Kjölur - Hveravellir - Reykjavík

2010-09b032 

Á þriðjudaginn í hjólaferð með Fjallahjólaklúbbnum sagði Unnur mér frá því að hún væri að fara að hjóla Kjöl um helgina.  Spurði hvort ég vildi ekki koma með.  Ég er alltaf til í að hjóla eitthvað, að eyða helgum í að bæla sófa og góna á sjónvarp er ekki minn tebolli.  Svo við lögðumst í smá skipulagsvinnu og ákváðum að taka rútuna upp á Hveravelli og hjóla í bæinn á tveimur dögum.  Þriðja skvísan varð svolítið spennt og við ákváðum að gera hópferð úr þessu og athuga hvort fleiri vildu koma með, auglýstum á vef Fjallahjólaklúbbsins.  Björg er nýgengin í Fjallahjólaklúbbinn og fékk póst um þessa harðjaxlaferð, en auglýsingin var orðuð nægilega groddalega til að það kæmu ekki með einhverjir sunnudagshjólarar sem myndu gefast upp eftir 10 km.  Vegalengdin er nefnilega u.þ.b. 200 km og þá þurfa menn að vera í formi og geta hangið á reiðhjóli í nokkra klukkutíma á dag.  Þá vorum við orðnar fjórar, en ein hætti við á síðustu stundu, svo við vorum aftur þrjár.  Allar fæddar 1964.  Þessi líka fína árgerð.

2010-09 007

Björgvin í Fjallahjólaklúbbnum bauðst til að taka að sér túrinn, það er óneitanlega þægilegra að sitja í góðum jeppa en hossast með rútu í nokkra klukkutíma.  Þegar við komum upp á Hveravelli var hífandi rok.  Svo sem ekkert nýtt að það sé rok á Íslandi.  En hitinn var í kring um 16-18 stig, ágætt skyggni og við lögðum víggreifar af stað.  Sýnist þó sem Björgvini hafi ekki litist á blikuna að senda okkur einar út í óvissuna, en Hrólfur, sonur hans hefur róað kallinn með því að hann væri með mynd af okkur fyrir björgunarsveitirnar.

2010-09 003

Eftir einn og hálfan tíma vorum við bara búnar að leggja að baki 6 km.  Það var svo stífur hliðarvindur að Unni var bókstaflega feykt út í móa, það tók svo í dýnuna sem hún var með á bögglaberanum.  Slasaðist ekki mikið, eitthvað þó aum í lærinu og það setti strik í reikninginn.

2010-09 010 

Þá ákváðum við að skilja dýnuna eftir, við hlóðum hana steinum svo hún myndi ekki fjúka og vonuðum að einhver myndi taka hana upp í bíl.  Ef einhver les þetta og veit um afdrif dýnunnar er hann beðinn að hafa samband við Unni (unnur@unnur.is).  Eftir þetta tókst Unni loks að hemja ólman fákinn og við stefndum hægt en örugglega áfram í áttina að Gullfossi.  Eða þar til farangursteygja losnaði og flæktist í gírskiptinum.  Smá bras að losa það, og þegar við vorum rétt lagðar af stað aftur, þá sprakk hjá mér.

2010-09 021

Þegar ég var búin að sitja sveitt, skipta um slöngu og handpumpa í dekkið, kom Björgvin keyrandi með rafmagnsloftdælu meðferðis sem ég hefði gjarnan viljað nýta mér.  Haldiði að það hafi ekki brotnað hjá honum stýrisendi (eða eitthvað annað, ég veit ekkert hvað snýr fram eða aftur á bílum) og hann þurfti að leggjast í viðgerðir með jeppann, rétt eins og við stelpurnar með hjólin.

2010-09 023

Planið hjá okkur var að ná niður á Gullfoss fyrsta daginn, 90 km leið.  Við gáfum okkur 8 tíma í það með pásum, og þar eð fyrstu tveir tímarnir fóru í eintóma vitleysu var nokkuð ljóst að það myndi ekki nást fyrir myrkur.  Við höfðum keyrt fram hjá litlum skála á leiðinni og ákváðum að reyna að ná þangað og gista þar, ekki fýsilegt að gista í tjöldum í brjáluðu roki.  Þ.e. ef skálinn væri sæmilegur og ekki mikil fýla í honum.  Já, já, ég veit, pjattið alltaf að drepa mann.  Hófst nú mikill barningur við Kára sem vildi ólmur blása okkur aftur upp á Hveravelli, en við fundum loks skálann við Hvítá, en hann reyndist vera læstur.  Leituðum við í myrkrinu og fundum ágætis grastó hinu megin við veginn sem rúmaði bæði tjöldin.

2010-09b005

Björg var með sannkallað partýtjald með fortjaldi, við tróðum okkur þrjár inn í það og komum okkur vel fyrir.  Grófu konur nú ofan í pinkla sína, kenndi þar ýmissa grasa, bjór, rauðvín, viský og vodki.  Buggles snakk kórónaði svo kvöldvökuna.  Það voru sagðar draugasögur, ferðasögur, grobbsögur, raunasögur, farið á trúnó, hlegið og hlegið og bara verulega næs og skemmtilegur endir á deginum, sem fór ekki alveg eins og áætlaður var.  En þannig eru harðjaxlaferðir, það þarf að gera ráð fyrir því að ferðaplön fari út í veður og vind.

bakkasystur

Við sáum ekki fram á að ná til Reykjavíkur á sunnudeginum, við bjuggumst fastlega við því að þurfa að láta sækja okkur á Laugarvatn eða Þingvelli.  En veðurguðirnir voru með okkur seinni daginn, að vísu fengum við aftur vindinn skáhalt á móti framan af, en svo fengum við þennan líka fína meðvind og bókstaflega fukum frá Gullfossi að Laugarvatni.  Eða kannski var það kjötsúpan á Gullfossi sem gaf okkur svona góðan kraft.

2010-09b039

Ís og kaffistopp á Laugarvatni og í ákafa okkar að takast á við Lyngdalsheiði gleymdum við hjálminum og myndavélinni á veitingastaðnum Bláskógum.  Eigandinn stökk upp í jeppann sinn, elti uppi ótemjurnar og afhenti okkur góssið.  Kunnum við honum bestu þakkir fyrir það og veitingarnar,  kaffið var í boði hússins í minningu vinar þeirra sem fórst í bifhjólaslysi.

Þegar við komum á Þjónustumiðstöðina á Þingvöllum varð mér litið á hraðamælinn og sá að við vorum búnar að brjóta 100 km múrinn þann daginn.  Gátum varla beðið með að færa Unni tíðindin, en hún og annar hjólamaður komu að á sama tíma, Bjarni sagðist nú sem minnst vilja tjá sig um sinn hjólatúr þegar hann heyrði okkur garga "101 kílómetri" á Unni.  Klukkan 18:30 og nokkuð ljóst að við næðum heim á eigin vöðvaafli.  Bara 50 km eftir inn í Reykjavík, svo þetta er lengdarmetið hjá mér, 161 km á einum degi.  Sem sjá má vorum við orðnar örlítið framlágar í lokin. 

bakkasystur

Smá tölfræði í lokin yfir þessa tvo daga.

Hjólaðir km : 222 (61 fyrri daginn, 161 seinni)
Tími á hnakknum : 13 klst og 17 mín
Meðalhraði: 16.7 km / klst

Þó að við höfum farið svona stutt fyrri daginn var hann miklu erfiðari en sá síðari.  Kom mér á óvart hvað það er erfitt að hjóla lengi í hliðarvindi.  Raunar var hann svona ská á móti á köflum.  Þessi mynd er tekin á Þingvöllum, til minningar um 101 km múrinn.  Ég er bara sæmilega stolt af okkur fyrir að hafa klárað dæmið, það leit ekki út fyrir það á laugardeginum.  Ætli við verðum ekki þekktar sem 1964-naglarnir hér eftir! 

2010-09b056

Fleirir myndir úr ferðalaginu er að finna hér:

Myndir úr ferðinni

 


Skvísast um bæinn

Eitt dimmt vetrarkvöld var ég að klæða mig í gult endurskinsvesti í húsnæði Fjallahjólaklúbbsins og Sesselja hafði á orði að þessi gulu vesti væru hræðilega óklæðileg, við litum út eins og Pólskir verkamenn í þess háttar múnderingu.  Ég er alveg sammála því, það er langtum skemmtilegra að horfa á karlmenn grafa skurði eða dytta að einhverju nakta niður að mitti en þegar þeir eru klæddir í þessi gulu öryggisvesti.

Ég hjóla oftast í gulu öryggisvesti þegar ég er úti á þjóðvegunum, en finnst þau vera full heit á sumrin.  Svo mér datt í hug að prófa að sauma eitthvað ögn svalara upp úr gömlu öryggisvesti.  Þetta varð útkoman.

IMG_7992

Ég stefni á að hjóla um Austurland á næsta ári.  Þá mun þetta nýja öryggisvesti koma að góðum notum í veðurblíðunni.  Ég vona að ég sé ekki að kalla óveðursský og kuldakast yfir Austfirðinga, en þar var ég síðast fyrir 12 árum, þá labbaði ég Lónsöræfin með gönguklúbbnum mínum.  Við höfðum labbað Fjörður á Norðurlandi árið áður í rigningu, súld og þoku, og ákváðum að fara næst til Austfjarða sem er jú annálað fyrir veðurblíðu.

Þessi gönguferð er eins sú magnaðasta og erfiðasta sem ég hef farið í, þetta var í júlí, það var tveggja stiga frost, það snjóaði á okkur, ég var komin 5 mánuði á leið og fyrsta dagleiðin var 13 tímar.  Við vorum með GPS tæki meðferðis og það kom svo sannarlega að góðum notum, annars hefðum við ekki fundið skálann í muggunni, við gengum nánast fram hjá honum, skyggnið var bara 2-3 metrar og bara heppni að ein í hópnum bókstaflega gekk á skálavegginn.  Þriðja daginn brast hann svo á með sól og brakandi blíðu.  Austfirðirnir sviku ekki eftir allt saman, við gátum spókað okkur á bikini og náttúrufegurðin í Lónsöræfum er sko engu lík.

Hér eru myndir sem Geir, bróðir minn tók á Menningarnótt:

https://photos.app.goo.gl/B7xtgijmq1EykPFM7

Ég gerði smá myndband um viðburðinn, ég var með vél aftan á bögglaberanum, en því miður virðist eitthvað hafa klikkað þar í myndatökunni, tómt minniskort eftir hjólatúrinn.  Ég var sem betur fer líka með litlu imba-vélina.  Hún er orðin örlítið lúin, enda búin að detta ansi oft í götuna, ýmist ein eða kútveltast með myndatökumanninum.


Berrössuð um bæinn

Á síðasta ári fjölmennti hjólreiðafólk og hjólaði saman á götum borgarinnar til að vekja athygli á aðstöðuleysi þeirra sem velja reiðhjól sem samgöngutæki.  Þetta var viðburðurinn Berbakt um Bæinn, fólk fækkaði fötum og skrifaði slagorð á bakið.  Sumir voru kappklæddir, aðrir naktir niður að mitti, sumir berleggjaðir og aðrir með bara bakið bert.  Ég var lasin í fyrra, ennþá að jafna mig eftir svínaflensu og ákvað að vera kappklædd, en náði samt að tækla hugtakið nokkuð vel.  Þ.e. ég var með bakið bert og áritað.

bert-bak

Í ár verður aftur hjólað um götur borgarinnar á Menningarnótt.  Lagt af stað frá Klambratúni (áður Miklatún) kl 15:00.  Að þessu sinni ætla ég að gera eitthvað öðru vísi, mun pottþétt verða fáklæddari ef ég verð ekki kvefuð eða með flensu, en er samt ekki alveg viss hvernig ég ætla að hafa þetta.  Best er að reyna að finna eitthvað í klæðaskápnum, þar á ég t.d. forláta hjólabuxur sem ég keypti á netinu, sem eru afskaplega skrítnar í sniðinu.  Þær eru háar upp í mittið að aftan, en ná varla upp fyrir hárlínu að framan.    Einhvers konar Racer-dæmi svo konur líti vel út í áltútri stöðu á reiðhjóli.  Það bara gleymdist að gera ráð fyrir því að konur þurfi að stíga af baki eftir hjólatúrinn án þess að vera með búrku meðferðis til að skýla sér.  Ég fer ekki út úr svefnhverberginu í þessum hjólabuxum, þær flokkast undir dónó stuff & dót á þessum bæ.  Ef ég fer í þær öfugar, þ.e. læt botnstykkið styðja við konumagann og hef framhliðina aftur, þá breytist viðburðurinn í "Berrössuð um bæinn".  Spurning hvort ég næði að hjóla viðburðinn á enda áður en löggan mætir og handtekur strípalinginn...

Hvet fólk til að fjölmenna og hjóla saman, þeir sem vilja geta fengið útrás fyrir strípihneigðina, hinir geta mætt í föðurlandinu...


berir-bossar

Sól og blíða á Ísafirði

 febrúar 2009 112

Ég hjólaði inn í Engidal sem er rétt fyrir utan Ísafjörð og rakst á þetta skilti. 

 febrúar 2009 017

Blóðlangaði að hjóla upp að Fossavatni og þaðan yfir á Kubbinn, en ákvað að hemja mig og mæta næsta dag, vel nestuð og hafa góðan tíma til að hjóla þetta.

febrúar 2009 040

Þegar ég var krakki á Ísafirði hjóluðum við oft upp Dagverðardalinn (næsti dalur við Engidal) og eftir að hafa erfiðað upp brekkuna var upplagt að fá sér sundsprett í þessari tilbúnu "sundlaug".  Gallinn var að þetta var ekki nein útilaug, heldur vatnsból Ísfirðinga.  Svo fór maður heim um kvöldið og drakk skítinn af sjálfum sér.  Við fórum ekki alltaf ofan í, stundum flutu þar rolluhræ sem höfðu álpast ofan í á meðan þær voru lifandi.  Það sem drepur mann ekki gerir mann sterkari!

febrúar 2009 045

Ég veit ekki hvað Fossavatnið er notað í, nokkuð örugg um að það er ekki til manneldis, en ég vona svo heitt og innilega að það sé notað til að brynna skepnum, sérstaklega rolluskjátum, þá er ég búin að láta þær súpa seiðið af mér og hefna fyrir allt það sem ég drakk af þeim sem barn og unglingur á Ísafirði.

febrúar 2009 056

Tröllin í Engidal voru í stríðnara lagi þennan sólríka og heita sumardag.  Hvergi sá ég stíginn yfir að Kubbnum, datt helst í hug að þau hefðu flutt hann og sætu nú skellihlæjandi ofan á fjallahringnum að virða fyrir sér þessa kellingu sem var að burðast með hjólið yfir urð og grjót og upp á fjöll og firnindi.  Svo ég hætti við að hjóla yfir að Kubbnum og nálgast hann frekar næsta dag frá Dagverðardal.

febrúar 2009 105

Hvað er það annars með mig og stórgrýttu vegarslóðana þetta sumar?  Ég bara virðist sogast að endalausum ófærum og torfærum.  En hver stenst mátið þegar svona krúttlegir línuvegir laða mann og lokka að sér.

febrúar 2009 083

Útsýnið af toppnum var alveg óviðjafnanlegt.

febrúar 2009 089

Ég var ekki í stuði fyrir malbikið og göngin, ákvað að hjóla aftur yfir Breiðadalsheiði.  Enda komin nánast niður á Evuklæðin sökum hita.  Vildi ekki valda umferðarslysum með því að hjóla hálfnakin í gegn um göngin.  Og nei, þið fáið ekki mynd af mér í hjólaskónum einum fata.  Rakst loks á vegarslóðann yfir á Kubbinn Engjadals megin.  6 km og þótt að ég yrði að labba þetta allt saman, þá myndi það bara taka 3 tíma.  Svo ég lagði af stað.  Og varð að lúffa fyrir Kubbinum í annað sinn.  Hélt að það yrði auðveldara að fara með hlíðinni í staðinn fyrir að taka hækkun upp á 2-300 metra.  Lenti í skriðu og smá vandræðum, erfitt að fóta sig og teyma hjólið um leið.  Varð að fara til baka á rassinum og toga hjólið með mér.  Fúlt, en svona fer þetta stundum.  Kubburinn fer ekki neitt og hann verður lagður að velli einhvern daginn!

febrúar 2009 075

Ef þið eigið einhvern tíma leið í Kristjánsbúð, þá tekur húsfreyjan vel á móti ykkur, það er boðið upp á gómsæta naglasúpu, og þar eð það er alltaf sól, logn og blíða á Ísafirði, þá er ekki úr vegi að bæta á sig smá skvettu af sólarvörn sem einhver hugulsamur ferðalangurinn hefur skilið eftir.

febrúar 2009 071


Snæfellsnes - Bifröst

07-16 029 

Snæfellsnesið átti að taka í rólegheitum, fyrsti túrinn var áætlaður ríflega 30 km hringur og svo sund í Borgarnesi á eftir.  Nema ég dáleidd af jöklinum taldi mig hafa keyrt fram hjá fyrsta afleggjaranum.  Skipti svo sem ekki máli, stoppaði við næsta og ákvað að hjóla hringinn rangsælis.  Svo var hjólað af stað.  Helgi og bænastund við Álftaneskirkju, borðað nesti og lífið og tilveran hugleidd.

07-16 018

Þegar ég klára hringinn beygði ég í átt að Snæfellsnesinu, toguð áfram af kvöldsólinni og jöklinum sem glóði þar í allri sinni dýrð.  Ég hjóla og hjóla og hjóla.  Hvergi sé ég bílinn.  Hjóla fram á skilti sem ég man ekki eftir að hafa keyrt fram hjá.  Og öðru.  Og þriðja.  Hvurslags.  Mundi að ég hafði tekið mynd af fyrsta skiltinu og kíki á það til að sjá hvort ég hafi ekki örugglega farið í réttan hring.  Sé þar rauðan depil til merkis um að ég hafi farið inn í fyrsta afleggjarann og hjólað hringinn réttsælis.  Hvernig mér tókst þetta án þess að fatta skekkjuna á leiðinni er mér óskiljanlegt.  Var samt að furða mig á að vindáttin var ekki alveg rétt miðað við hvar ég var stödd í hringnum.  Svo fyrsti hjóladagurinn varð 80 km í staðinn fyrir 30.

07-16 008

Í fyrra þegar ég var á nokkurra daga hjólreiðaferðalagi um Vesturland rakst ég á einn mann á hjóli og tvo hjólandi krakka á einum bóndabænum.  Það var allt og sumt.  Það var alveg hellingur af hjólafólki á Snæfellsnesi, ég mætti mörgum ferðalöngum með klyfjuð hjól, og líka hóp af flottum hjólagörpum á æfingu sem fóru of hratt til að ég gæti borið kennsl á þá, ég hefði svo sannarlega flautað til baka ef ég kynni að blístra ;)

07-16 057

Arnarstapi - Snæfellsjökull - Fróðárheiði.  Ég sá lýsingu á þessari leið inni á umræðuvef Fjallahjólaklúbbsins og ákvað að fara í hjólför Örlygs.  Fékk alveg æðislegt veður, hef áður gengið á Snæfellsjökul, þá var veður leiðinlegt framan af en á meðan við gengum upp ruddi jökullinn sig af skýjum og við fengum útsýni í allar áttir.  Aftur gerðist það núna, það rigndi á leiðinni inn á Arnarstapa, en eftir því sem ég fór ofar glaðnaði yfir nesinu og hann brast á með brakandi bliðu.

07-16 062


07-16 049


07-16 058 

Rétt hjá Bröttubrekku rakst ég á þetta fróðlega skilti.  Þetta er held ég í fyrsta sinn sem ég sé karlmanni talið til hnjóðs að hafa samrekkt of mörgum konum.

07-16 034

Ég hef átt í smá brasi með afturgjörðina, ólin á hjólatöskunni flæktist í þeim fyrir nokkrum vikum með þeim afleiðingum að teinarnir hafa verið að gefa sig einn af öðrum.  Neyðin kennir klæddri konu að teina...  Maður bjargar sér bara!

07-16 080fixed

 

Bláa Lóns - myndband

Ég var með litlu myndavélina með mér í Bláa Lóns keppninni.  Var með litla tösku aftan á bögglaberanum með slöngum, pumpu, orkugeli og auka vatnsbrúsa.  Það var lítill vasi á töskunni og þar kom ég myndavélinni fyrir, skar út smá gat fyrir linsuna.  Ég vissi raunar ekkert hvað myndi nást, kannski bara blár himinn eða grá gata, en sjónarhornið var bara fínt og það sést vel stemmingin í hjólahópnum.  Hins vegar var keppnisskapið svo mikið að ég gleymdi að stöðva myndavélina, hún filmaði uns minnið var búið og fyrir vikið varð skráin mjög stór og ég náði henni ekki yfir í tölvuna mína.  Þurfti að leita ásjár hjá vini með öflugri tölvu og nýrra stýrikerfi.


Fnjóskadalur

06-26 082

Það verður ekki meira lagt á Sunnlendinga og Suðurnesjamenn í bili.  Þeir hafa þolað að horfa upp á mig hjóla spandexklædda og meira að segja á brjóstahaldaranum síðustu misserin, svo nú var mál að hvíla þá og herja á Norðanmenn í staðinn.

06-26 042

Það var svolítið einkennilegur farangur í skottinu, hækjur og reiðhjól, en sem betur fer var hjólið meira notað.  Ég labbaði nánast ekkert þessa viku, var í sumarbústað í Fnjóskadal, lá og sleikti sólina þegar hún bauðst, og svo var hjólað eitthvað í nágrenninu á hverjum degi og farið í sund.

06-26 001 

Síðasta sumar hjólaði ég á Suð-vesturlandi, allt á mjög góðum malarvegum.  Ég er ekki mikið að fara vegleysur eða út í óbyggðir á reiðhjóli, þess vegna valdi ég mér hybrid hjól í vor, sem er meira götuhjól, enda taldi ég að ég yrði mest á malbiki og betri malarvegum þegar ég færi að hjóla út úr bænum.

06-26 048

Þessa viku var ég eiginlega 90% á hvílíku stórgrýttu fjallaslóðunum, að ég hefði sko ekki treyst mér að keyra þá á Jepplingnum.  Svo ef það hafa verið afskekktir ferðamenn sem hafa setið úti í móa og séð mig hjóla fram hjá aleina, grenjandi af hlátri, þá var það bara tilhugsunin um rennisléttu malarvegina sem ég ætlaði að hjóla í fríinu, verandi hálfbækluð með biluð hné og á götuhjóli með sléttum dekkjum.

06-26 057

Lengsti hringurinn sem ég hjólaði var Fnjóskadalur - Hellugnúpsskarð - niður með Eyjardalsá - og svo þjóðveg 1 til baka inn í Fnjóskadal.  Samtals 70 km og hæsti punktur 600 metrar.  Ég skal viðurkenna að þegar ég var að fara niður sumar brekkurnar og hjólið var eins og stjórnlaus ótemja á milli fótanna á mér, þá hugsaði ég "Nú væri gott að vera á fjallahjóli"

06-26 066

06-26 069 

Vegurinn hvarf á köflum undir snjóskafla en ég gat alltaf fylgt rafmagnsmöstrunum þar til ég komst í menninguna við Goðafoss, þar er þjóðvegasjoppa, og ég var búin að sjá hamborgara með öllu í hvílíku hyllingunum þegar ég húkti hundköld í kaffipásu uppi á toppi (hitinn alveg niðri við frostmark, þó að það væri 15 stig niðri á jafnsléttu), en ég á bara ekki að komast í hamborgara á mínum hjólaferðalögum, en þar fengust þó samlokur og pulsur með öllu.  Og súkkulaði.

06-26 067

Fyrsta morguninn sem ég vaknaði í sumarbústaðnum og tók úr mér eyrnatappana hrökk ég í kút.  Það voru hvílíku klór-hljóðin og þungir dynkir sem heyrðust, að ég hélt einna helst að það væru birnir eða úlfar að reyna að komast inn í bústaðinn.  Eftir að hafa kíkt út um gluggana og ekki séð neitt, fór ég út til að sjá hver væri að berja bústaðinn að utan.  Það voru þá litlir sakleysislegir fuglar að trítla á mæninum, bara hljóðið magnaðist svona upp innandyra.  Annars er mjög gaman að stúdera dýralífið þegar maður er svona einn á ferð, það hafa raunar bara kindur og fuglar orðið á vegi mínum, en það er mikill munur á hegðun þeirra eftir því hvar maður er hverju sinni.

06-26 030

Rollurnar á Látraströndinni voru skíthræddar við mig.  Hópuðust saman og hlupu og hlupu eins og þær ættu lífið að leysa.  Stoppuðu svo og góndu á mig og hlupu aftur af stað í hvert sinn sem ég nálgaðist.  Á köflum var ég farin að upplifa mig sem rollu-reka, það var hvílíkur hópur kominn á undan mér á veginum.  Ég var farin að hafa áhyggjur af því að þær myndu hlaupa fyrir björg, enda bratt niður í sjó, og þær gætu farið sér að voða.  Eins gott að engum detti í hug að "bjarga" þeim frá bráðum bana með því að hleypa skotveiðimönnum inn á svæðið.  Kynsystur þeirra á malbikinu á þjóðvegi 1 voru hins vegar öllu vanar og létu mig ekkert trufla sig, héldu bara áfram að bíta gras alveg í vegarkantinum.  Hvort sem ég fór hjá á bíl eða reiðhjóli.

Þegar ég hjóla á Höfuðborgarsvæðinu sé ég bara fugla út undan mér.  En þegar ég er ein á ferð á fáförnum sveitarvegum, sérstaklega þegar ég hjóla á þeirra flughraða, þá hópast þeir að mér.  Mynda fagurlega fylkingu rétt á undan mér, kvaka og syngja og eru greinilega að bjóða mér í gleðskap.  Sveigja svo út af veginum upp í næsta klett en allt fer í upplausn þegar ég fylgi ekki á eftir, enda verð ég að hjóla áfram á veginum, þýt ekkert rétt si svona út í móa á eftir einhverjum partý-gaukum.  Þá koma þeir aftur, garga á mig, mynda nýja fylkingu, og reyna aftur að fá mig með, áður en þeir gefast upp á þessari einstefnulegu kvensu sem fer bara sínar eigin leiðir.

06-26 020

Fleiri myndir frá ferðalaginu má sjá á Picasa vefnum, sem og aðrar myndir sem ég hef tekið á hjólaferðum, ýmist ein eða með Fjallahjólaklúbbnum.  Ég tek þó ekki mikið af myndum, ég er meira að filma myndbönd þegar ég er á ferð með öðru fólki.  Þau eru hér á barnum til vinstri undir tenglar.

https://photos.app.goo.gl/uXseVggDex4kmyBy8


Bláa Lóns áskorun

06-14 005

Það var þreyttur, skítugur en ánægður hjólari sem kom heim í hlað eftir frábæra keppni á sunnudaginn.  Maður þarf eiginlega að taka þátt til að átta sig á hversu mikið er lagt í undirbúning og utanumhald í kring um svona stóra keppni, við í Fjallahjólaklúbbnum fengum Albert formann HFR til að koma á opið hús og fræða okkur um leiðina og undirbúning, mjög gagnlegt og margir góðir punktar sem þar komu fram.  Úrslit og myndir frá þessum magnaða viðburði má sjá á vef Hjólreiðafélags Reykjavíkur www.hfr.is 

Það var smá beygur í mér fyrir keppni, verandi með svolítið bilað hné og á hybrid (hjól á sléttum dekkjum, mitt á milli fjallahjóls og götuhjóls), en ég á ekki fjallahjól í augnablikinu.  Ég ákvað að leggja alla vega af stað, vonaðist til að ná í mark áður en tímatöku lyki (eftir ríflega 4 tíma), annars myndi ég bara breyta keppninni í rólegheita sunnudags-hjólatúr og taka allan daginn í þetta.

Ég sé marga hjólara sleppa báðum höndum af stýri og geta athafnað sig við ýmislegt á meðan þeir hjóla áfram eins og ekkert sé.  Ég get þetta alls ekki, á meira að segja erfitt með að halda jafnvægi ef ég sleppi annari hendi af stýri.  Og komst að því að ég get ekki drukkið og hjólað í einu, það fer allt einhverja vitlausa leið og ég bara hósta og frussa.  Og hjálpi mér, þetta orkugel var svo mikill vibbi að ég var með klígju í langan tíma á eftir, hélt einhvern veginn að þetta væri þynnra, blautara og rynni betur niður.  Þessu hefði ég alls ekki komið niður á ferð, en ég stoppaði tvisvar sinnum á leiðinni, fyrst til að klæða mig úr jakkanum og svo til að fá mér gelið og liðka axlir áður en ég lagði í Ingólfsskálabrekku, en þá var ég farin að finna fyrir smá hungur-skjálfta og vildi nú ekki fara að lyppast niður orkulaus rétt fyrir framan markið.

Það eru kostir og gallar við að vera á Hybrid í Bláa Lóns keppninni.  Kostirnir eru þeir að ég komst hraðar á malbikinu, en gallarnir þeir, að ég þurfti að fara varlega í mölinni, hjólið dansaði full mikið niður malarbrekkurnar og það er líka meiri hætta á að sprengja dekk.  Hristingurinn var hroðalegur á köflum, það eru brotnir teinar í afturgjörðinni, hún er eitthvað skökk og ljóst að fákurinn þarfnast smá aðhlynningar.

06-14 006

En ég komst í mark og bara mjög ánægð með tímann minn, 2:47:10, varð 3ja í mínum aldursflokki, 10unda af 48 konum og 135ta af 294 sem tóku þátt á 60 km leiðinni.  Nú á ég tvo verðlaunapeninga eftir tvær hjólakeppnir í ár.

06-14 007

Þetta verður að teljast bara nokkuð gott í ljósi þess að ég var í hörmulegu formi fyrir tveimur árum, 35 kg þyngri en ég er í dag, með marga kvilla tengda offitu og bara, aldrei hefði mér dottið í hug árið 2008 að ég ætti eftir að komast á verðlaunapall í hjólakeppni.

2008-2011


100 km á einu epli

Ég ætlaði að hjóla áleiðis upp í Mosfellsbæ og kannski skreppa í sund ef heilsan leyfði.  Ég var í gönguferð við Garda vatnið og eftir flugferðina heim var ég með mikið vatn i hnjánum, en ég er með slitgigt.  Leyfi mér þó að fara í svona gönguferðir einu sinni á ári, enda fátt sem lyftir andanum betur upp en mátuleg blanda af hreyfingu og menningartengdum viðburðum.

06-03 049b

Ég ætlaði að taka þátt í Bláa lóns áskoruninni, hjóla 60 km leið frá Hafnarfirði að Bláa Lóninu, en eftir hjólatúr á mánudaginn, þar sem ég komst varla upp fyrir 10 km hraða og rétt náði 10 km, þá runnu á mig tvær grímur, kannski betra að fresta þátttöku til næsta árs.  Annað hnéð læstist reglulega og ég fékk lamandi verk niður eftir fótlegg í kjölfarið.  Fór samt aftur út að hjóla næsta dag, náði aðeins lengri vegalengd, þó að hraðinn væri ekki mikið betri.

En í gær ákvað ég að prófa að hjóla 20-30 km og athuga hvernig hnéð væri eftir það.  Þegar ég kom upp í Mosfellsbæ var ég bara komin í sæmilegt form og stöðugt lengra á milli læsinga í hnénu.  Svo ég ákvað að hjóla aðeins upp á Mosfellsheiðina og breyta rólegheita hjólatúrnum í próf, hvort ég væri í formi fyrir Bláa Lónið.  Ætlaði að hjóla ca 30 km án þess að stoppa og snúa svo við svo ég næði 60 km heildarvegalengd.  Veðrið var guðdómlegt, sól, hiti og ég á stuttermabol og stuttbuxum.

Þá fékk ég eina af mínum góðu hugmyndum, að halda áfram yfir á Þingvelli, fá mér ís og hjóla svo aftur í bæinn.  Eftir því sem ég nálgaðist Þingvelli og svengdin og garnagaulið jókst breyttist planið í hamborgara og ís í eftirrétt.  Hnéð var alveg hætt að læsast og ég veit af fenginni reynslu að hjólreiðarnar hjálpa til við að fjarlægja vökvann úr hnjánum.  Ég var jafnvel að spá í að fara Nesjavellina heim úr því veðrið var svona gott, ég gæti nestað mig upp á Þingvöllum, en ég tók bara með eitt epli og vatnsbrúsa í hjólatöskuna sem ég ætlaði að snæða eftir sundið.

Af tvennu illu er betra að gleyma aukafötunum, en gleyma veskinu heima og vera nánast nestislaus í 100 km hjólaferð.  Þar með breytti ég aftur planinu, ákvað að éta epla skömmina og hjóla aftur yfir Mosfellsheiðina.  Eplið náði að seðja sárasta hungrið og ég hjólaði aftur af stað, áætlaði að vera 2 tíma á leiðinni heim, en ég var rétt 1 og hálfan að fara frá Reykjavik til Þingvalla.  Lendi ég ekki í einum stífasta mótvindi sem ég hef nokkurn tíma lent í.  Var sem betur fer með jakkann ofan í hjólatöskunni, annars hefði ég verið bæði svöng og köld á heimleiðinni.  Sem tók upp undir 5 tíma.  Með tveimur góðum sólbaðspásum, en ég var að vona að hann myndi lægja með kvöldinu.  Það gerðist náttúrulega ekki fyrr en ég kom í Mosfellsbæinn, og þá var ég komin með einkenni blóðsykurfalls, en ég hef glímt við sykursýki á undanförnum árum.  Er þó hætt að taka lyf við henni, enda næ ég núorðið að halda sykrinum góðum með bættu mataræði.

Fyrst verður maður svangur, svo fær maður magaverki, svo vanlíðan og loks þegar blóðsykurinn er orðinn hættulega lágur fær maður yfirþyrmandi tilfinningu að leggjast niður og fara að sofa.  Vöðvar láta illa að stjórn og ég var komin með þreytu dauðans, en ég á alveg að hafa úthald í 7 tíma hreyfingu, hvort sem það er göngu eða hjólaferð.  En þá þarf maður að næra sig til að hafa úthald.  Ég þurfti að setjast á annan hvern bekk i Gravarvoginum til að hvíla mig og reyna að yfirvinna svefnþörfina.  Gemmsinn var náttúrulega í veskinu heima, svo ég gat ekki hringt eftir hjálp, en ákvað að ég yrði að stoppa einhvern vegfaranda ef ég færi að sjá svartar flygsur, sem er merki um að blóðsykurinn sé orðinn verulega lágur.  Fyrst var ég að íhuga að banka upp á hjá einhverjum bóndanum á leiðinni og biðja um banana, en þegar ég er í þessu ástandi riða ég til og verð þvoglumælt, svo ég var nú ekki viss um að ég fengi bliðar móttökur ef ég færi að banka upp á hjá bláókunnugum og betla mat.  Fólk með sykursýki i blóðsykurfalli hefur liðið út af og ekki fengið hjálp frá fólki af því það telur að viðkomandi sé drukkinn eða undir áhrifum eiturlyfja.

Þegar ég kom heim mældi ég blóðsykurinn og hann var farinn niður fyrir 3, en á þessum tíma dags er æskilegt að hann sé nálægt 8.  Gúffaði í mig ab-mjólk með músli, tveimur ávöxtum, fékk kuldakast og skalf inn í ómegin.  Vaknaði svo eftir 7 tíma, stálslegin, hress og kát, hnén í fínu lagi, engar harðsperrur.

Svo ég er klár í slaginn, Blú Lagún, hír æ komm!

06-01 117b


mbl.is Hafa komið til móts við skuldavandann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég ætla líka að láta brenna mig

En hafði nú hugsað mér að láta Fossvogskirkjugarð sjá um athöfnina.  Ég er á leið til Ítalíu bráðlega í gönguferð með gönguklúbbnum mínum.  Ég ætla nú ekki að láta þetta aftra mér frá því að gæða mér á eldbakaðri pizzu og drekka gott rauðvín með.  Oh, hvað ég er farin að hlakka til, fátt notalegra en fá sér einn kaldan eftir gönguferð í fallegu fjallahéraði.

gonguklubburinn


mbl.is Kynda pítsuofna með líkkistum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband