Hver nennir að hjóla í þessu veðri

Skítaveður. Ef þetta er ekki dagurinn til að hanga heima, fúlskeggjuð á hlýrabolnum, með bjór í annarri æpandi ÁFRAM ÍSLAND! Þá veit ég ekki hvað...

Nei, nei, maður verður nú að vinna sér inn fyrir bjórnum, það verður farið út að hjóla!  Það er ekki freistandi að taka langa hjólatúra í roki og rigningu, en þá er fínt að koma við í sundinu og fá smá smá yl í kroppinn, þá hefur maður úthald í annan hjóla-hálftíma.

Ég hef verið með önnur plön báða dagana sem Ísland var að spila.  Í bæði skiptin hef ég horft á leikina og þurft að fara þegar 5 mínútur voru eftir af leiknum.  Í bæði skiptin voru þetta unnir leikir, 3ja marka forskot.  Frétti svo úti í bæ að leikirnir enduðu með jafntefli.  Ég er með samviskubit.  Þetta er allt mér að kenna.  Af því ég stóð upp og fór.  Kláraði ekki leikina.

Í kvöld mun ég sitja sem límd við sófann á meðan leik stendur, ég mun ekki einu sinni standa upp til að míga!  Maður verður nú að leggja eitthvað á sig fyrir Strákana sína...


mbl.is Leikurinn er ekki fyrir þá sem þola illa spennu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skautar

Það eru ein 30 ár síðan ég steig síðast á skauta.  Þegar ég var krakki á Ísafirði fórum við á hverjum einasta degi niður að Rækjuverksmiðjunni og skautuðum þar á affallsvatninu.  Fínasta skautasvell og nógu stórt til að rúma allan púkaskarann.  Og ef það var ekki nógu mikið frost og ísinn ekki nægilega traustur, þá var vatnið bara hnédjúpt, svo það var engin hætta á ferðum.  En hjálpi mér fnykurinn af manni ef ísinn brotnaði og maður lenti ofan í gúanóinu.

01-17 055

Það er alveg eins með skauta eins og reiðhjól.  Ef maður hefur einhvern tíma lært á þetta, þá gleymist það aldrei.  Kom mér á óvart hvað ég var flink, gat farið töluvert hratt og stoppað á punktinum.  Meira að segja skautað afturábak.  Datt bara einu sinni, þá var ég einmitt að hugsa að ég væri bara assgoti góð, en þá er nú gott að vera svolítið bólstraður og hafa mjúkan rass til að detta á.

Ef við hefðum drifið okkur út á svellið í desember eða fyrr, þá hefðu verið skautar í jólapökkum strákanna.  Já og mínum líka!

Copy of 01-17 067

Litli gormur var að fara í fyrsta sinn og eftir einn hring settist hann með skeifu á bekkinn.  Hundfúll yfir að mamma væri að hanga í honum.  Hann vildi fá að skauta einn eins og hinir!  Sem hann fékk með aðstoð grindar.  Og í lokin var minn maður farinn að skauta einn með aðra hendi fyrir aftan bak, bara eins og professional.

01-17 054

Meira að segja unglingurinn vildi koma með, það hafa allir gaman af því að skauta, alveg sama hvað þeir eru gamlir.

01-17 057

 


Vona að ég finni ekki nektarmynd af mér á netinu

Ég er fædd og uppalin á Ísafirði og hef farið skrilljón sinnum í þessa sundlaug.  En hef ekki orðið vör við þetta vandamál, kannski ekki fattað að maður sé að afklæða sig fyrir framan Pétur og Pál.  Og ég er svo heitfeng að ég stend iðulega alveg við gluggann og læt ferskt loftið leika um mig eftir sundið.

Í gamla daga var kvennaklefinn kvennaklefi og karlaklefinn karlaklefi.  Karlaklefinn var ívið stærri og þar var komið fyrir gufubaði.  Sem olli því að kellurnar risu upp á afturlappirnar og heimtuðu að fá líka gufubað.  Kvennaklefinn er hins vegar ca 20 fermetrar og ekki séns að koma fyrir gufubaði þar.  Svo núna er skipt reglulega, suma daga fer maður til hægri, aðra til vinstri.  Heyrst hefur af ákveðnum stjórnmálamönnum sem geta ekki hugsað sér að fara í sund á röngum dögum.  Og hættan á að vaða inn á gagnstætt kyn hefur aukist umtalsvert.

Humm, er þetta að verða ár hinna miklu játninga, ég var svolítið að prakkarast og kíkja inn í strákaklefann á unglingsárunum, og auðvitað voru strákarnir að opna dyrnar hjá okkur og kíkja inn.  En ég er búin að borga það til baka.  Ég ruglaðist þegar ég ætlaði á klósettið í búningsklefanum sem hýsti áður karlmenn eingöngu, stormaði fram og til baka í leit að klóinu og endaði berrössuð úti á laugarbakkanum við mikla lukku viðstaddra sundlaugargesta.


mbl.is Óánægja meðal nemenda með baðaðstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mansal - Ég játa

Ég játa.  Ég hef tekið þátt.  Mér til afsökunar vissi ég ekki að strákarnir hennar Línu væru fórnarlömb mansals.

Lína rak Kínverska nuddstofu í Kópavogi og strákarnir voru fluttir hingað frá Kína til að nudda holdugar miðaldra Íslenskar húsmæður.  Síðar kom í ljós að strákarnir fengu ekki greidda krónu fyrir viðvikið, fengu bara svefnstað, mat og smáaura til einkaafnota.  Þeir voru held ég lærðir nuddarar, alla vega voru þeir déskoti góðir og bakið á mér tók miklum stakkaskiptum til hins betra eftir að hafa sótt strákana heim í nokkrar vikur.

massageCat

Nuddið var svolítið skrítið ef ég miða við það sem ég hef fengið hjá Íslenskum nuddurum og sjúkraþjálfurum.  Ég var stungin með nálum, lamin duglega með handarjörðunum, kreist og klipin, og svo hoppuðu strákarnir upp á nuddbekkinn og hnoðuðu mig með iljunum.  Löbbuðu meira að segja upp og niður hryggjarsúluna.  Þeir voru allir léttir og grannir, nema einn sem var þokkalega hávaxinn og digur á Kínverskan mælikvarða, og ég svitnaði iðulega þegar hann kom og benti mér að koma með sér.  Vissi að þann daginn fengi ég extreme og "þunga" meðferð.

Ég hefði aldrei trúað því að óreyndu að það gæti verið svona gott að láta karlmenn traðka á sér.  En eftir að ég komst að sannleikanum um mansal Línu, þá gat ég samvisku minnar vegna ekki notið þjónustunnar lengur.  Ekki nema fara að tipsa strákagreyin.  Þeir hefðu getað misskilið það og haldið að ég væri að biðja um meiri og persónulegri þjónustu...


mbl.is Áfram í gæsluvarðhaldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nagladekk nauðsynleg

Ég var tímanleg þennan vetur, keypti nagladekk í ágúst sem fóru undir hjólið við fyrstu frostamerki í oktober.  Viku síðar var hjólinu mínu stolið og ég keypti annað sett af nagladekkjum.

Það var sprungið hjá mér í morgun og þar sem ég hafði ekki tíma til að gera við eða skipta um slöngu að aftan, blikkaði ég kallinn og fékk hans hjól lánað.  Vissi að þá yrði mitt hjól viðgert og hjólafært þegar ég kem heim í kvöld.  Hans hjól er hins vegar ekki á á nöglum og ég var rétt komin 20 metra þegar ég flaug á hausinn.  Hvílíka glerhálkan á götum Reykjavíkur.  Alveg bráðnauðsynlegt að vera á nöglum þessa dagana.  Þ.e. ef maður er á reiðhjóli.

Meiddi mig ekki mikið, skrapaði skinnið af hnjánum og það bættist aðeins í marblettasafnið.  Hjálmurinn skall svolítið hraustlega í götuna, á eftir að skoða hann og meta skemmdir, þarf líklega að skipta honum út.  Huasnin er smat alevg jfan gðuór og áuðr! 

Ef þú skilur ekki síðustu setninguna þá hefur þú ekki verið á Facebook síðustu viku Tounge


mbl.is Hálkublettir austan Selfoss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef það er eitthvað nýtilegt í mér, þá má hirða það

Finnst rauninni skrítið að það sé ekki búið að setja nein lög hérlendis um þessi mál.  Ég er með svona lítið blátt kort í veskinu, þar sem kemur fram að það megi nota líffærin úr mér eftir andlát.  En það hefur ekkert lagalegt gildi, ættingjar mínir ráða eftir sem áður hvort líffærin verða nýtt eða hvort þau verða grafin með mér eða brennd.

Og hvernig á framkvæmdin að vera?  Skrá þetta í ökuskírteinið?  Hérlendis gilda ökuskírteini til 70 ára aldurs.  Sumir eru ekki með ökuskírteini.  Á þá að gefa út ný skírteini á alla núlifandi Íslendinga, 17 ára og eldri hvort sem þeir eru með ökuréttindi eður ei?  Þá réttindalaus ökuskírteini á suma eins kjánalega og það nú hljómar.  Eigum við að skrá þetta á skattaskýrsluna, og svo geta valdir aðilar innan heilbrigðisgeirans flett upp kennitölunni í gagnagrunni og séð óskir hins látna?

Mér lýst alla vega vel á finnsku leiðina, að sjálfkrafa séu allir lögráða líffæragjafar, en fólk hafi þó möguleikann á að hafna því að gerast líffæragjafi.


mbl.is Líffæragjöf verður sjálfkrafa í Finnlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jólakaffi á Mosfellsheiðinni

12-26 030

Jólakaffið var fremur óhefðbundið þetta árið, ég ákvað að klára þennan hring í Mosfellsdalnum sem ég byrjaði á fyrir tveimur vikum.  Það var 3 stiga frost og nokkuð stífur vindur.  Ég fann skjólgóða laut á heiðinni, fékk mér möndlukökur og kaffisopa.

12-26 024

Þetta var fremur grófur línuvegur, sæmilegur framan af, en breyttist svo í grófan slóða.  Sennilega fremur illfær ef jarðvegur er blautur, en nú var hann vel frosinn og ég gat auðveldlega hjólað þetta.  Rámaði í að ferðafélagar mínir Bryndís og Garðar hafi hjólað þennan línuveg fyrir nokkrum árum, þá á leiðinni til baka frá Þingvöllum.  Bryndísi þótti vegurinn afar slæmur og hún talaði um að þau hafi þurft að teyma hjólin í langan tíma.  Ég var að hugsa að þetta væri nú ekki svo slæmt, þegar einhverjum álfinum hefur þótt ráðlegt að lækka í mér rostann, það var eins og einhver hefði sparkað mér snögglega á hliðina, skarta núna 7 marblettum frá ökkla upp á upphandlegg.  Hér datt ég, þessir steinar voru ekki beint þægilegir að lenda á, en þá er gott að vera svolítið bólstraður, ég er farin að hafa smá áhyggjur af því að ég fari verr út úr byltunum þegar (ekkert "ef" lengur) ég kemst niður í kjörþyngd.  Var að skoða kortið og staðurinn heitir Illaklif, mjög viðeigandi örnefni:

12-26 035 

12-26 013

En allt slíkt gleymist við fallegt útsýni, ferskt heiðaloftið og kyrrðina..., eh, nei, ekki er hægt að tala um kyrrð, vindurinn söng og kvein í rafmagnsmöstrunum.

12-26 003

Ég var svolítið dúðuð á minn mælikvarða, í ullarbol innst, svo þunn æfingatreyja þar utanyfir og svo önnur æfingatreyja yst fata.  Ég gleymdi vestinu og hjálminum heima.  Ætlaði að vera í gula endurskinsvestinu og hefði þá sleppt annarri treyjunni.  Ég kippti henni með svo ég gæti farið í þurra treyju ef ég skyldi blotna á leiðinni.  Betra að vera með aðeins of mikið af fötum með sér en aðeins of lítið.  Svo var ég í þunnum ullarbuxum og venjulegum hjólabuxum utanyfir.  Í þunnum ullarsokkum og vinnuskóm kallsins, þ.e. ég rændi þeim af honum fyrir ári síðan.  Fer ekki að finna fyrir kulda í þeim fyrr en í -10 stiga frosti, ef það er sterkur vindur.  Flíshúfa, legghlífar og skíðahanskar.

12-26 018

Hvað er þetta með mig og Mosfellsdalinn?  Gemsinn minn verður alltaf rafmangslaus og ég næ ekki niður á veg fyrir myrkur.  En ég náði sólarlaginu þrisvar sinnum, af því ég var á leiðinni upp á heiðina þegar sólin settist.

12-26 043

Ég var eiginlega heppin að það skyldi vera frost, því það þarf að fara yfir ána Bugðu, og mér sýndist hún vera töluvert vatnsmeiri en Leirvogsáin sem rennur hinu megin í dalnum.  En áin var alveg frosin og ísinn virtist vera 20+ cm á þykkt, annars hefði ég kannski neyðst til að fara aftur til baka, og það hefði ég gert frekar en fara mér að voða.  Nei, þetta er ekki Bugða, maður hoppar bara yfir svona sprænur.  Svolítið varasamt að fara yfir brúna, hún lítur ágætlega út þegar maður kemur að henni...

12-26 039

En svo var ástandið svona þegar betur var að gáð:

12-26 040

12-26 028

12-26 010


Fyrir þá sem misstu af Coca Cola lestinni

Þá ætla ég að dressa mig upp í jólasveinabúning og hjóla með jólakortin til vina og ættingja á höfuðborgarsvæðinu.  Með blikkandi ljós að sjálfsögðu.  Til að hjólalestin verði tilkomumikil verð ég með nokkra flotta meðreiðarsveina....

hjolasveinar


Tröllafoss - Mosfellsdalur

12-06 005 

Ætlaði að taka léttan hring i Mosfellsdalnum í dag.  Hafði fyrr í haust lesið um Tröllafoss en greinilega búin að gleyma öllu sem ég las.  Þessi hringur er tæpir 20 km og ég bjóst við að vera hámark 2 tíma í ferðinni.  Með áningu við Tröllafossinn sjálfan.  Well, hlutirnir vilja oft fara aðeins öðru vísi en maður ætlar.  Ég ætlaði að hjóla fjólubláu og rauðu leiðina, en varð að stytta túrinn.

Tröllafoss

Vegurinn var þokkalegur malarvegur framan af, ég jafnvel hugsaði með mér að þetta væri auðveldara en að hjóla á milli Garðs og Sandgerðis á jafnsléttu.  En leiðin breyttist fljótlega, ég var ýmist á fínasta skautasvelli, snjóskafli, moldarsvaði eða ofan í djúpum pollum.  Þetta varð því að gönguferð með hjólið, frekar en hjólaferð.

12-06 012

Ég gekk öðru hvoru fram á brúnina til að finna fossinn, en tókst með minni vanalegu heppni að missa af honum.  Ekki það að útsýnið hafi ekki verið magnað og náttúran falleg, en ég ætlaði nú einu sinni að berja þennan foss augum.

  12-06 010

En ég vissi að náttmyrkrið myndi skella á upp úr kl 16, og þar sem slóðinn hvarf öðru hvoru var ég ekki viss um að rata aftur til byggða eftir myrkur.  Gemsinn minn var líka orðinn rafmagnslaus svo ég ákvað að drífa mig út á malbik frekar en fara til baka og leita að fossinum.  Það má alltaf fara seinna við betri aðstæður.  Þetta hefði sennilega verið lítið mál um síðustu helgi, þá var frost en ekki búið að snjóa eins mikið, þá hefði færðin verið betri. 

12-06 016

Sko, maður er aldrei ánægður.  Í dag var logn, 4 stiga hiti og sól.  Þá kvartar maður yfir því að það hafi ekki verið nógu kalt.  Meira að segja hægt að ganga léttklæddur í "vetrarhitanum"

12-06 014

Þegar ég las um Tröllafossinn fyrr í haust ákvað ég að taka með vaðskó, því það þarf að vaða Leirvogsána.  Auðvitað mundi ég ekkert eftir því þegar ég var að pakka niður fyrir ferðina.  Ég tók ekki einu sinni með nesti, þetta átti að vera svo létt og auðvelt.  Ég hætti fyrst við að fara yfir ána, var ekki með handklæði og var ekki alveg til í að vaða hana berfætt á þessum árstíma.  Teymdi hjólið meðfram árbakkanum nokkurn spöl í leit að betra vaði.  Ákvað svo að steðja beint yfir melana og teyma hjólið yfir að Þingvallavegi, en þar eð jarðvegurinn var ansi þúfóttur og grasið hátt, þá gafst ég fljótlega upp á þeim barningi.  Ég náði líka að hlunkast ofan í smápoll á leiðinni, svellið gaf sig og ég fór ofan í upp fyrir ökla.  Svo ég gat allt eins vaðið ána, úr því ég var orðin blaut í lappirnar.  Fann stíginn fljótlega og var komin niður á Þingvallaveg eftir nokkrar mínútur.  En þá var ferðin búin að taka rúma 2 tíma og ég ekki hálfnuð með leiðina.  Farið að dimma og mér orðið kalt.  Ákvað að stytta túrinn og geyma hinn helminginn til betri tíma.  Ótrúlegt að lenda í óbyggðahremmingum fokking hálftíma frá Reykjavík

12-06 001

12-06 006

 


Sól, sjór og bjór

Næstum því.  Sól, sjór og hjól.  Reykjanes í nóvember.  Sólin breyttist raunar í slyddu á köflum.  Ákvað að skreppa í sund í Sandgerði.  Kippti hjólinu með ef ég skyldi vera í hjólastuði.  Sem ég er alltaf.

11-28 001

Byrjaði í Keflavík, hjólaði gegnum Garð niður að Garðskagavita, þaðan yfir til Sandgerðis, en var of sein í sundið, það lokaði kl 15.  Þá var bara að hjóla áfram inn í Keflavík og dýfa sér ofan í Vatnaveröldina.  Oh, notalegt.

uvs091129-003

Þetta er held ég það allra flatasta sem ég hef hjólað.  Ekki ein einasta brekka, varla að vegurinn hallaði nokkurn tíma.  Malbikað alla leið, en malbikið slæmt á stöku stað, t.d. rifur í bikinu og frá Garði að Sandgerði var nýlögð olíumöl sem var verri yfirferðar en malarvegur.

11-28 003

Það var töluverð umferð bíla, ég er aðeins að sjóast í umferðinni, fyrst þótti mér óþægilegt að hjóla í götunni heima, fannst alltaf eins og einhver væri í þann veginn að fara að klessa á mig.  Svo vandist ég að hjóla á götum með hámarkshraða 50, og núna var ég salíróleg þó að stórir trukkar með tengivagna brunuðu fram úr mér á ofsaferð.  Bara hressandi.  Ætli maður endi ekki á þjóðvegi eitt fyrir rest.  Kannski hjóla ég hringinn í kring um Ísland þegar ég verð sextug, en þá get ég hætt að vinna og farið á eftirlaun.

11-28 010

Þetta voru ca 25 km og mér fannst ég varla lögð af stað þegar ég var komin aftur til Keflavíkur, full stuttur hjólatúr.

uvs091128-001

11-28 004

gardur_sandgerdi


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband