Vanfærar konur?

Voðalega fer það í taugarnar á mér þegar barnshafandi konur eru skilgreinar sem vanfærar konur. Óléttar konur gengur eiginlega ekki heldur, ég er búin að vera bæði vanfær og ólétt síðustu árin, en hef þó ekki verið barnshafandi.

Ég var ekki vanfær um eitt né neitt þegar ég gekk með mín börn, stundaði hjólreiðar og fjallgöngur, fór upp á þak til að dytta að húsinu, gróf safnhaugi og sagaði niður tré með keðjusög.  Gerði allt sem ég var vön að gera áður en ég varð barnshafandi.  Labbaði meira að segja Lónsöræfin með gönguklúbbnum komin 5 mánuði á leið. 

Hér er ég með hressu kellunum mínum á toppinum á Búrfelli síðasta laugardag.

burfell


mbl.is Búið að forgangsraða vegna bóluefnis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvissu helgarferð

Er ekki haustið tíminn til að skríða upp í sófa með kakó, teppi og góða bók?  Vissulega.  Það er líka góður tími til að pakka niður nesti og regngallanum og fara út að hjóla.  Haustlitirnir eru ægifagrir um þessar mundir og náttúran skartar sínu fegursta.  Svo ég valdi óvissu haustferð Fjallahjólaklúbbsins fram yfir sófalegu helgina 12-13 september.  Ég vissi að það yrði hjólað í 40 kílómetra fyrri daginn, gist á svefnlofti, svefnpokinn og hóflegur farangur trússaður upp í skála og svo hjólað svipað langt næsta dag.  Hjólað heim næsta dag, 45 kílómetra.  Svo ég þyrfti bara að taka með nesti fyrir daginn, hlý föt, regnföt, pumpu og bætur auk viðgerðasetts.
 
09 13 011 
 
Sesselja fararstjóri tók á móti okkur við Árbæjarsafn og deildi út gulum vestum, betra að vera vel sýnilegur þegar skammdegið færist yfir.  Við fengum líka að vita að við værum á leið upp í Bláfjöll með viðkomu í Heiðmörk og Lækjarbotnum.  Heiðmörkin er alltaf falleg, sérstaklega á haustin.  Framan af hjóluðum við á auðveldum malbikuðum stígum, síðan eftir malarstígum Heiðmerkurinnar, en gamanið kárnaði í Lækjarbotnum.  Það átti að vera hjólafær stígur yfir í Waldorfskólann, en við fundum hann ekki. 
 
09 13 009 
 
Teymdum hjólin yfir mela , móa og nokkrar lækjarsprænur, síðan tók við torfær stígur sem var æði tættur eftir mótorhjól.  Áðum við nýlegt minnismerki, súla með ljósi efst, og klifruðum upp í nærliggjandi kletta, þar sem Sesselja fann þetta líka fína einkatjaldstæði, eins og arnarhreiður uppi í klettunum.
 
09 13 008
 
Veðrið var gott  framan af, 15 stiga hiti en smá úði.  Varla hægt að óska sér betra veðurs á þessum árstíma.  Eittvað var náttúran í skringilegu formi, við höfðum aldrei séð jafn lítið vatn í Elliðaárstíflu, og í ánum á leiðinni voru stórar laxatorfur á sveimi.  En þegar við komum á afleggjarann upp í Bláfjöll brast á dæmigert Íslenskt haustveður, rok og rigning.  Og við auðvitað að hjóla upp í mót og með vindinn í fangið.  En það var bara gaman að takast aðeins á við náttúruöflin og fá smá roða í kinnarnar og finna rass- og lærisvöðvana stinnast.  Vitandi að skálinn var bara 3-5 kílómetra í burtu.  Það teygðist aðeins á hópnum í Bláfjöllum, sprækustu garparnir stormuðu á undan (ég þar á meðal) en áttum í erfiðleikum með að finna skálann.  Sáum glitta í hvítt hús uppi í hlíð og annað brúnt aðeins lengra.  Við hjóluðum þarna aðeins fram og til baka, upp og niður brekkur að leita að rétta skálanum.

 

09 13 012

 

Skíðaskáli Fram reyndist svo vera ljómandi huggulegur skáli, fín eldunaraðstaða, tvær sturtur, stórt og gott svefnloft ásamt tveimur litlum herbergjum.  Ég bauðst til að taka annað einkaherbergið, verandi annáluð hrotudrottning og var því boði tekið fegins hendi af samferðafólkinu.  Þegar fólk var búið að fara í sturtu og gíra sig aðeins niður yfir bjór hófst eldamennskan.  Magnús Bergs og Árni gerðust grillmeistarar, Magnús Þór tók að sér sveppina og sósuna.  Ég skar niður salatið, Sesselja kryddaði og undirbjó kjötið fyrir grillið,  hinir lögðu á borð og gerðu salinn huggulegan.   Þetta var bara eins og hjá stórri samheldri fjölskyldu.  Síðan snæddum við herlegheitin sem smökkuðust gríðarlega vel, skildum þó nokkra vel valda bita eftir handa Morten, en hann var væntanlegur í hús á milli 21 og 22.  Sumir lögðu seint af stað en komu þó.
 
09 13 003
 
Eftir matinn fengum við kaffi og konfekt, en svo fóru menn að ókyrrast þegar leið á kvöldið, og loks ákvað Magnús að fara út og leita að Morten.  Hálftíma seinna vorum við sem vorum eftir í skálanum að spá í hvort þetta hefði verið sniðug hugmynd að senda Magnús einan út, ef við þyrftum að ræsa út björgunarsveit, þá þyrfti að leita að tveimur stökum mönnum í myrkrinu í Bláfjöllum.  En fljótlega sáust tvær týrur í fjarska sem færðust í átt að skálanum.  Íþróttafélögin mættu gjarnan setja upp vegvísa heim að skálunum.  Skálinn sást ekki frá veginum í myrkri, þoku og rigningu, þrátt fyrir að hann væri uppljómaður.

 

09 13 002

 

Menn voru misþreyttir eftir daginn, sumir fóru í háttinn klukkan 22, aðrir vöktu fram eftir við að ræða landsins gögn og nauðsynjar, ferðasögur, fjarlæg lönd, dagskrána framundan hjá Fjallahjólaklúbbnum, hjólagræjur og hvaðeina.  Ég er ægileg prinsessa þegar kemur að svefnvenjum.  Þarf helst að sofa á hvítu laki og hafa blómamynstur á koddum og sæng.  Það er langt síðan ég svaf síðast í svefnpoka og átti von á að nóttin yrði erfið.  En merkilegt nokk, ég sofnaði kl 01 og rumskaði ekki fyrr en kl 10 næsta morgun.  Þá handviss um að klukkan mín væri biluð og hefði stoppað kvöldið áður.  En ilmurinn af ný löguðum hafragraut lagði inn til mín og nokkuð ljóst að ég var búin að sofa óslitið í 9 tíma.  Það sem fjallaloftið gerir manni gott.  Allt verður einhvern tíma fyrst, ég hef aldrei smakkað hafragraut með rúsínum og kanelsykri.  Bragðaðist bara ljómandi vel.

 

09 13 007

 

Veðrið hafði ekkert skánað frá deginum áður og var meira að segja ívið blautara.  En við vorum með vindinn í bakið og fukum til Hafnarfjarðar á mettíma.  Áðum hjá fallegum hraundröngum og kláruðum nestið og konfektið frá kvöldinu áður.  Nýju hjólabuxurnar mínar reyndust vera vatnsheldar eins og framleiðandinn lofaði, en regnvatnið hafði runnið niður eftir þeim og bókstaflega fyllt skóna mína.  Hitinn var áfram  kring um 15 stig svo okkur var ekkert kalt þótt við værum svolítið blaut.  Þá hófst leitin að góðri hjólaleið frá Hafnarfirði að Garðabæ.  Ekki var hún auðfundin, en fannst loks eftir smá leit um iðnaðarhverfið.  Ó, hve það var þægilegt að skríða upp í sófa með teppi, heitt kakó og góða bók þegar ég kom heim úr þessari líka ánægjulegu hjólaferð.

 

Hér má sjá myndband úr ferðinni:

 


Klæðaburður

Þegar ég var tvítug var ég afskaplega horuð, ekkert nema skinn og bein.  Mér hefur iðulega fundist kvenfólk fallegra ef það er aðeins þrýstið og reyndi eins og ég gat að fita mig á þessum tíma, drakk meira að segja glas af rjóma á hverju kvöldi.  Án árangurs, ég var alltaf sama horrenglan.  Ég var í pönkinu á þessum tíma, oft klædd í leðurbuxur og leðurjakka, keðjur, rifna boli og svartar blúndur.  Þegar ég lenti í bílslysinu 1984 þurfti að klippa utan af mér fötin.  Ég harðbannaði þeim að vísu að klippa leðurjakkann, vildi frekar þola að vera klædd úr honum, hrygg og mjaðmagrindarbrotin.  En þar eð ég var að reyna að vera þrýstin skvísa var ég í bara og aðeins 5 gammosíum undir leðurbuxunum, þar af tvær ullar stil-longs.  Ég gleymi ekki svipnum á hjúkkunni sem fór með sundurklippta gammosíu-staflann í ruslið, henni hefur ábyggilega fundist þetta afskaplega skrýtin múnderíng í heitum júní mánuði.

web1982

Ef það þyrfti að grafa mig grútskítuga upp úr skurði í dag eftir umferðaslys (ég þá á hjólinu) og klippa utan af mér larfana gætu menn á slysadeild rekið upp stór augu.  Yst fata er ég iðulega í sjúskuðu gulu endurskinsvesti, trosnuðu á köntunum og með bikslettur sem fara ekki úr við þvott.  Þar undir er ég oftast í karlmanna flíspeysu eða renndum bol en þar undir er ég svo í afskaplega fallegum rauðum glimmer og pallíettu-topp sem mamma keypti á Spáni fyrir nokkrum árum.  Svona eins og prinsessa í álögum.  Ég uppgötvaði í sumar að þessi bolur væri bara assgoti fínn hjólabolur þegar öll föt voru orðin skítug og mig vantaði þunnan og þægilegan bol til að hjóla í.  Þornar fljótt, svitalykt festist ekki í honum, mér er ekki of heitt í honum undir annarri flík og ég er þá ekki nakin undir ef ég þarf að renna niður þegar ég fer inn í búð.  Nú og svo er ég ballfær ef ég einhverra hluta vegna þyrfti að skella mér fyrirvaralaust á djammið úr hjólatúr, annað eins hendir mann nú öðru hvoru...


Mér fannst eitthvað vanta

"Ég ætla ekki að..." og orðið var gripið á lofti af móður minni.  "Þú færð utanlandsferð ef þú fermist."  Þar með voru örlög mín ráðin, ég fór í fermingarfræðsluna og fermdist síðan með pompt og prakt.  Svo sem allt í lagi með það, og ég á þessa líka fínu *hóst* fermingarmynd sem minningu um daginn.

fermingarmynd

Ég hef hjólað til vinnu, mína venjulegu leið um Langholtsveginn eftir sumarfrí og fannst eitthvað vanta.  Kom því samt ekki alveg fyrir mig hvað vantaði.  En auðvitað var það hann Helgi með mótmælaspjöldin sín "sem vantaði".

 helgi

Vinkona mín ákvað að skíra ekki son sinn þegar hann fæddist, ein ástæðan var að hún gat ekki hugsað sér að hann yrði jafn ósáttur við skírnina og Helgi sálugi.  Segið svo að kallinn hafi ekki haft áhrif. 

Ég sakna þess að sjá hann ekki á horninu sínu.  Blessuð sé minning hans!


Sástu reiðhjól - líttu aftur

Þetta slagorð hefur iðulega verið notað um mótorhjól, ökumenn vanmeta fjarlægðina sem mótorhjólið er í, af því það er mun minna en bíll.  Nákvæmlega sama gildir um reiðhjól.

 Þar sem ég var á harðaspani í Borgartúninu, í 3.7 gír, eins hratt og druslan dreif (ég er að tala um hjólið, ekki mig) þá sá ég ökumann stæðilegs jeppa líta á mig, líta í hina áttina og svo út á götu beint í veg fyrir mig.  Hann náði að klossbremsa í tíma, annars hefði ég smurt mér yfir stuðarann hans og endað sem miður geðslegt húdd-skraut. 

Ekki var ég illa eða lítt sýnileg, ég er komin í vetrarbúning, eiturgult vesti með endurskinsborðum.  Hann hefur bara vanmetið hraðann sem ég var á.

 


Berbakt um bæinn

Þar eð ég er með ímyndunar-svínaflensu dauðans (hausverk, beinverki, svima, ljósfælni en engan hita), þá kunni ég ekki við að láta sjá mig á geirvörtunum í bænum.  Og vildi ómögulega næla mér í lungnabólgu.  En vildi samt sýna lit og smá hold.  Svona í tilefni dagsins.  Menningarnótt og fyrsti Berbakt-um-bæinn hjóla-atburður held ég nokkurn tíma hérlendis.

Fyrst var ég að spá í slagorðið "Mér finnst rigningin góð" en þegar það leit ekki út fyrir rigningu, þá ákvað ég annað slagorð.  Til heiðurs túristunum sem ég hef hjólað fram hjá undanfarnar vikur.

08 22 020

Ég hef hjólað til vinnu léttklædd í sumar, þess vegna oft á hlýrabol og stuttbuxum.  Finnst rosalega notalegt að hjóla til vinnu í 10 stiga hita og sól.  Jei, gleði, gaman, Íslenskt sumar.  En svo hjóla ég fram hjá túristunum hjá Sólfarinu, króknandi úr kulda í sama veðri, í ullarpeysum, úlpum þar utan yfir, húfum á hausnum og með skelfinarsvip á andlitinu.  Þegar ég þeysi léttklædd framhjá.

Það má vera að það birtist myndir af bakinu á mér einhvers staðar annars staðar á netinu, og þá með meinlegri stafsetningarvillu, Naked bik ride, það er kallinum að kenna, hann fékk það hlutverk að skrifa slagorðið á skrokkinn á frúnni!

Myndbanið er komið á youtube, er á barnum hér til vinstri og líka hér:


Þær eru góðar pizzurnar á Hamraborg

Merkilegt nokk, þá sat ég fyrir innan þennan glugga í síðasta mánuði.  Ásamt strákunum mínum.  Að borða alveg ljómandi góða pizzu.  Þegar ég las fréttina var ég raunar steinhissa að þetta hefði ekki gerst á meðan ég sat þarna.  Ég hef lent í umferðaróhappi á 7 ára fresti allt mitt líf og finnst einkennilegt hvað ég lendi oft í bílslysum miðað við aðra.  Eins og ég sé með eitthvað skrítið bílslysakarma.  Og líka skrítið að það séu alltaf ca 7 ár á milli slysa.

7 ára tók Lilla frænka fram úr trukk sem tók vinstri beygju í veg fyrir hana.  Ég slasaðist aðeins á fæti, en bíllinn hennar Lillu endaði í brotajárni.

15 ára var ég komin á skellinöðru, lenti í tveimur óhöppum á henni, þurfti að nauðhemla þegar vörubíll ók í veg fyrir mig, féll í götuna og rann undir bílinn.  Slasaðist ekki við þetta, rispaði bara leðurgallann.  Í hitt skiptið tók maður U beygju í veg fyrir mig og ég kastaðist yfir bílinn og lenti í götunni.  Rotaðist smá stund og klemmdist illa á fæti, púströrið á skellinöðrunni beyglaðist eftir löppina á mér.

21 árs lendi ég í versta slysinu.  Þá missti ég af strætó í Hafnarfirði og húkkaði far til að komast sem fyrst á djammið.  Ungur maður stoppaði og bauð mér far, en missti stjórn á bílnum og keyrði á ljósastaur í Kópavogi.  Bíllinn fór margar veltur og ég kastaðist út úr honum.  Hrygg og mjaðmagrindarbrotnaði og skarst eitthvað, var rúmliggjandi í eina 6 mánuði.  Ungi maðurinn slasaðist mikið, fékk áverka á heila og er öryrki í dag.

27 ára var ég stopp á rauðu ljósi á Hringbrautinni við Njarðargötu.  Bílstjórinn fyrir aftan mig var að horfa út á flugbraut, ég horfði í baksýnisspegilinn og vissi að ég myndi fá hann aftan á mig.  Það voru engin hemlunarför hjá honum.  Það var rúta fyrir framan mig og bílinn skrúfaðist undir hana og breyttist í torkennilega járnahrúgu.  Ég fékk hálshnykk, taugaskaða og annar handleggurinn lamaðist.

34 ára var með með son minn á leið til dagmömmu, beið á Bústaðavegi eftir að geta tekið vinstri beygju.  Ungur maður áttaði sig ekki á því að ég væri stopp og keyrði aftan á mig.  Ég fékk aftur hálshnykk, en sem betur fer ekki eins alvarlegan og þegar ég var 27 ára.  Strákurinn minn var í bakvísandi stól, svo hann slapp við meiðsli.

Ja, ég var að fatta að það eru liðin 11 ár frá síðasta slysi.  Ætli ég sé sloppin?  Eða lenti ég í einhverju óhappi 41 árs sem ég man ekki eftir?

Annars tókst mér að afstýra svipuðu óhappi á meðan ég var á Ísafirði í síðasta mánuði.  Móðir mín var að fara að bakka út úr stæði, en í staðinn fyrir að setja í Reverse, setti hún í Drive.  En áður en hún steig á bensínið og mölvaði rúðuna á Hafnarbúðinni, tókst mér að stoppa hana af.


mbl.is Ók á verslun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

45 ára í dag

Hálf níræður er svo sem ekkert merkilegt afmæli.  En er það samt í mínu tilfelli.  Ég ákvað nefnilega fyrir 2-3 árum síðan að fara í magaminkun (gastric bypass) þegar ég yrði 45 ára ef mér tækist ekki að snúa blaðinu við og taka upp heilbrigðari líferni.  Ég komst ekki lengur niður í þvottahús, þurfti að biðja kallinn um að taka þvottakörfuna með sér niður og skila henni upp eftir þvott.  Til að komast stigann heima hjá mér þurfti ég liggur við að ræsa út hjálparsveit.  Ég hef verið mikil útivistarmanneskja í gegn um tíðina og er í gönguklúbb með hressum kellum á sextugsaldri.  Ég, verandi unglingurinn í hópnum, 43 ára, treysti mér einfaldlega ekki í fjallgöngu í þáverandi ástandi.  Til að komast í fjallgöngu með gönguklúbbnum, yrði ég að léttast og auka þolið.

Á hverjum sunnudegi varði ég dágóðum tíma í að tína allra handa lyf ofan í lyjabox.  Lyf til að bæla verki, til til að bæla óeðliega taugaverki, lyf til að lækka kólesterol, lyf til að lækka gallsýrur, lyf til að lækka blóðsykur, lyf til að bæta sykurstjórnun og það stefndi í þunglyndislyf til að hífa geðið upp, en skiljanlega var maður orðin pínu niðurdreginn verandi offitusjúklingur með stóru O-i.

Ég skal alveg viðurkenna að í fyrra þegar ég tók þessa ákvörðun átti ég frekar von á að ég sæti við símann að panta tíma hjá skurðlækni, en sitja og panta hjólaföt á netinu.  Í fyrra var ég í stærð 56, í dag er ég í stærð 46 og get verslað föt í "venjulegum" búðum.  Ég er búin að leggja öllum lyfjum, nema sykursýkislyfjunum, ég er búin að minnka skammtinn á þeim og vonandi ekki langt í að ég geti lagt þeim alfarið.  Þá verð ég "lyfjalaus" í fyrsta skipti í ein 10 ár.

Ég er svo sem ekkert sérlega hrifin af því að birta mynd af mér eins og ég leit út þá, en ef þetta gæti orðið einhverjum hvatning til að breyta um lífsstíl og breyta lífi sínu til hins betra og bæta líðanina u.þ.b. þúsundfalt á aðeins einu ári, þá ætla ég að birta verstu mynd af mér allra tíma.  Og með fylgir mynd eins og ég lít út í dag.  Eina sem ég gerði var að breyta lífsstílnum, hreyfa mig meira (hjólreiðar) og borða aðeins minna.  27 kíló farin af 40 óþarfa aukakilóum sem ég sankaði að mér á 10 ára tímabili.

2007-2009


Reykjanes á Vestfjörðum

07 26 004 

Ég ákvað að hjóla í kring um Reykjanesið á Vestfjörðunum á leið minni frá Ísafirði til Reykjavíkur.  Til að komast hring varð ég að taka Eyrarfjallið með inn í myndina, en það er hækkun upp á ríflega 300 metra.  Ég spáði og spekúleraði hvernig væri best að gera þetta og ákvað að keyra upp á mitt Eyrarfjall, skilja bílinn eftir þar, hjóla niður af fjallinu norðan megin, taka malarveginn fyrst.  Hjóla svo malbikið sunnan megin að veginum upp á Eyrarfjall, skilja hjólið eftir þar og labba upp að bílnum.  Sækja svo hjólið á bílnum.  Þetta ferðalag er nokkurs konar tvíþraut, 55 km hjólreiðar og 5 km fjallganga.

07 25 020

Ég var á hjóli sem ég var óvön, það er framtíðarhjól eldri sonarins og hefur verið notað sem tengihjól fyrir yngri pjakkinn í sumar.  Það er ekki bögglaberi á því og því þurfti ég að hafa allan farangur á bakinu.  Það spáði rigningu, svo ég var með regnstakk, auka flíspeysu og buxur í bakpokanum.  Ætlaði sko ekki að lenda í því að hjóla Reykjanes Vestfjarðanna á brjóstahaldaranum eins og þegar ég hjólaði Reykjanesið á suðvestur horninu, þá var veðrið í upphafi ferðar sól, 22 stiga hiti og logn, en þegar ég var rétt hálfnuð dró ský fyrir sólu, lognið breyttist í rok á móti og hitinn lækkaði niður í ca 7-8 stig.  Ég var svo stíf af kulda að ég gat varla hjólað, en aukafötin gleymdust í bílnum.

07 25 021

Sitthvað fleira var í bakpokanum, brúsi með heitu vatni og 1 lítri af köldu vatni, fátt finnst mér verra en verða vatnslaus á ferðalagi, og þegar ég var hálfnuð niður af fjallinu fattaði ég að ég var með stóru vidocameruna í stað litlu myndavélarinnar.  Vélin vegur 1.5 kíló og þó að það sé nú ekki mikið, þá munar ótrúlega miklu um það þegar maður ber það á bakinu í nokkra klukkutíma.  Enda var ég ekki búin að hjóla lengi þegar ég fór að dofna í öxlinni og öðrum handleggnum, það tóku sig upp gömul meiðsli, en annar handleggurinn lamaðist þegar ég fékk hálshnykk í bílslysi árið 1991.  Doðinn jókst og þegar fingurnir hættu að láta að stjórn og ég gat ekki skipt um gír varð ég að stoppa og endurmeta stöðuna.  Byrjaði á að fá mér kaffi úr heita brúsanum og hella niður kalda vatninu sem ég gat ekki drukkið á staðnum.  Það vantaði brjóstól á bakpokann sem hefði breytt miklu.  Pokinn var töluvert léttari, en ég var samt ennþá ansi kvalin og dofin.  Svo ég neyddist til að stoppa aftur og létta bakpokann enn frekar, kom videovélinni ásamt öllu sem ég gat verið án í plastpoka og kom honum fyrir á vísum stað sem ég myndi þekkja aftur þegar ég kæmi á bílnum einhverjum klukkutímum seinna að sækja hann.  Eftir í bakpokanum var regnstakkurinn, þunn flíspeysa og buxur, nesti (næringarduft og kex), sjúkrakassi, viðgerðasett sem fylgdi með hjólinu, pumpa og bætur.  Maður kemst í nægt vatn á leiðinni, mikið af fallegum fjallalækjum allan hringinn.  Og ég komst að því að ég var með litlu myndavélina með mér, hún var á botninum á bakpokanum.

07 25 033

Eftir á hefði mér fundist skynsamlegra að skilja hjólið og bakpokann eftir uppi á Eyrarfjalli, keyra niður sunnan megin og byrja hringinn á að labba upp á fjall.  Það er svolítið skrítið að fara í fjallgöngu þegar maður er búinn að hjóla í nokkra klukkutíma.  Ég var smá tíma að finna góðan göngutakt, lappirnar voru ennþá í hjóla-tempói.

07 26 002

Ef fólki finnst skrítið að sjá fólk á hjóli fjarri byggð, þá finnst fólki ennþá skrítnara að sjá fólk gangandi eitt síns liðs.  Það var alla vega töluvert stoppað og spurt hvort ég þarfnaðist aðstoðar á meðan ég gekk upp á Eyrarfjall.  Bæði Íslendingar og útlendingar.

07 25 035

Þegar ég var búin að þramma upp í mót í klukkutíma fannst mér eins og einhver kallaði á mig frá mosavöxnum klettavegg rétt utan við veginn.  Ég ákvað að hlýða kallinu og labbaði smá spotta frá veginum.  Þá opnaðist þetta líka fallega útsýni fyrir kvöldsnarlið.  Þarna áði ég lengi, þakklát álfunum og tröllunum sem bjuggu þarna sem kölluðu á mig, svo ég myndi ekki missa af þessum fallega áningastað.  Stóðst freistinguna að klifra niður gilið og blanda mér í Álfagleðina, en myndin sýnir ekki vel hlutföllin, það voru nokkrir tugir metrar niður á botn.

07 25 037

Og hvað það var dásamlegt að líða ofan í heita sundlaugina í Reykjanesi og láta þreytuna líða úr sér.  Svo tróð ég mér inn á ættarmót á tjaldstæðinu, ekki veit ég hvaða ætt þetta var, en fólkið var ættað frá Vestfjörðunum og ég ábyggilega skyld þeim að einhverju leiti, fædd og uppalin á Ísafirði.  Svo við sátum, drukkum bjór, spjölluðum og sungum fram á rauða nótt.


Óvissuferð Fjallahjólaklúbbsins

Og seinni hlutinn:


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband