2.9.2011 | 12:05
Ólögleg í hjólakeppni?
Síðustu 3 ár hef ég verið að endurheimta heilsuna hægt og rólega og hef náð að trappa mig niður af nánast öllum lyfjum. Sunnudagskvöldin fóru í það að skipuleggja lyfjaneyslu fyrir vikuna, opna pakkningar, flokka töflur eftir tíma dags, rauð á morgnana, blá á kvöldin, gula um miðjan dag. O.s.frv. Ótrúlega erfitt að ná sumum töflum úr pakkningunum, gigtarlyfin einna erfiðust, eins kaldhæðnislega og það hljómar. Sum lyf orsaka aukaverkanir, og þá þarf maður jafnvel lyf til að slá á aukaverkanirnar, og svo enn önnur lyf til að takast á við þau lyf. Þannig getur maður lent í vítahring og veit ekkert hvað veldur þessum einkennum og hvað hinum. Hvað eru raunverulegir kvillar og hvað aukaverkanir.
Þá var ég líka að léttast nokkuð hratt og lét fjarlægja hormónalykkjuna, enda komin úr barneign og ég ekki hrifin af því að vera með óþarfa aðskotahluti í líkamanum. Ég fylltist smám saman alveg gífurlegri orku, og vissi satt að segja ekki hvaðan á mig stóð veðrið, taldi jafnvel að þetta væri undanfari breytingaskeiðs, nokkurs konar grár fiðringur. Fékk aðallega útrás í gegn um hjólreiðarnar, en ég fór líka að sækja skemmtistaði og hafa gaman af því að dansa fram á rauða nótt. Eitthvað sem ég hef ekki gert í mörg herrans ár.
Ég stefndi að því að hætta á öllum lyfjum og halda upp á það með því að storma inn í Blóðbankann og gefa einhverjum dropa af mínu eðalblóði. Vissi þó að ég yrði að vera áfram á einu lyfi, Questran (blóðfitulyf), en aukaverkun af því lyfi gagnast fólki sem hefur misst gallblöðruna. Þá streymir gallið óhindrað út í meltingarveginn og sumir höndla það illa, fá magabólgur, verki og niðurgang. Ég hélt að það lyf hefði einungis staðbundna verkun í meltingarvegi (sogaði upp gallið og skilaði sér alfarið út úr líkamanum) og hélt jafnvel að mér væri óhætt að gefa blóð þó að ég væri að taka inn þetta lyf. Las fylgiseðilinn vel og vandlega til að tékka á þessu, sérstaklega aukaverkununum.
Og komst að því að aukaverkunarlistinn er bæði langur og ljótur. Svo ég get ekki enn gefið blóð. Þegar ég byrjaði á þessu lyfi var það ekki á almennum markaði og ekki allar aukaverkanir komnar fram. Það var brýnt fyrir mér að hlusta vel á líkamann og tilkynna lækni eða lyfjafræðingi um allt óvenjulegt. Hef ekki þurft að gera slíkt, þetta lyf hefur bara gert mér gott, en sé þann aðila í anda sem tilkynni aukaverkunina "aukin kynhvöt". Kannski var viðkomandi bara hrifin/n af lyfjafræðingnum og ástleitni og mökunartilburðir misskildir sem aukaverkun af lyfinu.
Og þó... Ég skal viðurkenna að líðan mín undanfarin tvö ár hefur minnt ískyggilega á unglingsárin. Meira að segja svo sterkt í upphafi að erfiðleikar bólugrafinnar unglings-Hrannar eru í endurminningunni eins og rólegheita skógarganga.
Sem betur fer hafa aukaverkanirnar dalað jafnt og þétt, aldrei að vita nema ég fari að haga mér, hugsa og akta eins og virðulega, miðaldra frúin sem ég ábyggilega er. Einhvers staðar djúpt inni í mér.
Ég ætla bara að vona að ég þurfi ekki að fara á stera neitt á næstunni, það yrði alveg svakaleg og eldfim blanda. Ég er ekki viss um að ég muni þola við í eigin návist þá, hvað þá aðrir. Mig hefur alltaf langað að prófa að vera vitavörður einhvers staðar lengst úti í rassgati. Veit svo sem ekki hvort ég myndi höndla mikið meira en eina viku í einsemd, en það er nokkuð ljóst að ef ég fæ eitthvað slæmt lungnakvef sem astmapúst dugar ekki á, þá læt ég vitavarðardrauminn rætast áður en ég tek inn fyrstu steratöfluna.
En þetta vekur vissulega upp þá spurningu hvort ég sé á ólöglegum lyfjum þegar ég tek þátt í hjólakeppni?
Dægurmál | Breytt 16.10.2012 kl. 23:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.8.2011 | 00:06
Jómfrúarferð jeppakerru
Það mátti sjá margan jeppakallinn snúa sig úr hálsliðnum síðastliðna helgi, en þá fór Fjallahjólaklúbburinn með nýju hjólakerruna sína jómfrúarferð Upp í Landmannalaugar.
Þar voru fákarnir leystir úr læðingi, og 14 knapar þeystu af stað áleiðis í Dalakofann. Þrír jeppakallar og kellingar komu svo í humátt á eftir. Farin var svokölluð Dómadalsleið, mikið um brekkur, bæði upp og skiljanlega líka niður. Stundum er gott að hafa meðvindinn þegar maður er að hjóla, en hann hefur náttúrulega líka galla með í för. Það var svolítið mikið um sandrok og erfitt að koma auga á holur sem leyndust í veginum. Þó að sól hafi sést á köflum á laugardaginn, þá var ekki hangið í sólbaði, til þess var aðeins of mikil vindkæling. Við fengum hins vegar þessa líka fínu húðslípingu af öllum sandblæstrinum, húðin verður slétt eins og á nýfæddum barnsrassi.
Enginn veit hvað það er góð skemmtun að láta vindinn feykja sér áfram á 40 km hraða eftir sléttum og góðum malarvegi. Nema prófa það sjálfur.
Við ákváðum að grilla lambalæri, snæða saman og hafa huggulega kvöldvöku i Dalakofanum. Björgvin sá um að jeppakerran yrði klár í tíma, Sif keypti í matinn, Unnur skar niður grænmeti, ég pakkaði inn lærunum, ekki mínum, hvílauksgljáðum lambalærum sem strákarnir tóku við og skelltu á grillið.
Kristjana ætlaði að sjá um skemmtiatriði kvöldsins, og það gerði hún svo sannarlega með stæl. A la 2007. Þyrla og alles. Var nú ekki upphaflegt plan, en fór þó þannig.
Fólk er mis glannalegt á reiðhjólum. Ég misreiknaði t.d. eina bratta brekku, fetaði mig niður með aðra löpp á grundu, en þegar ég hélt að ég ætti stutt niður á jafnsléttu sleppti ég bremsunum og svo var ég bara komin á 50 km hraða niður holótta brekku, hjólið hristist og skalf og ferðafélagarnir sem voru fyrir neðan brekkuna stóðu á öndinni að aðdáun. Hvar ég hefði lært svona mergjaða downhill takta. Þegar ég hafði endurheimt hjartað úr buxunum viðurkenndi ég að ég hefði nú ekki ætlað að fljúga niður brekkuna, bara misreiknaði hvað hún var löng.
Það gerði hins vegar Kristjana ekki, hún fer ætíð mjög varlega, leiðir niður varasamar brekkur, og var á cm 5 km hraða (svipað og gönguhraði) þegar hjólið skrikaði í sviptivindi og hún datt á hliðina og meiddi sig.
Við vorum svo heppin að með í för var Stefanía, hjúkrunarfræðingur af slysadeild og Sif sjúkraþjálfari. Eftir stutta skoðun var ljóst að Kristjana var farin úr axlalið og handleggsbrotin. Hún var flutt í skálann sem var rétt hjá og hlúð að henni þangað til þyrlan mætti til að flytja hana á sjúkrahús. Þó að það sé ekki hægt að kalla svona atburð skemmtan, þá voru fæst okkar sem höfðu séð þyrluna í návígi og við fegin að hjólafélagi okkar fékk svo fljótt nauðsynlega aðhlynningu og viðeigandi lyfjagjöf til að lina verki sem fylgja svona beinbroti.
Enn og aftur er maður minntur á hversu mikilvægt það er að hafa björgunarsveitir og þyrlur starfandi hér á Íslandi, þar sem náttúran er óblíð og óvægin þeim sem um hana fara. Það verður sko bruðlað í flugelda um næstu áramót!
Við hin héldum áfram kvöldvökunni eftir að vinir okkar voru flognir á vit heilbrigðiskerfisins, ég fékk óvænta afmælistertu frá Önnu og Munda, gómsæta fallega skreytta skyrtertu. Og svo var afmælissöngurinn sunginn svo glumdi í Dalakofanum.
Það voru óvenju margar byltur í þessari ferð. Af 14 hjólurum hlutu 3 aðrir byltu. Einn rispaði síðuna, annar fleytti kerlingar, missti andann og fyllti munninn af sandi. Og svo gleymdi ég mér aðeins við að dáðst að útsýninu þegar sandrokinu slotaði og lá allt í einu í götunni með svona syngjandi fugla yfir mér eins og maður sér í teiknimyndasyrpum. Eftir að hafa skoðað vegsummerki hef ég hjólað á góðri ferð inn í sandgloppu, hjólið stoppað á punktinum, en ekki ég. Hjálmurinn með þremur sprungum, svolítið ringluð, aum í öxlinni, pínu marin á mjöðminni og búin að týna pumpunni. Það þótti mér verst, sjæse ef það skyldi nú springa dekk hjá mér... Þá er nú gott að hafa varadekk
Stuttu síðar kom Björgvin á jeppanum að athuga, hvað ég væri að drolla þarna úti í mýri og tók mig upp í. Ég var svo keyrð niður á Hellu, fékk kaffi, ibufen og ís. Eftir það var ég bara ljómandi hress. Skelltum okkur svo í sund til að mýkja skrokkinn sem var óneytanlega svolítið lemstraður eftir átökin við móður náttúru.
Maður hefur heyrt um slöngur sem gleypa menn og önnur spendýr í heilu lagi og hrúgaldið sést þá utan frá á belgnum. Ekki veit ég hvað þessi slanga át, það hlýtur að hafa verið mús eða hamstur.
Hér má svo sjá myndband úr ferðinni, þar á meðal björgunarleiðangur þyrlunnar:
Dægurmál | Breytt 2.4.2020 kl. 13:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.8.2011 | 17:39
Þingvellir
Ég skar smá flipa framan af fingurgómi þegar ég var að taka hjólið mitt niður af bílnum þegar ég var að keppa uppi á Akranesi fyrir nokkrum vikum. Var ekki með sjúkrakassann með mér en ljósmyndari staðarins gaf mér tvo plástra sem dugðu til að hemja blóðflæðið. Ég býst raunar allt eins við að ég hefði ekkert látið blæðandi fingurgóm stoppa mig í að taka þátt, þó að ég hefði ekki getað búið um sárið. Mér til mikillar ánægju vann ég kvennakeppnina og hreppti mitt fyrsta gull og bikar til eignar.
Daginn fyrir Íslandsmeistaramótið í hjólreiðum skar ég mig á beittu áli. Aftur í fingurgóm. Ætli þetta sé fyrirboði, hugsaði ég. Og mikið rétt. Ég vissi að annað gull væri í höfn. Raunar daginn áður en ég tók þátt. Það var nefnilega enginn skráður í B flokk kvenna í Íslandsmeistaramótinu nema ég. Ég var því nokkuð örugg um gullið, nema mér tækist ekki að ljúka keppni á skikkanlegum tíma. Það myndi þurfa meira til en sprungið dekk, ég er bara örfáar mínútur að skipta um slöngu.
Ég vissi líka eftir að hafa skoðað þátttakendalistann og séð að fólk var ræst í keppnishópum, að ég myndi ekki geta draftað hjá neinum. Oftast hef ég valið mér stæðilega karlmenn sem eru örlítið sterkari hjólarar en ég og náð að hanga aftan í þeim og nýta kjalsogið. Þá er snöggtum minni orkunotkun, og maður finnur raunar púlsinn fara niður í rólegheit. Ég var ræst í hópi 4 afrekskvenna, svo ég vissi vel að þær myndu stinga mig af í fyrstu brekkunni. Sem þær gerðu.
Að hjóla í keppni. Það er erfitt að lýsa hvað er svona sérstakt við það. Adrenalínið fer á milljón og maður fyllist einhverri einkennilegri "ég-skal" þörf. Í fyrstu keppninni sem ég tók þátt í, Reykjanesmótið 2010, þá stóð ég úti í móa að filma keppendur þegar þeir lögðu af stað. Svo átti ég eftir að hlaupa að hjólinu, ganga frá myndavélinni og koma mér af stað. Þá voru allir keppendur horfnir og ég fylltist þessari sérstöku þörf ég-skal-þó-ná-manninum-með-hundinn. Það er nefnilega svolítið krúttlegt við íslensku keppnirnar. Þó að þarna sé afburða íþróttafólk að taka þátt, þá eru keppendur af öllu tagi, allt frá spandex liði yfir í ja, fólk í sunnudagshjólatúr með hundana sína. Og svo miðaldra gigtveikar húsmæður eins og ég. Það fór svo að ég hjólaði fram úr hverjum þátttakendum á fætur öðrum og endaði á verðlaunapalli, 3ja af 7 konum. Þarna komst ég á bragðið, hvað keppnishjólreiðar geta fært manni mikið kikk.
Svo ég setti mér önnur markmið en venjulega þegar ég sá umgjörðina á þessu móti. Að æfa mig í að drekka á ferð, erfiðara en marga grunar, taka því með æðruleysi ef það spryngi hjá mér (sem gerðist ekki) og athuga hvað ég væri lengi að fara 34 km ein í nánast logni. Þetta var svipuð vegalengd og á Akranesinu, en ég var 7 mínútum lengur að hjóla Þingvellina. Það munaði því að ég gat draftað í mótvindinum uppi á Skaga hálfa leið og var með meðvind hinn helminginn. Ég skal viðurkenna að ég var líka farin að gleyma mér á köflum, ilmurinn af gróðrinum var yndislegur. Landslagið var fallegt. Ég var farin að glápa á léttklædda karlmenn í vegarkantinum, það var slatti að fólki við veiðar, á göngu eða hjólandi. Þetta allt tefur og glepur þegar maður er í hjólakeppni!
Ég hef aldrei hjólað sömu leið tvisvar sinnum sama daginn. Fyrr en þennan dag. Ég fór einu sinni út að labba með vinnufélaga í hádeginu í mörg ár. Við löbbuðum 20 mínútna hring í Breiðholtinu. Alltaf sama hringinn. Einn daginn datt okkur í hug að labba öfugan hring. Þá sáum við hluti sem við höfðum aldrei tekið eftir áður. Gosbrunna, runna og ný blóm. Allt annað Breiðholt. Þannig var það með Þingvellina. Það var skýjað fyrri hringinn, en svo brast hann á með sól og blíðu. Seinni hringurinn var allt öðru vísi og mikið fallegri. Allt annar Þingvöllur.
Í dag vildi ég óska að ég hefði hefði tekið örlítið betur á. Af því A flokkur karlmanna náði að hringa mig rétt fyrir endamarkið. Það hefði verið rosalegt kodak-moment fyrir mig ef ég hefði verið sjónarmun á undan þeim í mark, þó að ég væri að klára minn annan og seinni hring og þeir sinn þriðja af sex. Stundum verður maður að stela athygli þegar færi gefst... Ég var raunar að hugsa þetta á meðan ég var að hjóla. Að ég yrði pottþétt hringuð. Bjóst jafnvel við að það yrði af öllum keppendum, A og B flokki karla og A flokki kvenna. Svo ég er bara ánægð með að það var eingöngu fyrsti hópur A flokks sem náði að taka fram úr mér á minni leið.
Og hvar annars staðar en á Íslandi fær maður að prófa racer sigurvegarans? Karen Axelsdóttir varð Íslandsmeistari kvenna, við erum álíka háar og með svipað innanfótarmál. Ég hafði prófað racerinn hans Garðars, sem er stærð 58, fékk strax verki í háls og handlegg og hélt jafnvel að ég gæti ekki verið svona álút á hjóli. En racerinn hennar Karenar er 54 og hann smellpassaði, engir verkir og bara, vííí, gaman. Þá er bara að endurskoða fjárhagsáætlunina fyrir næsta ár.
Sjá nánar úrslit og myndir á www.hfr.is
Myndavélin var líka með í för, svolítið snubbótt myndatakan í verðlaunaafhendingunni, ég var komin á aðvörun með rafhlöðuna, var ekki viss um að ná öllum með.
https://youtu.be/23kSkXKTcjQ
Dægurmál | Breytt 2.4.2020 kl. 13:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.7.2011 | 21:34
Reykjavík á röngunni - Þriðjudagsferðir
Fjallahjólaklúbburinn hefur verið með ferðir á þriðjudagskvöldum í sumar og svo verður áfram út ágúst. Lagt er af stað frá Fjölskyldu og Húsdýragarðinum, aðalinngangi kl 19:30. Hraða er stillt í hóf og ekki er ákveðið fyrir fram hvert skuli farið, heldur ræðst för af formi, óskum og uppástungum þátttakenda. T.d. langaði eina að sjá Kópavogsdalinn, hafði aldrei komið þangað en séð fallegar myndir þaðan. Þá hjóluðum við þangað í gegn um Breiðholtið, niður eftir íðilfögrum Kópavogsdalnum og svo áfram út í Gróttu. Næsta þriðjudag verður kaffihúsaferð, þá hittumst við eftir sem áður kl 19:30, hjólum aðeins áður en við stingum okkur inn á kaffihús og fáum okkur kökusneið.
Einn þriðjudaginn mætti mætur hjólagarpur, Jakob Hálfdanarson og stakk upp á að við færum Reykjavík á röngunni. Og það gerðum við, þræddum hina ýmsu leynistíga og krókaleiðir. Þar á meðal þrengsta opinbera sund í Vesturbænum, en tveir fullorðnir einstaklingar geta ekki mæst í sundinu, það er of þröngt. Kunnum við Jakobi bestu þakkir fyrir öðru vísi og skemmtilega hjólaferð.
Á vef Fjallahjólaklúbbsins er að finna myndir úr ferðum og öðrum viðburðum. Hér er t.d. að finna fleiri myndir úr þessari skemmtilegu þriðjudagsferð:
https://photos.app.goo.gl/1AvaCgVKd5dKFeum8
Og svo var aðeins verið að vídeóast:
https://youtu.be/frrsmNTEbGM
Dægurmál | Breytt 2.4.2020 kl. 13:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.7.2011 | 19:48
Tour de Hvolsvöllur
Það voru ca 30 sem lögðu af stað frá Selfossi, nú veit ég ekki nákvæmlega hvar ég var í röðinni, en taldist til að ég væri fjórða, þar af önnur í kvennaflokki. Það var ekki tímataka á þessum legg, bara á þeim sem hjóluðu 110 km. Svo ég get bara montað mig af silfrinu sem ég fékk ekki hér.
Ég ákvað að troða mér framarlega til að geta draftað í stæðilegum karlmönnum, en slík iðja fer þannig fram að maður nýtir skjólið af þeim sem er á undan og erfiðar minna fyrir vikið. Maður heldur sig hlémegin og hefur framhjólið ca við afturnaf þess sem er fyrir framan. Ekki ósvipað og farfuglarnir sem maður sér í oddaflugi. Það fór raunar svo að ég hengdi mig í rauðhærða HFR skvísu og náði að drafta hjá henni í eina 15 kílómetra, aftan í mér hékk karlmaður og nýtti skjólið af mér. Þau stungu mig hins vegar af í langri aflíðandi brekku. Þó að hún hefði brotið vindinn fyrir mig allan tímann og ekki haft neitt skjól sjálf. Þar kemur þyngdin sér illa fyrir mig, ég er enn með 10 óþarfa kíló sem ég þyrfti að létta mig um til að ég þurfi ekki að setja í sleðagírinn í brekkunum.
Svo ég hjólaði ein restina í þó nokkrum mótvindi, og enginn tók fram úr mér úr Selfoss hópnum. Það gerðu hins vegar fremstu menn sem hjóluðu 110 km, mér fannst ég vera á hvílíkt góðri siglingu, ca 35 km hraða þegar einhver tók fram úr mér eins og elding og ég hugsaði "voðalega var þessi á hljóðlátu mótorhjóli". Það tók mig 2-3 sekúndur að fatta að þetta var Hafsteinn Ægir á reiðhjóli.
Tíminn hjá mér var 1:43 eða þar um bil, er ekki með skeiðklukku á hraðamælinum. Þá átti ég eftir að hjóla 15 km til baka að Hellu til að sækja bílinn. Og þá skildi ég af hverju við byrjuðum þetta snemma að hjóla. Umferðarþunginn jókst hvílíkt eftir hádegi og langar raðir í báðar áttir mynduðust. Þess fyrir utan var einhver útihátíð á Hellu og mikil mannmergð þar, ég var næstum búin að hjóla niður stúlku sem var augsýnilega með þynnku dauðans og ekkert að líta í kring um sig þó að hún væri að labba yfir þjóðveg 1.
Annað atvik átti sér stað í Tour De Hvolsvöllur. Ég varð fyrir kynferðislegri áreitni. Mér var klappað á rassinn. Af ungum pilti sem var í bíl að taka fram úr mér. Fullur bíll af strákum, mjög líklega 18-19 ára. Ég var þá á ca 30 km hraða sjálf og "áreksturinn" ansi óþægilegur. Fagnaðarlætin í bílnum voru hins vegar hvílík að ég gat ekki annað en flissað, en eftir á fattaði ég hvað svona lagað er hættulegur leikur. Ég hefði getað misst stjórn á hjólinu og rekist utan í bílinn eða hafnað utan vegar. Drengurinn hefði getað handleggsbrotnað, bíllinn var jú á töluverðri ferð, handleggurinn á honum kyrr og grjótharður hjóla-rassinn á mér eftir 65 km sprett góð fyrirstaða. Og það sem drengurinn á eftir að fá móral ef hann einhvern tíma fréttir að hann var að káfa á rassinum á 46 ára gamalli kerlingu....
Meðalhraðinn var 27.96 (kmfjöldi / 60 * mínútufjöldi, held að ég sé með formúluna rétta). Það þyrfti að vera tímataka á svona langri leið. Til að maður geti borið sig saman við aðra, séð hvort maður sé að bæta sig (og miðað þar við aðra sem hafa verið nálægt manni í svipaðri keppni). Það hlýtur að vera bætt úr því fyrir næstu Tour De Hvols... Annars neyðist ég til að flytja mig yfir í 110 km... Hei, ég hjólaði nú 65 hvort eð er, 45 í viðbót, hva, minnsta málið.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
2.7.2011 | 18:42
Einar Bárðarson
Ég er búin að vita af Heiðmerkuráskoruninni í ein 2-3 ár, en hef miklað þetta eitthvað fyrir mér. Laus möl, bratt upp, bratt niður, þröngir stígar, sá mig í anda með mína lélegu rýmisvitund og skerta jafnvægi klessa á tré, nú eða á einhvern keppanda og smyrja honum yfir stíginn. Ég er engin afburða hjólakona, en hef komið þó nokkuð mörgum á óvart, mér sjálfri einna mest, með að taka þátt í keppnum og komast á stundum á verðlaunapall.
Svo var ég að fletta myndunum frá Heiðmerkuráskoruninni og sá að þetta voru ekki allt brynvarðir Downhill gæjar, bara allra handa fólk. Þar á meðal Einar Bárðarson, nýbyrjaðan að hjóla eftir langt sófalegutímabil. Hjólakonan í mér tók smá dýfu og fékk smá áfall. Ég hefði nú betur hissað upp um mig hjólabrækurnar og mætt í keppni! Þó að ég væri hálfhrædd við þetta og ætti ekki almennilegar græjur í brautina.
Sko, ég er kvenkyns. Við hugsum öðru vísi. Fjallahjólið var keypt af því það var rautt, hvítt og svart og tónar alveg gasalega vel við djammdressið. Það er bara 21 gíra og ég kemst ekki mikið hraðar en 20km á klukkustund. Plús að það er í hálfgerðu lamasessi eftir veturinn, bremsurnar búnar og annar gírinn pikkfastur, gat valið um 2 tannhjól á hinum gírnum. Svo ég ákvað að sleppa Heiðmerkuráskoruninni og skipuleggja næsta keppnissumar þegar ég á betri græjur.
Á meðan ég var að þvælast um HFR vefinn sá ég auglýst Akrafjallsmót í Hjólreiðum á Írskum dögum Akraness. 33 km hringur í kring um Akrafjallið. Ég ákvað að nú yrði djammað minna, hjólað meira og mætt í keppni upp á Akranes. Eins gott, Einar Bárðarson mætti aftur! Ég verð ekki tekin tvisvar í röð í bólinu þegar ég hefði getað verið úti að keppa. Ó, nei, mín mætti, hjólaði og sigraði! Búin að endurheimta viðurnefnið Hjóla-Hrönn.
Jebb, varð í fyrsta sæti í kvennaflokki, þessi líka fíni bikar sem ég hlakka þvílíkt til að sýna strákunum mínum, þeir verða óendanlega stoltir af mömmu gömlu.
Menn ættu ekki að vanmeta Einar Bárðarson. Hann gæti hæglega orðið einn af fremstu hjólreiðaköppum í sínum aldursflokki eftir 1-2 ár. Ef hann heldur svona áfram. Ja, ekki hefði mér dottið í hug að ég ætti eftir að vinna gull í hjólreiðakeppni fyrir 3ur árum, þá 30 kílóum þyngri en ég er í dag:
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.6.2011 | 13:08
Hengiflug
Ég var að hjóla upp heljarinnar brekku, búin að puða og baksa við brekkuna, þá loksins gat ég tekið á þegar ég var alveg að komast á toppinn, var komin á góða ferð, fór fyrir klett, en beygjan var of kröpp til að ég næði henni. Rann fram af hengiflugi en náði að grípa í brúnina með annarri hendi, hélt með hinu í hjólið, hyldýpið fyrir neðan mig og ég föst í klítunum. Algjörlega að bilast úr hræðslu.
Ferðafélagarnir stoppuðu, skoðuðu aðstæður, sögðu að eina leiðin væri að láta mig detta. Ég kæmist ekki upp aftur. Ég leit niður og langt langt fyrir neðan var sjórinn spegilsléttur og fallega grænn. "Þetta er ekkert mál, þú getur þetta, þú þarft bara að sleppa" og svo bauðst einn til að stökkva með mér. Og gerði það. Og í því sem fingurnir misstu takið einn af öðrum og ég byrjaði að falla, þá var ég orðin alveg róleg og flugið var bara notalegt. Á meðan ég féll náði ég að losa mig við hjólið og kasta því til hliðar. Ylhlýr sjórinn tók mjúklega við mér og ég komst fljótlega upp á yfirborðið. Þá brosti hann rennblautur og hress "Sko, þetta var ekkert mál"
Eru þeir ekki æðislegir félagarnir í Fjallahjólaklúbbnum, koma meira að segja til manns í svefni og breyta martröð í fallegan draum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.6.2011 | 00:11
Snæfellsnes
Helgi hinna miklu sprenginga. Það byrjaði með því að ég staflaði dótinu mínu út úr bílnum á tjaldstæðinu á Arnarstapa, ætlaði að fá mér mjúkt sæti, sængin mín og koddarnir þrír voru allir með í för ofan í svörtum ruslapoka. Pokinn sprakk með ægilegum gný og vakti þá sem höfðu farið snemma í háttinn.
Því næst brotnaði handfangið á pumpunni sem ég ætlaði að nota til að blása upp vindsængina. Þriðja sprengingin átti sér svo stað þegar ég ætlaði að fara að sofa á dýnuskömminni, heyrði ég *púff* ýlfur og svo loftið að renna úr dýnunni. Fann gatið og notaði reiðhjólabæturnar til að stöðva lekann. Ja, eða minnka hann, réttara sagt, dýnan var orðin æði loftlaus og ég sokkin niður í hana næsta morgun. Samt ekkert vont, bara eins og að vakna upp í notalegum karlmannsfaðmi.
Mér þótti auglýsing Fjallahjólaklúbbsins orðuð nokkuð harðjaxlalega, bjóst jafnvel við að ég yrði eini kvenkyns þátttakandinn og allir hinir fílefldir karlmenn sem myndu spæna upp á jökul langt á undan mér. Ég var eiginlega búin að ákveða fyrirfram að þiggja far með Björgvini upp á jökulhálsinn. Frétti svo daginn fyrir brottför að trússarinn hefði boðað forföll og það væru bara böns af kellingum sem ætluðu með. Svo ég taldi að ég gæti þetta alveg, þó að ég hafi nú ætlað að forðast fjallgöngur til að hlífa hnjánum, en ég er með slitgigt. Gott að hjóla, vont að ganga.
Vegurinn upp að Snæfellsjökli var kyrfilega merktur ófær, en við létum það ekkert aftra för okkar, stigum á sveif og tókum á.
Komum við í Sönghellinum og tókum lagið, aldrei að vita nema sönghópur Fjallahjólaklúbbsins hafi verið stofnaður á þessari stundu, ég á eftir að hlusta á upptökuna og vega og meta hvort hún er birtingarhæf.
Við vorum búin að frétta á leiðinni frá Reykjavík að vegurinn færi undir snjó við jökulinn, ég hugsaði með mér, hva, 10-15 mínútna ganga í snjó breytir engu. Jafnvel hægt að hjóla á snjónum. Það fór svo að við klofuðum snjóinn í 4 klukkutíma, þungan og blautan sem klesstist inn í gjarðirnar, þyngdi hjólin og bleytti og kældi á okkur lappirnar. Þokan læddist svo að okkur og sá um kælingu á efri hlutanum. Bara gott að hafa þetta í jafnvægi.
Hin fjögur fræknu voru heldur blaut og hrakin þegar þau komu loksins niður af jöklinum og gátu látið vindinn feykja sér yfir Fróðárheiði. Þar rifnaði ventillinn úr slöngunni með háum hvelli og þótti mér nú nóg komið af sprengingum og loftleysi á innan við einum sólarhring. Aukaslangan brúkuð og hjólað eins og eldibrandur inn á Arnarstapa, svo við næðum í Fiskisúpuna á Fjöruhúsinu fyrir lokun. Ah, hvað súpan og bjórinn bragðaðist vel eftir 9 tíma puð.
Ég fór þennan hring í fyrra á 6 tímum, með viðkomu á Ólafsvík og langri sólbaðspásu á Fróðárheiðinni. En þá var enginn snjór á veginum, hann tvöfaldaði erfiðleikastig leiðarinnar. Eða eins og Guðbjörg sagði "Lengstu 55 km sem ég hef hjólað"
Önnur dagleiðin var 30 km, góður hluti hennar í mótvindi 15 m/sek. En vissulega líka meðvindur á köflum. Hjóluðum við fyrst meðfram Gerðubergi upp að Rauðamelsölkeldu, þar sem Örlygur gerðist ungæðislegur og plankaði yfir kelduna. Þeir sem skilja ekki fyrirbærið er bent á að gúggla "planka" eða "planking" á engilsaxneskunni.
Svo var hjólað niður fyrir veg og reynt að finna leið að Eldborginni, komum að sveitabæ þar sem kona nokkur stóð úti á hlaði með sprautu í hendinni með hlussustóra nál, þorðum við ekki öðru en taka orð hennar trúanleg að það væri ekki hjólafært að Eldborg, bara göngufært og ég var orðin of slæm til að treysta mér í meiri göngur að sinni. Eldborgin fer ekkert, alltaf hægt að nálgast hana síðar.
Við slógum upp tjaldbúðum við hótel Eldborg, brugðum okkur í sund og fengum okkur svo aftur gott að borða, þarna var verið að elda margrétta kvöldverð fyrir fjölda fólks og þeim munaði ekkert um að bæta okkur við. Þarna bragðaði ég hrefnukjöt í fyrsta sinn, ljómandi gott alveg. Og bjórinn alltaf jafn góður.
Fórum snemma í háttinn, lúin eftir vindasaman dag. Merkilegt að Örlygur og Unnur töldu sig bæði hafa fundið fyrir jarðskjálfta rétt eftir miðnætti, en ég held að við höfum bara tjaldað of þétt, þau hafi velt sér í sitt hvoru tjaldinu á sama tíma og rekist á í gegn um tjalddúkinn. Ég varð alla vega ekki vör við neitt og ekkert var í fréttunum um skjálftavirkni á Snæfellsnesi.
Þriðja dagleiðin var einstaklega falleg í góðu veðri, hjóluðum fyrst gömlu Vatnaleiðina, tókum svo hring í Berserkjahrauni og fórum svo nýju vatnaleiðina til baka, margar góðar myndir náðust þennan dag og innsigluðu þessa frábæru ferð nokkurra félaga úr Fjallahjólaklúbbnum.
Fleiri myndir úr ferðinni má finna hér.
Dægurmál | Breytt 2.4.2020 kl. 13:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.6.2011 | 00:00
Bláa Lóns
Í fyrra var ég næstum hætt við þátttöku vegna slæms ástands í hnjánum. Var nýkomin úr viku gönguferð og flugi og mikið vatn í hnjánum og annað læstist reglulega með miklum sársauka. Fór þetta samt á hörkunni og varð í 10 sæti af 48 konum sem hófu keppni í 60km flokki. Varð 3ja í mínum aldursflokki.
Fyrir tveimur vikum fór ég í ferð með Fjallahjólaklúbbnum þar sem þurfti að labba og teyma (réttara sagt draga og toga) hjólið upp um 500 metra. Og drösla því svo niður álíka langt, of bratt til að hjóla niður. Svona fjallgöngur leggja mig venjulega í rúmið eða á hækjur í einhverja daga, ég var orðin hölt þegar við komum upp á fjall og venjulega verð ég ennþá verri næsta dag, en þar eð við hjóluðum ca 30 km eftir puðið og ég skellti mér beint í sund, þá varð ég ekki eins slæm og ég átti von á. Hreyfingin hjálpar til við að fjarlægja vökva úr hnjánum. Svo ég hélt áfram að æfa upp þrek fyrir Bláa lónið.
Þar til ég vaknaði upp fyrir viku síðan með slæman verk í öðrum upphandleggnum og gat ekkert hreyft hann. Ég hef áður brotið bein og þessi verkur var álíka vondur. En það er nú hæpið að maður handleggsbrotni við að snúa sér í rúminu, svo ég fór fram úr og gúgglaði "verkur í upphandlegg". Hjartaáfall! Nei, enginn verkur í brjóstinu. Næsta grein fjallaði um blóðtappa og einkennin pössuðu við það svo ég dreif mig upp á bráðamóttöku. Ég reyndist vera með bráða staðbundna taugabólgu sem olli kraftleysi og lömun í handleggnum. Send heim með verkjatöflur og fyrirmæli að koma aftur næsta dag ef máttleysið væri ekki farið að dvína.
Svo ég fór heim pínu niðurbrotin, lá fyrir, slafraði í mig uppáskrifuðu læknadópi og ákvað að afskrifa Bláa Lóns keppnina að þessu sinni. Til að taka þátt í svona keppni, þá þarf maður að vera hraustur og hafa góða stjórn á reiðhjólinu. Til að leggja hvorki sjálfan sig né aðra í hættu. Þetta var á laugardegi, viku fyrir keppni. Á þriðjudag var lömunin gengin nægilega langt til baka til að ég gæti farið út að hjóla. Stuttan hring á hægri ferð. En eftir það gekk batinn mun hraðar og á föstudag gat ég hjólað á fullri ferð í hálftíma og handleggurinn orðinn jafn góður og áður. Bláa Lóns aftur á dagskrá.
Það þarf líka að byggja sig upp andlega fyrir svona keppni. Ég þríf venjulega á laugardögum og þar eð ég lamaðist eftir 7 daga uppsöfnun á ryki og drasli, þá þurfti ég að hemja húsmóðurgenið og leyfa draslinu að halda áfram að hlaðast upp. Anda inn, anda út. Yoga og andleg íhugun. Stóísk ró. Meira að segja strákarnir mínir, 8 og 12 ára voru farnir að hafa á orði að það væri orðið ansi mikil kexmylsna á gólfinu. Ég lét það sem vind um eyru þjóta, úr því þeim datt ekki sjálfum í hug að prófa sópinn eða ryksuguna, þá gátu þeir bara vaðið skítinn áfram. Bláa Lóns hafði forgang og öll mín orka fór í æfingar og hvíld fyrir hné og handlegg.
Kvöldið fyrir keppni ætlaði ég að fara lauslega yfir hjólið, kíkja eftir glerbrotum og athuga hvort hjólin væru ekki örugglega föst, bremsur í lagi og keðjan smurð. Það fór náttúrulega svo að ég var langt fram yfir miðnætti að skipta um dekk og athuga slöngur (fann glerbrot og langa rifu á dekkinu) Svo ég setti grófara dekk undir að aftan, vissi að ég myndi þá ekki renna eins vel á malbikinu, en ætti að vera ögn skárri á malarköflunum.
Eftir svona keppni þar sem maður úthellir svita, tárum og sumir blóði, þá verður maður ánægður að ná að klára án áfalla. Enn ánægðari ef maður bætir tímann frá því í fyrra. Enn ánægðari ef maður lendir á verðlaunapalli. Takk Corinna fyrir að bjóða mér í lið og koma mér á verðlaunapall. Takk Fjölnir fyrir að festa pumpuna fyrir mig. Og takk gaur í gulum jakka fyrir að hægja á og leyfa mér að drafta hjá þér í rokinu við Grindavík. Já, ég skal bjóða þér upp á bjór einhvern tímann ;) Það munar töluverðu að geta hjólað í skjóli af einhverjum þegar á móti blæs. Og takk HFR fyrir frábæra keppni, skipulag og framkvæmd til fyrirmyndar, við sjáumst aftur að ári. Og að sjálfsögðu fær Bláa Lónið líka þakkir fyrir sinn stuðning. Nánari umfjöllun og myndir er að finna á vef HFR.is, hér getur að líta Femme Fatale, kvennaliðið sem lenti í öðru sæti.
Ég varð 7unda af ca 50 konum og bætti tímann frá því í fyrra um 11 mínútur. Mjög sátt með það. Raunar færð og veður með besta móti, en ég fann vel að ég var í góðu formi. Var ekkert eftir mig og ekki einu sinni harðsperrur daginn eftir.
Við eigum geysi öflugt hjólafólk, Hafsteinn Ægir sigraði karlaflokkinn, 7 árið í röð og María Ögn sigraði kvennaflokkinn. En það eru fleiri sigurvegarar þó að þeir komist ekki á verðlaunapall.
Kolbrún tók þátt í fyrsta sinn, hjólið bilaði á miðri leið, hún skrúfaði sundur tannhjólin til að losa keðjuna, ekki kann hún neitt að gera við reiðhjól, skrúfurnar duttu út um allt, og eitthvað lítur hjólið einkennilega út, tannhjólin að aftan ekki á réttum stað. En henni tókst að gera það hjólafært, halda áfram og ljúka keppni. Einurð og eljusemi skapar sigurvegara. Til hamingju Kolla með fyrstu Bláa Lóns!
Hvað ætla ég að gera öðru vísi að ári? Muna eftir $#%&% sólarvörninni!
Dægurmál | Breytt 20.6.2011 kl. 13:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.5.2011 | 23:09
Svínaskarð
Jæja, þar fór Bláa Lóns þrautin hugsaði ég með mér á meðan ég paufaðist upp hlíðina og rak tærnar ítrekað í hnullunga í götunni. Það getur verið gott að lesa leiðarlýsingu áður en maður leggur í'ann. Eða kannski ekki, þá hefði maður bara setið heima og lakkað á sér táneglurnar. Og misst af skemmtilegri ferð Fjallahjólaklúbbsins. Það voru 10 mættir, eitthvað höfðum við misskilið leiðbeiningarnar, fararstjórinn beið við vegamótin, allir hinir keyrðu inn að bóndabæ með sama nafni og afleggjarinn og biðum þar dágóða stund símasambandslaus. Lögðum svo bara af stað, enda alltaf einhver sem ratar og það voru nokkrir með Garmin á stýrinu. Við vorum átta karlmenn og tvær konur. Einhver taldi raunar þrjár konur, en það hefur verið einhver álfamær sem hefur langað að slást í hópinn.
Það verður einhver að vera síðastur og ég tók að mér það hlutverk í dag. Mér fannst ég í ægilega fínu formi á Nesjavöllum, en ég hjólaði upp allar brekkur þar, þurfti ekkert að teyma hjólið. Ég gat eiginlega ekkert hjólað fyrstu 10 kílómetrana. Fyrst var það upp snarbratta grýtta brekku, og svo niður snarbratta grýtta brekku. Nokkrir jaxlar hjóluðu þetta þó allt saman, sátu svo í makindum og sóluðu sig á meðan ég paufaðist upp í mót um urð og grjót. Bölvandi þessum 10 kílóum sem ég ætlaði að vera búin að losa mig við í vetur. Og því að vera ekki í betri skóm, ég ákvað að fara á fjallahjólinu, en það er ekki með klítum, það er horror að vera í klítaskóm á venjulegum petölum, svo ég varð að skorða mig af á miðjum petalanum og lappirnar runnu stanslaust til. Mundi náttúrulega eftir því í miðri brekku að ég var með Meindl gönguskóna mína í skottinu á bílnum, hefði skipt yfir í þá ef ég hefði fattað það niðri á plani.
Ég hef stundum lent í því að vanur ferðafélagi hjólar upp að mér "Hrönn, þú ert á felgunni" Og þá verið að meina að ég sé með of lint í dekkjunum, ekki að ég sé drukkin á hjólinu. En núna var annar vanur hjólafélagi sem sagði "Hrönn, þú ert með allt of hart í dekkjunum" Ákveða sig strákar! Nei, nei, það skiptir máli hvar maður er að hjóla, á grófum malarslóðum er betra að vera með lítinn þrýsting til að dekkin grípi betur og það sé auðveldara að stýra hjólinu. Á malbikinu er betra að vera með góðan þrýsting í dekkjunum, þá rennur maður betur. Ég sem kom við á bensínstöð og vél-pumpaði í dekkin svo ég yrði ekki hönkuð á felgu-dæminu.
Fleiri mistök. Allir hinir voru með bakpoka eða mittistöskur. Það er mikið auðveldara að vera með farangurinn á bakinu eða í mittistösku í svona ferð. Sérstaklega ef það þarf að teyma mikið. Ég á tvær mittistöskur sem héngu heima í skáp á meðan ég hristi Ortliebinn minn í sundur í Svínaskarðinu. Sem betur fer datt skrúfan ekki úr fyrr en ég stoppaði til að athuga af hverju taskan rakst í hælinn á mér. Ég hef átt í brasi með hnakkinn undanfarið, hann hefur viljað losna, svo ég ákvað að taka með bita sem passaði í hnakkskrúfuna. Og úr því ég var með bitasettið í höndunum, þá endaði það ofan í hjólatöskunni. Annars hefði ég verið í smá vandræðum með laskaða hjólatösku.
Þá spunnust upp sögur, þar sem nokkrir félagar voru á ferðalagi og allir voru búinir að hrista í sundur bögglaberana, hjólin og töskurnar, allir voru með meira og minna víruð og teipuð hjól og farangur. Það er komið á innkaupalistann. Blómavír, rafmagnsvír og nauðgunarteip. Ehh, *hóst*, ekki að maður ætli að fara að gera eitthvað af sér í hjólaferðunum, bara þetta gengur undir þessu nafni, gráa sterka teipið...
Svo var hjólað þægilega sveitavegi með Kára í bakið og svo smá spotta eftir Þingvallavegi. Þetta tók ríflega 5 tíma með tveimur snöggum nestispásum. Hér má lesa nánar á vef fjallahjólaklúbbsins um Svínaskarðið:
http://fjallahjolaklubburinn.is/content/view/524/144/
Tókstu eftir Bangsimon? Bara að tékka á athyglisgáfunni.
Dægurmál | Breytt 2.6.2011 kl. 00:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Eldri færslur
- Október 2017
- Ágúst 2017
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Desember 2013
- Október 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Maí 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Febrúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Janúar 2009
- Nóvember 2008
- Maí 2008
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar