjóla bara ein eitthvað meðfram ströndinni.

2011-03 001

Esjan laðar og lokkar eins og öll önnur tignarleg fjöll.  Ég held oft áfram upp í Mosfellsbæ og fer svo hringinn í kring um Úlfarsfellið.  Sem sjá má á efstu myndinni var stígurinn meðfram sjónum ófær, þó að stígar inni í byggð væru ágætlega mokaðir. 

2011-03 004 

Svo ég hjólaði á götunum, stytti mér aðeins leið, fór upp á Vesturlandsveg og beygði inn á malarveg, Skarhólabraut, sem lá inn í Mosfellsbæinn sunnanverðan.  Svolítið upp í móti og svo ágætis brekka niður í móti.  Smá downhill æfing, enda fínir skaflar beggja vegna sem gott var að detta í.  Þessi vegur var ekki mokaður, en jeppar og önnur gróf ökutæki voru búin að þjappa snjóinn, svo hann var ágætlega fær reiðhjólum.

2011-03 005

Gafst svo upp á stígunum og hjólaði alla leið heim á nokkurra akreina vegum, fyrst á Vesturlandsvegi, svo á Miklubrautinni.  Enda beinasta, breiðasta og auðveldasta leiðin heim til mín. 

Eitt er hlutur sem bílstjórar þyrftu að athuga.  Það hefur engan tilgang að flauta á hjólreiðamann.  Í þessu tilfelli var akvegurinn auður, ég á 50-60 km hraða niður brekku þar sem hámarkshraði er 80, ökumenn fóru þó töluvert hraðar en auglýstur hámarkshraði og ég hef sennilega truflað þá við að blaðra í gemsann eða dagdrauma, pulsu og kókát eða bara allt þetta í einu.  Erfitt þegar menn eru með pylsu í annarri hendi, kók í klofinu og gemsann í hinni.  Þurfa svo að stýra yfir á aðra akrein með nefinu, sulla kókinu niður og líta út fyrir að vera hlandblautir á áfangastað.  Skil svo sem vel að menn geti pirrað sig á því.

Alla vega voru nokkrir sem fundu sig knúna til að flauta á mig þegar þeir geystust framúr mér.  Bílflautur á einungis að nota  til að vara aðra vegfarendur við hættu.  Þær eru  afskaplega háværar og hjólreiðamanni getur brugðið og fipast ef einhver þeytir flautuna í 1-2 metra fjarlægð frá honum.

Eða kannski voru þeir bara að tjá aðdáun sína á þessum hjólanagla, þá er betra að hægja ferðina, skrúfa niður rúðuna og flauta með munninum, takk.  Fjúdd, fjúíííí, bros og blikk er betra en geðvonskulegt bííííííbb.

2011-03 013


... og svo kýrnar

VesturbaerUmVetur 

Það er ekki tekið út með sældinni að búa í Vesturbænum.  Ég er eina mínútu að hjóla í vinnuna.  Eina mínútu að hjóla út í klúbbhús Fjallahjólaklúbbsins og eina mínútu að hjóla í Vesturbæjarlaugina.  Eftir að ég fattaði að það eru opnar matvörubúðir allan sólarhringinn í Vesturbænum hef ég varla átt erindi út fyrir póstnúmer 107.  Maður verður sífellt latari með minni hreyfingu og nú er ég orðin sílspikuð eins og beljurnar sem eru búnar að hanga á bás og éta í allan vetur.

cowsandbikes

Síðustu helgi átti ég erindi í Skálholt, en kórinn minn, sönghópurinn Norðurljós var með æfingabúðir.  Þó að veðurspáin væri leiðinleg, rok og rigning ákvað ég að kippa hjólinu með.  Sem betur fer, hann brast á með brakandi blíðu á sunnudeginum.

02-20 008 - Copy

Hjólaði veg 353 - Kiðjaberg niður að Hestvatni og meðfram því á grófum malarvegi.  Það var smá bleyta í veginum, og klakabunkar á köflum, en samt vel hjólanlegt.  Maður verður pínu skítugur, bæði hjól og knapi, en það tilheyrir bara vorinu.

02-20 013 

Venjulega heyrir maður alltaf einhver hljóð frá mannfólkinu, umferðarnið í fjarska eða dyn frá rafmagnsmöstrum.  Það er golfvöllur og sumarbústaðir í nágrenninu en þennan sólríka sunnudag var engin umferð við vatnið og lognið var slíkt að engin vindhljóð heyrðust, engir fuglar voru á vatninu, ennþá ísi lagt.  Eina hljóðið sem ég heyrði var niður í á sem rann í vatnið að norðanverðu.  Mér fannst ég jafnvel heyra snjóinn bráðna, slík var kyrrðin.  Á svona stundum fær maður á tilfinninguna að maður sé einn í heiminum og tíminn verður afstæður.

02-20 021

Svekkelsi dagsins fólust í þessu skilti.  Hér er verið að tæla mann, æsa upp og egna.  Hver stenst 3 heita potta eftir góðan hjólatúr?  Ekki ég.

02-20 024

Sundlaugin reyndist hins vegar vera mannlaus og lokuð.  Að vísu hægt að fara í snjó-sund sem ég væri alveg til í að prófa, en þá þarf maður að fá að dýfa sér ofan í heitan pott að því loknu.

02-20 022

Vorið er komið, óhætt að hleypa hjólurunum út.

02-20 003b


Reykjavík - Álftavatn

11-27 057

Það var fámennt en góðmennt í aðventuferð Fjallahjólaklúbbsins til Álftavatns.  Veðurspáin var svolítið á reiki, allt frá þýðu upp í 17 stiga frost, snjókomu og skafrennings.  Við ákváðum samt að fara enda vopnuð Björgvin á fjallajeppa sem gæti hirt upp hrakta og þjáða hjólara ef á þyrfti að halda.

11-27 015

Á þessum árstíma má alltaf búast við kvefpestum, þrír hjólarar afboðuðu á síðustu stundu vegna veikinda.  Við vorum því bara fjögur sem hjóluðum til Álftavatns, Bjarni sem hélt upp á 65 ára afmælið sitt, Sóla sem var í sinni fyrstu langferð á hjóli (ekkert að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur) og Unnur hjólanagli en við hjóluðum hálfan Kjöl saman fyrir nokkrum vikum.

11-27 004

Við lögðum af stað úr Reykjavík snemma morguns.  Komum við í sundlauginni í Mosfellsbæ, ekki til að fara í sund, heldur til að þýða á okkur tærnar, en þetta er helsta vandamál hjólafólks á langferðum að vetrarlagi, að ná að halda hita á tánum.  Þegar við lögðum á Mosfellsheiði bættist nýtt vandamál við, það hreyfði aðeins vind, og þar eð frostið var 8 gráður, þá var þetta eins og fá ísnálar framan í sig.  Þá dró ég buffið upp fyrir vit, svo maður myndi nú ekki skilja nefið eftir á heiðinni.  Las í blöðunum grein um búrkur, hvort það ætti að banna þær á Íslandi, það er nú þegar bannað með lögum að vera með hulin vit á almannafæri.  Lögbrjótar á Mosfellsheiðinni.

10-27 100

Ferðin yfir heiðina gekk það vel að við ákváðum að fara lengri leiðina niður að Álftavatni.  Hjóla niður Almannagjá og fara austan megin við vötnin þrjú.  Þingvallavatn, Úlfljótsvatn og Álftavatn.

11-27 022

Eftir að hafa þrætt í gegn um Peningagjá og ferðamannahópa héldum við áleiðis niður eftir í blankalogni en góðum frosthörkum.  Sóttist ferðin vel og þegar dimma tók voru ljósin kveikt og endurskinið frá vestunum ljómaði í takt við Norðurljósin sem bylgjuðust um himininn.  Við komum að bústaðnum kl 17:45 eftir tæplega 8 tíma ferðalag.  Það var grillað, spilað á gítar, dólað í heita pottinum, etið, Sóla bauð upp á köku, kveikt á kertum, kósí og huggulegheit.  Og nokkrir bjórar hurfu eins og dögg fyrir sólu.

11-27 038

Sunnudagurinn fór rólega af stað, eftir að hafa nært sig var lagt í hann kl 11:30.  Hjóluð Grafningsleið til að sleppa við mestu bílaumferðina. 

 11-27 048

Aftur var logn, sól en frostið heldur meira en á laugardeginum.  Ég var alla vega komin í þrenna ullarsokka en samt svolítið kalt á tánum.  Það var nauðsynlegt fyrir okkur að labba og teyma hjólin í nokkrar mínútur á hverjum klukkutíma til að halda lífi í tásunum.  Hótel Hengill reyndist vera opinn, þangað stungum við okkur inn í ríflega klukkutíma, gæddum okkur á hamborgurum, silung og heitu kakói.

10-27 101

Hengillinn var ægifagur í ljósaskiptunum.  Ég gat ekki hjólað hann allan í þetta sinn, enda hálka og við á nagladekkjum.  En þetta skotgekk, við vorum bara 2 tíma og korter frá Nesjavöllum inn í Reykjavík.  Skrítin tilviljun en þegar ég leit á klukkuna í Reykjavík var hún 17:45.  Nákvæmlega sami tími og þegar við komum í bústaðinn daginn áður.

11-27 061 

Og svona í lokin afþví ég er svo mikil húsmóðir.  Það eru til margar gerðir af rónasteikum.  Uppistaðan er ein franskbrauðssneið.  Ofan á hana fer ýmist steikt egg, hakk eða kjötfars.  Allt eftir því hversu grand menn vilja vera á því.  Og ef maður bætir við salatblaði, þá er maður kominn með Rónasteik de luxe.

10-27 102

Myndir úr ferðalaginu er að finna hér http://picasaweb.google.com/hjolahronn/ReykjavikAlftavatn#

og svo var aðeins verið að videóast...

Fyrri daginn voru hjólaðir 87 km, þ.e. frá klúbbhúsi að Álftavatni.  Og seinni daginn 65 km.  Og nú er maður með rjóðar eplakinnar, það gerist ekki jólalegra...


Nesjavellir - Stærri í dag en í fyrra

08-18 623 
En samt er ég öll minni.  Þ.e. farin úr fatastærð 56 í 44, meira að segja skóstærðin hefur minnkað, ég er búin að þurfa skó í stærð 43 í nokkur ár, en er komin niður í gömlu skóstærðina mína, 41.  Það var að sjálfsögðu haldið upp á það með því að kaupa háhælaða skó og pæjast aðeins á þeim, þó að ég sé nú frekar fyrir að hjóla úti í náttúrunni í þægilegum flatbotna skóm.
 

Þegar ég var lítil hnáta á Ísafirði var þáttur í sjónvarpinu sem ég man ekki lengur hvað hét, en hann var um börn í Indlandi og þau áttu fíl sem hét Kala.  Í hlíðinni fyrir ofan Ísafjörð fundum við krakkarnir stóran stein sem líktist fíl, og hann var iðulega kallaður Kala, átti stórt hlutverk í barnaleikjum bernskunnar og hríslurnar í hlíðinni breyttust í frumskóg með alls konar dýrum og ævintýrum.

Fyrir nokkrum árum fór ég í gönguferð upp á Gleiðahjalla og leitaði að þessum stein í leiðinni.  Í endurminningunni var þetta heljarinnar hnullungur og ég leitaði að bjargi sem myndi gnæfa yfir mig.  Það sem fimm ára barni þótti stórt er ekki stórt í augum fullorðinna og mér til mikillar furðu náði steinninn mér rétt upp fyrir mitti.  Ég hafði tvöfaldast í hæð en steinninn  skiljanlega staðið í stað.
 
10-22 132
 
Í fyrra fór ég í ferð með Fjallahjólaklúbbnum til Nesjavalla.  Mér þótti ferðin svolítið erfið, það voru þó nokkuð margar brekkur sem ég gat ekki hjólað, þurfti að teyma hjólið upp þær.  Þegar við komum á Nesjavelli hlunkaðist ég ofan í heita pottinn alveg búin á því og komst eiginlega ekki upp úr honum aftur fyrr en eftir 2-3 tíma.  Var satt að segja nokkrar vikur að jafna mig almennilega eftir þessa ferð.  Sem einn vanur ferðafélagi kallaði leti- og dólferð rétt út fyrir bæinn.  Heppinn að vera ekki drekkt í heita pottinum, en ég var náttúrulega of farlama þá til að tuska menn til.

pottur

Síðla sumars ákvað ég að hjóla yfir á Þingvelli og taka Nesjavellina til baka.  Helmingi lengri leið en ég fór í fyrra, samtals 80 km.  Ég bjóst fastlega við að þurfa að teyma upp brekkurnar, en kílómetrarnir liðu einn af öðrum og aldrei komu þessar hrikalegu brekkur sem ég minntist frá því í fyrra.  Svo var ég allt í einu komin til Reykjavíkur og alveg "Bíddu, hvert fóru brekkurnar?".  Fékk ekki einu sinni harðsperrur eftir þessa laufléttu dagsferð.
 
08-18 625 
Það er eins og ég hafi stækkað frá því í fyrra, þó að ég hafi í raun minnkað.  Nú er Fjallahjólaklúbburinn að fara í aðventuferð til Álftavatns laugardaginn 27 nóvember næstkomandi.  Þá er hjólað til Nesjavalla og áfram meðfram Úlfljótsvatni, í gegn um Þrastarskóg að Selvík.  Örlítið lengri ferð en þegar hjólað er til Nesjavalla.  En viðbótin er öll á jafnsléttu eða niður í mót.  Er ekki upplagt að skella sér með og tækla jólastressið afslappaður og endurnærður eftir að hafa hjólað um þá einstöku náttúru sem er rétt við borgarmörkin.
 
08-18 621 


Bara fyrir konur

Í tilefni kvennafrídagsins verð ég nú að koma með færslu sérstaklega fyrir kvenfólkið.

 

pro-cyclist-ass

 

Það eru alls kyns mítur í gangi hvers konar hnakkar henti kvenfólki best.  Þetta er eins og með alla aðra hluti, maður verður bara að prófa sig áfram.  Það sem hentar einni konu hentar ekki næstu.  Ég er búin að prófa alls konar hnakka, allt frá örmjóum pyntingartólum til breiðra traktorssæta.  Keppniskonur verða held ég að sætta sig við mjóu hnakkana og vera þá í elegant hjólabuxum með púðum í klofinu.  Við getum alla vega huggað okkur við að karlmenn skarta stundum líka kameltá...

 

camel_toe


Sumir hnakkar eru með dæld eftir endilöngum hnakki, mér finnst einna best ef hnakkurinn er svoleiðis og miðlungs breiður.  Þá þarf ég að láta hnakknefið halla nokkuð mikið niður, jafnvel það mikið að ég er frekar að tylla rassinum á hnakkinn en sitja á honum.  Annars kem ég heim í hlað með doða og tilfinningaleysi sem varir í ca tvo daga.  Og það gengur ekki þegar maður hjólar á hverjum degi.  Konan lifir ekki á hjólreiðum og brauði einu saman.  Best er að hjóla í nokkra km, prófa að breyta hallanum um eitt bil, hjóla nokkra km  og prófa sig áfram í báðar áttir.  Líka færa hnakkinn fram og aftur.  Þetta getur tekið nokkra daga þar til maður finnur stillingu sem hentar manni best. 

Annað sem getur skipt máli.  Hár eða hárleysi.  Hér gildir líka að prófa sig áfram.  Ég gerði mistök þegar ég hjólaði Kjöl, yfir 200 km á tveimur dögum, var með meira en vikugamla brodda.  Fékk núningssár.  Það hefði sviðið minna seinni daginn ef ég hefði rakað rétt fyrir ferðina.   

Vaselin krukka er ómissandi í hjólatúrinn.  Þetta lærði ég af sundkrökkunum, sá að þau voru að bera eitthvað á sig meðfram sundfötunum.  Þau voru að maka vaselini á þá staði sem var líklegt að núningssár myndu myndast.  Hei, þetta ráð gildir raunar líka fyrir karlmenn, ef einhver karlkyns skyldi enn vera að lesa. 

Lítill spegill.  Það er nauðsynlegt að skoða vinkonuna áður en farið er í langan hjólatúr.  Sérstaklega þær sem raka allt af.  Síðasta sumar var ég orðin voðalega aum, en bara öðru megin.  Hélt að eitthvað lægi skakkt eða vitlaust, reyndi að hagræða en þegar eymslin mögnuðust hélt ég hefði fengið barrnál eða annað stingandi strá í gegn um hjólabuxurnar, stoppaði úti í vegarkanti, skreið ofan í skurð, úr að neðan og skvísuskoðun.  Þá hafði lítið snifsi af klósettpappír rúllast upp og lá þarna á milli ytri og innri barms.  Búið að þurrka slímhúðina og mynda lítið brunasár.  Vaselin á það og þá var sko hægt að hjóla í nokkra klukkutíma í viðbót. 

Það eru oft smáatriðin sem skipta máli hvort hjólatúrinn verði ánægjuleg upplifun eða hreinasta kvalræði.


mbl.is Konur hvattar til að klæða sig vel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki ég í þetta sinn

En þetta hefði verið svo týpískt ég að villast um Ísafjörð.  Það eru margar ástæður fyrir því að ég hjóla frekar en keyri.  Ég er ömurlegur bílstjóri.  Svo sem ekkert góður hjólari, en samt skömminni skárri á reiðhjóli en bíl. 

Ég var í sumarbústað rétt hjá Selfossi fyrir nokkru og þurfti að fara inn í bæinn að kaupa í matinn.  Ákvað að koma við í vínbúð og kaupa rauðvín, þar eð ég var nýbúin að læra á grillið eftir að hafa gist skrilljón sinnum í bústaðnum en aldrei lært á þetta flókna tól.  Grill eru nefnilega almennt í verkahring karlmanna.  12 ára sonur minn heimtaði hins vegar grillaðar útipylsur, og við nánari athugun þurfti bara að  skrúfa frá krananum á gaskútnum og ýta á einn takka.  Voila, grillið tilbúið til eldunar.

Taldi líklegt að vínbúðin væri við aðalgötuna, rúntaði þar fram og til baka en fann ekki.  Fór í sund og ákvað að gefast upp á búsinu og tjilla bara edrú í heita pottinum um kvöldið. 

TrodinnPottur

Gleymdi sundfötunum í Sundhöllinni og þurfti að fara annan hring til að nálgast þau.  Verandi viss um að það væri vínbúð í öðru eins menningarpleisi og Selfoss er, tók ég beygju hér og þar í von um að ramba á hana og endaði eins og álka inni á grasbala og þurfti að keyra eftir göngustíg og skrapa svo nánast pústið undan bílnum við að fara frá gangstéttinni niður á bílaplan.  Verst þótti mér að tveir karlmenn á reiðhjólum stöðvuðu fararskjótana til að fylgjast glottandi með mér.  Ég vona bara að ég hafi ekki þekkst, ég held að ég hafi aldrei roðnað jafn mikið um æfina...

En merkilegt nokk, ég ók óvænt fram á vínbúðina í vandræðagang mínum.  Hún er fyrir aftan KFC.

Ekki veit ég hvað þessir ökuþórar voru að leita að, vínbúðin er alla vega niðri í bæ á Ísafirði, ekki upp undir fjalli.  Og meira að segja ég hefði fattað að ég væri í þann veginn að keyra inn á fótboltavöll...

p.s. pottamyndin er tekin eftir 4 daga gönguferð um Fjörður á Norðurlandi.  Ég tók myndina og tróð mér svo ofan í pottinn til ferðafélaganna, það er alltaf pláss fyrir einn í viðbót þegar svona heitir pottar eru annars vegar.


mbl.is Ók bíl yfir knattspyrnuvöll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veiðivötn

10-01 135 

Það voru hvorki árabátar né rósóttir kjólar með í för þegar Fjallahjólaklúbburinn fór í haustferð í Veiðivötn.  Nóg var hins vegar af spandex, goretex og öðru svona -ex dóti sem er nauðsynlegt að hafa með, á þessum árstíma er allra veðra von.  Við vorum alls ellefu, þrjár konur, einn piltur og sjö karlmenn.

10-01 029

Hvernig kemur maður 10 reiðhjólum upp í litla kerru?  Með því að skrúfa hjólin í sundur.  Ég hef þó nokkrum sinnum tekið framgjörðina og hnakkinn af þegar ég er að troða hjólinu mínu inn í bíl, ég sný þá hjólinu á hvolf, losa bremsupúðavírinn, skrúfa framhjólið laust og toga það upp úr falsinu.  Þetta tekur mig smá tíma.  Ég ætlaði að fara að snúa hjólinu mínu við þegar einn vanur hjólari leið niður í frumbyggjastellingu, snör handtök og fimm sekúndum síðar fóru gjörðin og hjólið upp í kerru sitt í hvoru lagi.  Alltaf lærir maður eitthvað nýtt.  Ég hafði smá áhyggjur af því að gjörðin myndi hoppa upp úr kerrunni ef hún lægi þarna laus upp á rönd, en sumir glottu nú bara og sögðu að það myndi ekki gerast, lögðu meira að segja hjólin sín að veði, sem eru langtum verðmætari en mitt. 

10-01 040

Núverandi fjallahjól er svona meira skrepp-í-bæinn og aðeins-upp-í-Heiðmörk, ég fer ekkert á bömmer þó að því yrði stolið af mér eða ef ég týni því á djamminu niðri í bæ...  En ef ég væri framgjarðarlaus uppi í Veiðivötnum, þá yrði nú lítið hjólað þá helgi.  Ég á kannski eftir að fá mér alvöru hjól einn daginn, fann að ég gat hjólað hraðar, en hjólið stoppaði mig af, það er bara venjulegt 21 gíra, fúlt að horfa á eftir reiðfélögunum hverfa út við sjónarrönd, hafa kraftinn en ekki gæðinginn til að fylgja þeim eftir.

10-01 148

Var ekki vont veður?  Jú, jú, það blés svolítið á okkur.  Ísland er bara þannig, það má alltaf búast við roki, sérstaklega að haustlagi og sérstaklega uppi á hálendinu að haustlagi.  Stundum er nauðsynlegt að upplifa smá mótlæti til að maður geti notið þess betur sem er gott.  Ég skal viðurkenna að það var ansi hvasst, stundum var ekki stætt, hvað þá að reyna að hjóla upp brekku með kannski 30 metra vindhviðu í fanginu.

10-01 052

 En náttúran er ægifögur þarna í Veiðivötnum, þá tekur maður ekkert eftir því þó að það bylji á manni smá haglél.  Þó að við höfum bara farið ríflega 20 km fyrri daginn, þá var sko tekið nokkuð vel á, smá bruni í lærum og rassi.

10-01 133

Björgvin á heiður skilið fyrir að sjá um kvöldmatinn, ketið var girnilegt, bragðaðist ótrúlega vel, frábær félagsskapur, mikið hlegið og ég held að Siggi sé búinn að jafna sig á heilahristingnum.

10-01 085b

Er ekki eh-uh vont að sofa hjá fólki sem þú þekkir ekki neitt?  Það er misþröngt í svona skálum, ég hef þurft að samrekkja ókunnugu fólki í örmjóum kojum á óbyggðaferðalögum mínum fyrr á árum, þessi rúmaði hins vegar 60 manns, nóg pláss og víðáttubrjálæði, samt völdu strákarnir að kúra þétt saman...

10-01 070

Nema Prinsinn á bauninni...

10-01 069

Var ekki kalt í skálanum?  Ég stóð undir nafni, svaf í hjóla-gallanum.  Það kólnaði ansi mikið eftir því sem leið á nóttina, ég var komin í ullarfötin, hjólabuxur og jakka, tvö buff og vetrarvettlingana.  Þetta voru náttfötin, ekki veit ég hvað ferðafélagarnir hugsuðu þegar þeir sáu prinsessubælið mitt, þeir hafa kannski frekar átt von á að ég skriði framúr í náttkjól frá Viktoríu-tímabilinu, en að Hjóla-Hrönn skyldi stökka framúr fullklædd og klár í slaginn.  En mér er sama, ef það er möguleiki, þá vil ég hafa þægindi, tek sængina og alla þrjá koddana mína með.  Ég kúldrast ekki í þröngum svefnpoka, ef ég þarf þess ekki.

10-01 077

En það eru ekki bara við nýliðarnir sem lærum af reynsluboltunum, þeir geta líka lært af okkur.  Hvað gerir maður þegar maður kemur pungsveittur heim úr hjólatúr, uppgötvar eftir sturtuna að það eru engar hreinar næríur til.  Þú verður sóttur eftir korter til að mæta í fermingu / jarðarför / 60 ára afmæli frænku ect.... Enginn tími til að hjóla út í Hagkaup að kaupa nýjar.  Jú, þværð nærbuxurnar í höndunum og skellir þeim svo í örbylgjuna í 2-3 mínútur (rakar þig á meðan).  Koma út rjúkandi heitar og þurrar.  Þurrkari gerir vissulega sama gagn, en það eru ekki allir sem eiga svoleiðis græju.  Gallinn við að vera hreinskilinn er að hér eftir þiggur enginn örbylgjupopp hjá mér. 

10-01 082

Framan af sunnudegi breyttist hjólaferðin í jeppa-ferð.  Við ákváðum að hjóla ekki meira í Veiðivötnum vegna veðurs, fara frekar niður í Þjórsárdalinn og hjóla þar í meira skjóli.  Fórum og skoðuðum Hreysið, þetta er svona felumynd, sérðu Örlyg?

10-01 130

Við fórum svo og heimsóttum Unnar sem gaf okkur kaffi og tók af okkur hópmynd rétt áður en við létum gamminn geysa niður Þjórsárdalinn.

10-01 141

Ertu ekki eftir þig eftir svona ferð?  Tjah, ef ég hefði ekki farið í þessa hjólaferð, fyllt lungun af heilnæmu lofti, nært á mér hnén með hreyfingunni sem og andann með skemmtilegum félagsskap, þá hefði ég verið á árshátíð, tiplað um á háum hælum, röflað um fjármál og endurskipulagningu, fengið brjóstsviða af einhverju freyðivínssulli, dottið hraustlega í það, dansað allt of mikið og endað með timburmenn dauðans að drepast í hnjánum á sunnudeginum...  Hvaða vitleysa, það hefði verið gaman á árshátíðinni.  En það var líka gaman í Veiðivötnum.

10-01 147

10-01 150

10-01 024

Myndir úr ferðalaginu má sjá hér:

https://photos.app.goo.gl/N4RHTvAezVmM6MBc9

Á þessum tíma þurftu myndbönd að vera innan við 10 mínútur hvert.  Svo ferðin er í þremur myndböndum:


Algjörlega off

Fyrir nokkrum árum sá ég umræðu á vef Barnalands.  Titillinn var "Algjörlega off" og sú sem hóf umræðuna var að spyrjast fyrir um hvað konum þætti fráhrindandi í fari karlmanna.  Í mínu tilfelli eru það svitablautir sokkar og jakkaföt.  Ég fæ alltaf velgju þegar ég sé "rómantísk" augnablik í bíómyndum þar sem einhver fer úr skónum undir borði og strýkur "æsandi" með tánum upp eftir fótlegg aðilans sem á að heilla.  Guð hjálpi þeim manni sem reyndi slíkt við mig, hann myndi sko uppskera spark í punginn, ef ég væri ekki búin að æla yfir kjöltuna á honum áður.

Hitt er svo jakkaföt.  Fæstir karlmenn bera jakkaföt vel, þeir verða stífir, þeim líður illa, bindið virðist vera að hengja þá, og kynþokkinn sem getur leynst undir jakkafötum fer venjulega fram hjá mér.  Jakkaföt eru í sama kynþokkaflokki og gúmmístígvél og vöðlur í mínum augum.  Þá eru menn farnir að minna óþyrmilega á leikskólakrakka í þeirri múnderingu.  Kannski skánar það þegar þeir eru komnir hálfir ofan í á í fallegu umhverfi *hugs*

Karlmenn eru venjulega mest heillandi þegar þeir eru í klæðnaði eða aðstæðum sem þeim líður vel í.

Ekki óraði mig fyrir að þessi umræða væri svona djöfullega fyndin, líftími hennar er núna kominn á sjötta árið og enn get ég hlegið mig máttlausa yfir sjarmörunum sem íslenskt kvenfólk hefur hitt í gegn um tíðina...  Njótið ef þið hafið ekki lesið þessa umræðu áður:

http://er.is/messageboard/messageboard.aspx?advid=2472467&advtype=52&page=1&advertiseType=0

Og svo er hér önnur umræða á líkum nótum, hún er um okkar mistök svo fyllsta jafnréttis sé gætt, skiljanlega svolítið blóðugri en hin:

http://er.is/messageboard/messageboard.aspx?advid=15877871&advtype=52&showAdvid=15889193#m15889193

 


mbl.is Hjólamenn í uppáhaldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þriðjudagsferð með Fjallahjólaklúbbnum

Nei, ekki í kvöld, en í tilefni dagsins setti ég smá filmubút á youtube.  Þetta myndband er soðið saman úr þremur hjólatúrum.  Ég vann mætingabikarinn í fyrra, en vissi að ég yrði á ferð og flugi þetta sumarið og ólíklegt að ég myndi vinna hann aftur.  Ég var þó ansi nálægt því, fór í 8 ferðir, en Árni Bergsson hjólagarpur náði að fara í 9 þriðjudagsferðir.  Til hamingju með bikarinn Árni og takk fyrir félagsskapinn.  Alltaf gaman að fara út að hjóla með félögum úr Fjallahjólaklúbbnum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband