Meiri snjó, meiri snjó, meiri snjó

Reykjavík er falleg í vetrarbúningi og það er voða gaman að hjóla í snjó, fá smá eplakinnar og klæja örlítið undan ullarbuxunum.  Bara ljúft.

01-b 003


Uxahryggir - með aðra hendi á stýri

11-21 051

Maður heyrir oft af fólki sem leggur sig í bráða lífshættu til að ná einhverju á filmu.  Ég filma stundum á meðan ég hjóla niður brekkur, þá með aðra hendi á bremsunni, reyni að halda myndavélinni eins kyrri og hægt er með hinni.  Þetta tekst stundum ljómandi vel, en í þetta skiptið voru bremsurnar orðnar pínu lúnar og ég geystist á full miklum hraða fram hjá ferðafélögum mínum niður stórgrýtta brekku, með aðra hendi á stýri, og með myndavélina á lofti.  Þeim þótti ég ægilegur töffari.  Hvað gerir maður ekki til að skemmta fólki, ha!  Óviljandi í þetta sinn.  Myndbandið kemur inn á morgun eða hinn, það tekur smá tíma að klippa og hljóðblanda það.  Set líka fleiri myndir í albúm hér á síðunni.

11-21 013

Fyrirvarinn var svolítið stuttur, ég kíkti af rælni á póstinn minn um kaffileitið og sá þessa ferð auglýsta næsta dag á vegum Fjallahjólaklúbbsins.  Hringdi heim í bóndann, "Má ég fara?" og fann gremjuna alveg í gegn um símalínuna.  "Nei, þú ert aldrei heima, ertu ekki að fara á jólahlaðborð annað kvöld!".  Svo ég fór snemma heim á föstudaginn, dröslaðist um heimilið með þennan dæmigerða Ég-má-aldrei-neitt-og-fer-aldrei-neitt fýlusvip svo kallinn gafst upp að lokum, "Jæja, farðu þá!"  Svo menn haldi ekki að ég búi við karlaofríki og þurfi leyfi til að fara ein út af heimilinu, þá eigum við ung börn og einhver þarf að vera heima að gæta þeirra.  Við skiptumst á.  Það verður að viðurkennast að það er ívið meira útstáelsi á frúnni, en ég er í kór, gönguklúbb, saumaklúbb, mömmuklúbb og hjólaklúbb, fyrir utan vinnutengda djammviðburði, en jólahlaðborðið var á vegum vinnunnar.  Svo það er nóg að gera í félagslífinu hjá mér.

11-21 058

Björgvin keyrði okkur á jeppanum sínum upp í Kaldadal með hjólin aftan á kerru.  Siggi var líka á bíl, en brá sér á hjólið öðru hvoru, það má segja að við höfum mætt Sigga nokkrum sinnum á leiðinni.

 11-21 057

Þaðan var svo hjólað niður Uxahryggi, meðfram Þingvallavatni og yfir Mosfellsheiði til Reykjavíkur.  Þó að veðurspáin gerði ráð fyrir 2-4 stiga hita þótti mér ráðlegra að setja nagladekkið undir, alla vega að framan, það er meira bras að skipta um að aftan, svo ég ákvað að bíða með það.  Ég er ekki með öflugt ljós á hjólinu, bara svona venjulega týpu til að gangandi og hjólandi vegfarendur sjái mig á göngustígunum, nú og svo vildi ég vera komin tímanlega í bæinn, svo ég hefði tíma til að hafa mig til fyrir jólahlaðborðið.  Björgvin hinn bjartsýni sagði að við yrðum komin í bæinn löngu fyrir myrkur.  Það stóðst nú ekki alveg.

11-21 063

Þessi leið er ca 75 km frá Kaldadal niður í Klúbbhúsið við Brekkustíg.  Framan af á malarstíg, missléttur og misgrýttur en ágætlega fær.  Svo tekur malbikið við.  Við vorum einstaklega heppin með veður miðað við árstíma.  Hitastig rétt yfir frostmarki, sól öðru hvoru og svo ansi sterkur meðvindur yfir heiðina að Mosfellsbæ.  Við héldum hópinn framan af, en ákváðum að hver og einn færi á sínum hraða yfir heiðina eða húkkaði far með Björgvini sem fylgdi okkur á leiðinni.  Það var komin hálka og byrjað að dimma þegar við lögðum af stað frá Þingvöllum.  Sumir völdu að fá far, en þar eð ég hef ekki hjólað þessa leið áður, ákvað ég að fara hjólandi alla leið, nema ég yrði alveg blind í náttmyrkrinu, það stendur ekki til að hætta lífi eða limum þótt að maður vilji helst klára dæmið eins og lagt var upp með.

11-21 042

Þegar við lögðum af stað var golan svolítið kælandi og ég fór í ullarbol undir jakkann.  Svo fór ég í gult endurskinsvesti og þá varð mér allt of heitt eftir að við lögðum af stað svo ég varð að klæða mig aftur úr ullarbolnum.  Ég var eiginlega að klæða mig ýmist úr eða í alla ferðina og ég var farin að ganga undir gælunafninu "stripparinn".

11-21 045

Kvenfólk á ívið erfiðara með að kasta af sér vatni en karlmenn, við þurfum að hafa frið og næði, annars getum við ekki pissað.  Jeppinn hans Björgvins var þetta líka fína skjól og eftir að ég hafði nýtt mér það, ákvað María að fara að dæmi mínu, en gat ekki klárað af því Heimir óð að jeppanum til að leita að þrífætinum sínum, sem eftir mikla leit fannst hangandi neðan úr hjólinu hans.  Beið María með kall náttúrunnar þar til við vorum farin af stað, parkeraði hjólinu í vegarkantinum og fór á bak við stóran stein.  Kom ekki Björgvin keyrandi, sá hjólið liggja í vegarkantinum og fór út til að athuga hvort einhver þarnaðist hjálpar, og truflaði Maríu öðru sinni.  Ég er ekki viss um hvort hún þorði að reyna við þetta í þriðja sinn, kannski eftir að náttmyrkrið skall á.

11-21 017

Síðasta klukkutímann fylgdust við Runólfur að, við hjóluðum stíft til að ná yfir heiðina fyrir myrkur, hans ljós var betra en mitt og við rétt höfðum það af á upplýsta hluta Þingvallavegar, áður en síðasta dagskíman hvarf.  Svo fórum við stíginn meðfram golfvellinum í Mosfellsbæ, niður að sjó og meðfram honum yfir í Grafarvog.  Ég kom heim kl 18:30 og þá var sko skipt yfir í túrbóhraða, naglalakk, kokteill, sturta, make-up og sparidressið.  Allt þetta á hálftíma.  Svo hjólaði ég á jólahlaðborðið, át á mig gat, þaðan fór ég á djammið niðri í miðbæ, dansaði svolítið og hjólaði svo aftur heim fyrripart nætur.  Ætli ég hafi ekki hjólað um 90 kílómetra í gær.  75 í dagsferðinni og svo um 15 um kvöldið.  Alltaf gaman að hjóla, bætir, hressir og kætir.

11-21 040

11-21 053

Að lokum má skoða myndbandið á youtube:

 

 


Mánudagur til mæðu

Ég hjóla til vinnu á mánudögum eins og flesta aðra daga, svo kem ég heim seinnipartinn, hjálpa krökkunum með heimanámið, það er snædd pizza eða eitthvað annað léttmeti og svo hjóla ég aftur af stað.  Á æfingu hjá sönghópnum Norðurljósum.  Ég bý í Smáíbúðahverfinu og æfingastaðurinn er Hofstaðaskóli í Garðabæ.  Ég er búin að prófa nokkrar mismunandi leiðir og fer núna í gegn um Breiðholt og Kópavog aðra leiðina, ég er 20-25 mínútur á leiðinni, tvær miðlungs erfiðar brekkur, frá Elliðaárdal upp í Breiðholt og svo tekur Smárahvammurinn aðeins í lærin.

ad_skolanum 

Það er ágætis aðstaða fyrir reiðhjól fyrir utan skólann, þak sem skýlir fyrir veðri og vindum.

skolinn

Þegar ég er búin að syngja með félögum mínum í kórnum er andinn orðinn hvílíkt heitur og glaður og ég raula lögin á leiðinni heim.  Þá vel ég að hjóla niður að sjó og þræða strandlengjuna meðfram Kópavogi, fer stundum fyrir Kársnesið til að finna sjávarilminn og tjörulyktina af bátaútgerðinni, stundum langar mig í smá átök og fer þá yfir hæðina.  Kópavogurinn er fallegur, líka í myrkrinu, það skerpir skilningarvitin að þræða stíginn meðfram sjónum, dulúðin og mystíkin eykur áhrifin, aldrei að vita hvaða verur birtast skyndilega út úr náttmyrkrinu í næstu beygju.

stigurinn

Svo spæni ég á nýju hjólabrautinni í gegn um Fossvogsdalinn og er komin heim ríflega 35 mínútum seinna.  Þessi leið er nánast öll á stíg, varla hægt að tala um brekkur á leiðinni, rétt smá halli yfir Arnarnesið og þar verður maður að hjóla á götunni, gangstígarnir eru óvenju mjóir, varla að þar sé hægt að komast leiðar sinnar með barnavagn.

fra_skolanum

Mánudagur til mæðu?  Nei, það er sko ekkert mæðulegt við mánudagana á þessum bæ.  Þeir eru uppspretta andlegrar og líkamlegrar næringar.


Og þar fór Komda hjólið :(

06-30 003 

Síðasta sumar fór ég í skemmtilega ferð til Viðeyjar og var þessi mynd tekin við það tækifæri.  Ég vorkenndi hvílíkt strákunum sem þurftu að hífa Komda hjólið mitt um borð í Viðeyjarferju, því það er níðþungt.  Ég var ákveðin í að mæta næsta sumar á léttara hjóli og það verður pottþétt, því  hjólinu var stolið síðasta föstudag, um hábjartan dag. 

Raunar hefði ég aldrei átt að kaupa þetta hjól, stellið var aðeins of lítið fyrir mig, en það var hræódýrt, 24 þúsund kall eftir hrun, með þægilegum fítus, hægt að brjóta það saman og setja í skottið á bíl.  Sem ég nýtti mér mikið á ferðalagi síðasta sumar, nú og svo þegar ég hef verið of drukkin til að hjóla heim af djamminu, þá er fínt að geta blikkað einhvern til að skutla sér og samanbrotnu hjólinu heim.  Nú bölva ég hástöfum að hafa verið svona tímanleg að setja nagladekkin undir, 25 þúsund kall þar!  Nema ég nái að kaupa notuð nagladekk á netinu, kannski verða það mín eigin dekk, heh.

Oh, í þessum skrifuðu orðum var ég að fatta að festingin fyrir töskuna að framan var á hjólinu, nú er taskan eiginlega ónothæf, nema ég geti keypt festingarnar sér *sich*, ótrúlegt hvað svona stuldur getur reynst manni leiðinlegur og fyrirhafnarsamur  Frown


Hjóla-gormar

Ég var að hjóla með strákunum mínum fyrir stuttu og eldri strákurinn gat loksins sleppt báðum höndum af stýrinu í einu.  Hann er 11 ára gamall, lærði að hjóla án hjálpardekkja 9 ára, en hann glímir við líkamlega annmarka, vantar styrk, snerpu og jafnvægi.  Hann hefur til dæmis ekki enn hjólað standandi eða reynt að skransa eins og stráka er siður.  Litli bróðir var farinn að hjóla standandi og reyna að klifra upp á hnakkinn í löngum aflíðandi brekkum löngu áður en hjálpardekkin voru fjarlægð.  Hann náði þeim áfanga 6 ára gamall.

En þetta fannst litla bróður alveg svakalega flott hjá stóra bróður, "Vá, hann ætti bara að fara að vinna i sirkus eða eitthvað!" 

webhjolasnudar


Hvalfjörður - Eilífsdalur

10 11 003

Ég tók smá hring í Hvalfirðinum í dag, skildi þennan stutta spotta eftir þegar ég tók Vesturlandið í sumar.  En það ferðalag var planað þannig að ég tók alla 20-80 km langa hringi sem ég fann á kortinu og hjólaði þá.  Ætlaði að hjóla hann á suðurleiðinni, en náði því ekki.  Það verður að klára dæmið svo maður geti snúið sér að næsta landshluta næsta sumar.

10 11 009

Þegar ég keyrði fram hjá Esjunni sá ég að fánarnir blöktu ansi hressilega.  Ég átti þá allt eins von á að það væri brjálað veður í Hvalfirðinum, ákvað samt að fara þangað og athuga aðstæður, ég er nú ekkert óvön því að þurfa að breyta plönum þegar ég hef ætlað að viðra mig í Hvalfirðinum, enda merkilega oft á djamminu í nálægum sveitarfélögum vegna óveðurs.  En það var þetta líka blankalogn og brakandi sól.  Ég varð eiginlega að standast freistinguna að taka ekki allan Hvalfjörðinn í einu, halda mig við upphaflega planið, hringinn í kring um Eyrarfjall.

10 11 014

Hvalfjörðurinn er náttúrulega malbikaður, en Eyrarfjallsvegur (nr. 460) er alfarið malarvegur.  Sæmilega sléttur fyrir utan nokkra holótta kafla.  Og vegurinn var mest megnis einbreiður, það var smá bras að mæta bílum, við þurftum bæði að víkja alveg út í lausan kant, ég og ökumennirnir.

10 11 016 

Það var æði kuldalegt umhorfs á leiðinni, en hitinn var samt 5-7 stig og ég á mörkunum að fækka fötum.  Þá niður á stuttermabolinn.  Það hefði gengið eftir ef ég hefði verið fyrr á ferðinni, klukkan var 16 og þá var sólin horfin úr Eilífsdalnum.

10 11 019

Ekki veit ég hvað er svona merkilegt við Orustuhólinn sem er merktur "Athyglisverður staður".  Reyndi að gúggla fyrirbærið þegar ég kom heim, en fékk þá upp mynd af öllu veglegri hól allt annars staðar á landinu.  Það væri kannski ekki óvitlaust að bæta við smá skilti á stöngina með upplýsingum um af hverju þessi hóll er talinn vera merkilegt fyrirbæri.

10 11 018

Þessi hringur er 20 km og ég var ca klukkutíma og þrjú korter að fara hann.  Með nokkrum stuttum mynda og drykkjarpásum.  Og rölti upp á Orustuhólinn.

10 11 031

10 11 035

10 11 039

10 11 004

10 11 040


Svanasöngur

Nei, þessi færsla er ekki um ríkisstjórnina, Icesave eða aðrar þjóðfélagshörmungar, elskuleg Byko-druslan mín gaf upp öndina í dag *grrreeenj*

Ég var að hjóla heim þegar keðjan læstist með geigvænlegum bresti.  Einn hlekkur brotnaði og braut gírskiptinn í leiðinni.  Það svarar ekki kostnaði að gera við þetta, svo ég býst við að hjólið verði bútað niður og notað í varahluti fyrir önnur hjól á heimilinu.

Ég var stödd við Snorrabraut þegar keðjan slitnaði, á leiðinni að sækja strákinn minn á Frístundaheimili.  Klukkan var 16:45 og ég þarf að sækja barnið fyrir kl 17:15 uppi í Smáíbúðahverfi.  Það var enginn tími til að taka strætó, hæpið að ég hefði náð þessu með leigubíl á háannatíma svo ég notaði hjólið eins og hlaupahjól, var á öðrum petalanum og skúrraði mér áfram með hinni löppinni.  Vakti óneitanlega smá athygli á Miklubrautinni með þennan sérkennilega hjólastíl, en ég náði upp á Frístundaheimili á 20 mínútum.  Hefði sko verið í verri málum ef ég hefði verið á bíl sem hefði bilað, þá hefði ég fyrst þurft að koma bílnum út af götunni og svo þurft að labba eða redda mér öðru vísi.  Hefði ekki náð á áfangastað fyrir lokun.

Þetta hjól er búið að þjóna mér prýðilega í 8 ár, þar af bróðurpart síðasta vetur.  Ég á annað hjól og hef notað það í sumar, en gírinn bilaði á því hjóli í síðustu viku, þess vegna var ég á gamla hjólinu í dag.  Þannig að á einni viku er ég búin að rústa bílnum og báðum hjólunum.  Hinn bíllinn er uppi á Keflavíkurflugvelli, hjól karlsins er vandlega læst við húsvegginn, skil nú ekkert í því, þar eð það er hvílík ryðhrúga, ekki séns að neinn þjófur líti við því.  Ekki það að ég geti notað það ef það væri ólæst, það er með hvílíkum dempurum að ég verð sjóveik ef ég hjóla á því.

Kallinn fær áfall þegar hann kemur heim næstu helgi eftir viku fjarveru.  Öll farartæki heimilisins í lamasessi, kellingin marin og blá eftir að hafa reynt að skipta um dekk á bílnum, yngri strákurinn krambúleraður eftir slagsmál í skólanum og eldri strákurinn óþekkjanlegur, kominn með spangir á tennurnar.  Ég ætti kannski að raka á mig kiwikoll til að hann taki ekki eftir öllu hinu *hugs*


Hættuleg vika framundan

Í síðustu tvö skipti sem kallinn hefur brugðið sér út fyrir landsteinana hef ég endað á sjúkrahúsi.  Síðast fékk ég influensu, og fór á Tamiflu á fimmtudegi, svo ég yrði nú orðin hress um helgina, verandi ein heima með tvo krefjandi gorma.  Á sunnudag var ég búin að kasta stöðugt upp (fattaði ekki að það var aukaverkun af Tamiflu) pjakkarnir búnir að lifa á vatni og frosnum pylsubrauðum í tvo daga og það leið yfir mig ef ég reyndi að komast fram úr rúminu til að sinna þeim.  Svo ég endaði inni á sjúkrahúsi í tvo daga með næringu í æð.

Þar áður þegar kallinn fór erlendis sprakk botnlanginn í frúnni.  Ég inn á spítala í bráðaaðgerð.  Bóndinn hefur ekki hætt sér í útrás í meira en ár, en nú er hann floginn.  Og við bæði ábyggilega með smá kvíðahnút, hvað skyldi nú koma fyrir kellinguna á meðan hann er úti.

Það datt bíll ofan á mig í dag.  Þetta var ekki leikfangabíll, heldur alvöru 1.4 tonna bíll.  Það sprakk hjá mér og ég þurfti að skipta um dekk.  Það gekk brösuglega að tjakka bílinn upp, ég var búin að gera 2 tilraunir, en alltaf rann bíllinn aftur á bak og hlunkaðist niður af tjakknum.  Strákarnir voru með mér í bílnum og ég lét þann eldri sitja í bílstjórasætinu og stíga á fótbremsuna, bölvandi asnanum sem gaf bílnum skoðun fyrir mánuði síðan, því handbremsan hlýtur að vera léleg, hún ein og sér á að halda bílnum kyrrum.  Nema þetta gerðist aftur þegar ég var búin að koma nýja dekkinu á en ekki búin að setja boltana í, þá byrjar tjakkurinn að skrika til (strákurinn ekki enst á bremsunni, undir stöðugu áreiti frá litla bróður í aftursætinu), hendin á mér var þá á milli dekks og bíls og auðvitað klemmdist ég, bíllinn fór að renna aftur á bak, dekkið skekktist og hendin klemmdist meir og meir og ég dróst niður.  Einkennilegt hvað flýgur í gegn um hugann við svona aðstæður.  Tíminn stoppar og allt fer í hægagang.  "Kallinn verður brjálaður!" var mín fyrsta hugsun, "Hvernig skipti ég um gír á hjólinu ef ég missi hendina" var svo næsta hugsun.  En svo hrökk dekkið af, ég losnaði og slapp með marið, blátt og bólgið handarbak.

Ætli ég reyni ekki að halda mig bara á hjólinu þessa viku, bílar eru stórhættulegir.


Hjólaföt - netverslanir

Þar eð ég telst nú vera "venjuleg" kona í þyngdarlegum skilningi áræddi ég að hætta mér inn í hérlendar íþróttabúðir, mátaði slatta af hjólabuxum og annan íþróttafatnað.  Passaði vissulega í eitthvað af þessu, en þá var hönnunin asnaleg, t.d. buxurnar stuttar að aftan, og hver vill hjóla með rassskoruna uppúr?  Ekki ég.  Svo ég ákvað að prófa að panta upp úr erlendri vefverslun sem sérhæfir sig í hjólavörum.  Pantaði einar kvenbuxur í xl og karlmannsbol í xl.  Þetta passaði svona líka ljómandi fínt, bæði meira að segja vel rúmt. 

Svo ég áræddi að panta meira og nú allt úr kvengeiranum.  En nei, xl er sko ekki sama og xl.  Þó að það sé innan sama framleiðanda.  Pantaði buxur og bol.  Í xl.  Buxurnar voru níðþröngar en náðu upp að herðablöðum að aftan.  Að framan náðu þær varla upp fyrir hárlínu.  Fór að lesa nánar lýsinguna á þessum buxum og þær reyndust vera hannaðar sérstaklega fyrir racer-konur.  Jahá, er ekki gert ráð fyrir því að konur þurfi að stíga af baki einhvern tíma???  Bolinn sem ég hafði keypt við passaði ágætlega á þverveginn, nema hann var óvenju stuttur að framan.  Aftur eitthvað racer-dæmi og merkilegt nokk, virtist vera hannað á holduga konu 160 á hæð.  Síddin að aftan er hins vegar það mikil að ég þarf ekki að taka með dömubindi í hjólatúrana...  "so there is no annoying gap"  stóð í lýsingunni á vefsíðunni.  Nei, það angrar mig ekki baun þótt brjóstin gægist niður undan bolnum og brúskurinn upp úr buxunum.  Gaaarrrggg.  Og nei, þið fáið ekki mynd!

Ætli ég haldi mig ekki við karlmannalínuna í framtíðinni.  Hef ekki séð svona asnalega hönnun á karlmannsflíkunum.  Hef alla vega ekki séð neinn með bibbann uppúr hjólabuxunum.

Verðlaunabikar

Ég hef einu sinni fengið verðlaunapening, varð önnur í 17 júní hlaupinu í Sandgerði þegar ég var 10 ára.  Að öðru leiti er íþróttaferill minn fremur viðburðalítill.

Þar til í sumar, er ég fékk mætingabikar Fjallahjólaklúbbsins.  Ég setti mér það markmið í byrjun sumars að komast í eiturgott form og liður í því var að mæta í allar þriðjudagsferðir klúbbsins.  Ég skrópaði bara í einni ferð, nr. 2, en þá var hífandi rok og mér til afsökunar var undankeppni Eurovision sama kvöld.  En ég mætti í allar hinar, fyrir utan tvær, en þá var ég stödd úti á landi í sumarfríi, hjólandi að sjálfsögðu.

Ásgeir var næstum búinn að vinna bikarinn í fyrra, mætti í allar ferðir nema eina, en þar eð Edda hafði mætt í jafn margar ferðir var dregið og Edda hreppti bikarinn. Ásgeir komst ekki í 4 ferðir í sumar, og þess vegna varð hann aftur að sjá á eftir bikarnum.  Ég skora á Ásgeir að ná honum af mér á næsta ári, en hann stendur fyrir aftan mig á myndinni, skiljanlega svolítið súr á svipinn.

bikar


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband