1.5.2012 | 01:16
Teikn að ofan
Ég átti erindi út í Hafnarfjörð með póst, ruglaðist á heimilisföngum og fattaði þegar ég kom að húsinu að þetta væri nunnuklaustur Karmel systra. Hér er greinilega verið að vekja mig til umhugsunar um eitthvað. Kannski þyrftu skrif mín og myndbirtingar hér að vera á ögn kristilegri nótum...
Á planinu voru nokkrir ungir menn að vinna við sorphirðu og glottu þeir út í annað þegar mig bar að garði. Ekki veit ég hvort þeir könnuðust við mig, ég geng ýmist undir nafninu Hjóla-Hrönn eða Dóna-Hrönn þessa dagana. Nú eða þeir héldu kannski að ég byggi þarna, en ég er ekki beint nunnuleg til fara í spandex klæðnaði, þó ég sé með nokkuð kristilegan höfuðbúnað undir hjálminum.
En eftir að ég fann rétta húsið, þá lét ég tilviljun ráða hvert ég hjólaði, og kom skyndilega að þessum líka bröttu tröppum sem ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að hjóla niður. Býst þó alveg við að einhverjir gaurar hefðu ekki staðist freistinguna og látið sig gossa niður. N.b. ég var hálfnuð niður þegar mér datt í hug að taka myndina.
Ég hef átt DBS reiðhjól. 3ja gíra kvenhjól. Fjallahjól, byggingavöruverslunarhjól, hybrid og nú síðast racer. Þetta var þó aldrei teikn um að ég þyrfti að bæta bmx í safnið og próa Downhill? Það ku vera skrambi skemmtilegt...
Dægurmál | Breytt 2.4.2020 kl. 13:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.3.2012 | 17:36
Mister Postman...
Eða missis í mínu tilfelli. Rauður hjólajakki, rauð Ortlieb taska og umslag í hendi. Þar með telja margir mig vinna hjá Póstinum og ég hef nokkrum sinnum verið stöðvuð af íbúum til að ræða útburðinn, en útskýri þá að ég sé í einkaerindum að bera út prívat póst.
Ég sé um félagatal Fjallahjólaklúbbsins og finnst svolítið hallærislegt að setja eitthvað í póst ef viðkomandi býr rétt hjá mér. Þá labba ég eða hjóla með fréttablað eða félagsskírteini. Fyrst var þetta bara í Háaleitinu, aðallega í göngufæri um leið og ég fór með bunkann í póstkassa í hverfinu.
Svo fór ég að sjá götuheiti sem ég vissi ekki að fyrirfyndust í Reykjavík. Forvitni mín var vakin, fletti viðkomandi upp á ja.is og hjólaði svo. Þannig er ég búin að hjóla fullt af götum síðustu mánuði sem ég hef aldrei komið í. Vissiru að Mjóahlíð er með mjóstu götum borgarinnar? Og það er ótrúlega gaman að reyna að rata og finna götuna eftir minni. Þ.e. ég er ekki með kort á mér. Núna er reglan að ég hjóla með allt sem er í 20 mínútna hjólafæri. Nema veður sér voðalega leiðinlegt eða ég upptekin eða fjöldinn of mikill til að ég ráði við hann.
Ég er kerfisfræðingur að mennt. Þó að kerfisfræðingar og tölvunarfræðingar starfi helst við forritun, þá nýtist námið við alls konar skipulagningu og ögun í vinnubrögðum. Ég hef alla tíð haft gífurlegan áhuga á að auðvelda leiðinleg störf fyrir fólk, allt frá því ég vann í Vesturbæjarútibúi Landsbankans fyrir 20 árum, þá fór óhemju tími í það að raða yfirlitum, þannig að við gætum fundið þau fljótlega ef það þurfti að skoða eitthvað aftur á bak í tíma. Þá tók ég upp kerfi sem auðveldaði flokkunina til muna og allir voðalega glaðir að þurfa ekki að eyða mörgum klukkutímum á viku í að raða pappír. Sama skipulagsárátta rak mig í nám í tölvunarfræðum.
Ég hef forritað þó nokkur kerfi í gegn um tíðina og það er gaman að sjá hvað fólk verður ánægt og þakklátt þegar maður sýnir því kerfi sem minnkar handavinnu og ritvélapikk. Og eftir að hafa borið út póst í nokkra mánuði, þá er nokkuð ljóst að fólk má betrumbæta aðstæður hjá sér.
Nú skammast ég mín fyrir að hafa aldrei sett nöfnin á útidyrnar á meðan ég bjó í einbýli, það voru nefnilega 2 inngangar, en það voru ekki fleiri fjölskyldur í húsinu, svo hinn var ekki notaður. Í svona tilfellum tékka ég á öllum inngöngum, svo ég finni örugglega nafnið á þeim sem ég er að leita að og fer oft fýluferð niður kjallaratröppur eða á bak við hús.
Stór húsnúmer sem sjást auðveldlega frá götunni. Nöfn á fólki letruð á póstkassana með stórum, skýrum stöfum. Svona á þetta að vera en er sjaldnast.
Fyrst var ég ekki að spá mikið í hvenær ég væri á ferðinni, stundum ef ég hafði sofnað yfir fréttunum og eitthvað fram eftir kvöldi, þá vissi ég að ég gat ekki farið að sofa fyrr en nokkuð eftir miðnætti. En að rjátla við útidyr fólks um miðjar nætur er ekki sniðugt. Og eftir að ég orsakaði hundsgelt í nokkrum húsum og hef hugsanlega vakið heimilisfólk, setti ég 10:00 til 22:00 sem tímamörk á útburðinn.
Póstlúgur eru svo kapítuli út af fyrir sig. Sumar eru með stífum spjöldum, jafnvel þannig að maður þarf að halda tveimur frá á meðan maður reynir að koma þunnu, linu umslagi inn um lúguna. Einu sinni festi ég fingurna í svona lúgu, ytra spjaldið klemmdi mig fasta þegar ég ætlaði að draga hendina til baka. Ég var sleikt. Ég ætla rétt að vona að þar hafi heimilishundurinn verið að verki en ekki einhver mennskur pervert. Ég gaf frá mér smá óp og flúði í ofboði. Ekki í eina skiptið sem ég hef gargað upp við útidyr fólks. Ein lúgan var með einhverju sem virkaði eins og mjúkur bursti fyrir innan spjaldið. Ekkert smá krípí að stinga fingrum í gegn um eitthvað mjúkt og loðið þegar maður á ekki von á svoleiðis.
Fólk er mis ratvíst. Ég hef alla tíð átt erfitt með að rata, sérstaklega ef götur og hverfi eru skipulögð í hringi. Þá hringsnýst ég um sjálfa mig og veit ekkert hvort ég er að koma eða fara. Ég er búin að gera 3 tilraunir til að finna Bogahlíð. Og bara finn hana ekki, af því hún liggur í boga en allar aðrar Hlíðar eru hornréttar. Þannig götur eru auðveldastar. Og Löndin eru æðisleg. Ekki bara hornréttar beinar götur, þær eru í stafrófsröð. Lendi aldrei í vandræðum þar. Breiðholtið er hörmung, sem og Þingholtin. Hafnarfjörðinn hætti ég mér ekki í, allt of mikið að hringtorgum og skúmaskotum, ég myndi þurfa að taka með mér tjald, viðlegubúnað og mat til nokkurra daga...
Þá þykir mér gott að sjá hversu margir nágrannar eru eftirtektarsamir. Ósjaldan þegar ég er að sniglast í kring um hús, labba upp að dyrum, niður aftur, kring um húsið, niður í kjallaratröppur, þá kemur fyrir að einhver hallar sér út um glugga á næsta húsi og spyr eftir hverju ég sé að leita. Ég les þá áritunina, og fæ hjálp við að koma póstinum á réttan stað. Nágrannavarsla, stórsniðugt fyrirbæri.
Ég hélt að ég gæti aldrei unnið við að bera út póst, þar eð ég er með slitgigt í hnjánum og á erfitt með gang. En ég sé að ég gæti hæglega verið hjólandi póstur. Ég hef stundum mætt starfsfólki Póstsins í sömu erindagjörðum, og það horfir löngunaraugum á mig. Eða réttara sagt hjólið mitt. Hjólið þyrfti raunar að vera þannig að það sé fljótlegt að hoppa á og af því og vera stöðugt þegar maður skilur við það. Einhvers konar þríhjól með góðum körfum að framan og aftan væri best. En venjulegt hjól dugar líka fínt. Spurning hvort það sé kominn tími á nýjan starfsvettvang. Rautt klæðir mig alla vega assgoti vel. Raunar klæðir vínrautt og flöskugrænt mig einna best. Ég get líka gerst gleðikvendi og setið með vínglas og flösku mér við hlið alla daga. Það myndi fara mér ljómandi vel.
Dægurmál | Breytt 30.3.2012 kl. 09:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.2.2012 | 17:44
Samhjól
Ég fór á Samhjól í dag, einu sinni í mánuði halda hjólafélögin sameiginlega æfingu, harðjaxlarnir reyna að hemja sig og við hin að spýta í lófana, eða réttara sagt lappirnar og knýja reiðskjótana eins hratt og getan leyfir. Útkoman er gríðarlega vinsæl, sem sést best á því að það mættu ca 80 manns í morgun. Enda blíðskaparveður, logn og vægt frost.
Mér tókst að hanga í hópnum miðjum, en verð að viðurkenna að á meðan sumir spjölluðu í rólegheitum og púlsinn hjá þeim hefur varla haggast, þá hljóma ég á myndbandinu eins og ég sé að gefa upp öndina í brekkunum...
Það var hjólað upp Elliðaárdalinn, að Rauðavatni, þaðan niður í Grafarvog, áfram niður að Hlemmi og svo hjólað í fagurri fylkingu niður Laugaveginn, erlendum ferðamönum til ómældrar ánægju sem mynduðu okkur í gríð og erg.
Það voru Hjólamenn sem sáu um skipulag að þessu sinni, eftir túrinn hrúgaðist föngulegur hópur hjólagarpa inn í GÁP, og rúnnstykkjum, snúðum og öðru bakkelsi gerð góð skil. Góður dagur í skemmtilegum félagsskap.
Dægurmál | Breytt 2.4.2020 kl. 13:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.1.2012 | 01:45
Kæri herra guð, þetta er nóg
Fyrirsögnin á síðustu bloggfærslu "Meiri snjó, meiri snjó, meiri snjó..." var nú bara titill, ekkert endilega óskhyggja. Óþarfi að láta allt eftir mér. Þó að mér finnist fallegt að hafa snjóinn, og það sé mjög gaman að fara á sleða og skíði, og krakkarnir elski snjóstríð, þá sé ég fram á að þurfa að labba 2 kílómetra með einn nöldrandi níu ára í skólann í fyrramálið.
Ákvað að taka smá könnunarrúnt á reiðhjólinu. Og bara á 20 mínútna hring í Háaleitinu síðla kvölds fór færðin úr "allt í lagi" í "nei, aftur fastir bílar í innkeyrslunni". Og núna er ekki einu sinni hægt að ýta, það er skafið í meira en metersdjúpa skafla og vegurinn er horfinn. Jebb, það er kolófært.
Er þetta ekki orðið gott fram að páskum?
Ófærð í fyrramálið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 30.1.2012 kl. 17:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.12.2011 | 15:44
Meiri snjó, meiri snjó, meiri snjó...
Svona var ástandið fyrir utan hjá mér í gærmorgun. Fyrsta hugsun var að skríða aftur upp í og taka frí frá vinnu. Ég man eftir vetrinum 1999-2000, þá var hraukurinn frá moksturstækjunum svo hár og harður, að við þurftum að höggva tröppur í hann með exi til að komast inn í hús. Minnir að hann hafi náð mér í öxl. Þá var snjódýpt 28 cm en mælist núna 33 cm í desember 2011. En ég er ómissandi í vinnunni svona rétt fyrir áramót og fjarvera er einungis afsakanleg ef ég þarf að fara í mína eigin jarðaför. Hvað er ég lengi að labba frá Háaleiti niður í miðbæ í svona færð? Ætli stígarnir séu mokaðir eða fer allur mannafli í að halda akstursleiðum færum?
Hvað með Strætó? Þar eð ég var nýbúin að fylgjast með nágrönum mínum pikkföstum á hlaðinu þótti mér líklegt að það væri allt fullt af vanbúnum smábílum fastir hér og þar og enginn kæmist leiðar sinnar í dag. Svo ég ákvað að leggja af stað á hjólinu, ef það væri ekki fært, þá er minnsta mál að vippa hjólinu af götunni og læsa við næsta ljósastaur og sækja síðar. Maður er í aðeins meiri vandamálum með eitt tonn af blikki sem situr pikkfast á miðri Miklubraut. Þegar ég kom niður í hjólageymslu og opnaði hurðina var ég næstum hætt við...
En ákvað að drösla hjólinu í gegn um skaflana og sjá hvernig Háaleitisbrautin hefði það. Ástandið þar var bara ljómandi fínt.
Í svona færð getur maður gleymt því að nýta sér göngustíga til hjólreiða. En þá er um að gera að nýta sér göturnar. Fór Háaleitisbraut, Skipholt, Rauðarárstíg, Hverfisgötu að miðbæ. Venjulega er ég 15 mínútur á þessari leið, ætli ég hafi ekki verið 20 mínútur að þessu sinni, það þurfti að fara varlegar vegna fjölda af bílum sem voru í ógöngum í Skipholtinu. Töluverður þæfingur og hálka undir og margir náðu ekki upp brekkur og þurftu að bakka aftur niður. Ég var sú eina sem mætti á reiðhjóli í mína vinnu, það var raunar eitt hjól fyrir, en það sést á snjóþykktinni á hnakknum að það er svolítið síðan það var notað.
Þegar ég byrjaði að hjóla aftur fyrir 3ur árum eftir langt hlé, fannst mér hrikalega óþægilegt að hjóla á götunni, fannst alltaf eins og einhver væri í þann veginn að fara að keyra á mig. En þetta venst, í dag er ég pollróleg, rétt eins og ég sæti í hægindastól heima í stofu. Ef einhver hefði sagt við mig þá að ég ætti eftir að hjóla upp endilanga Suðurlandsbrautina á götunni, hefði ég talið viðkomandi með óráð. Ég miða venjulega við að hjóla á götum með 30-50 km hámarks hraða. En ég geri undantekningu þegar Suðurlandsbrautin er annars vegar, hún er fremur fáfarin, með tveimur akreinum og ég hef aldrei fundið fyrir því að ég sé að tefja þegar ég hef hjólað hana. Heimleiðin var sumsé Skúlagata, Suðurlandsbraut, Háaleitisbraut og Safamýri.
En ég ætti kannski ekkert að vera að biðja um meiri snjó, jólin eru búin og bíllinn minn er fastur á þessu plani og allt útlit fyrir að hann verði það fram yfir áramót.
Innskot 1.1.2012 Eftir á að hyggja, þá sýna myndirnar mínar ekki fannfergið nógu vel, en það gerir myndband sem ég rakst á á youtube
Dægurmál | Breytt 2.4.2020 kl. 13:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
21.12.2011 | 15:33
Hjólabókin
Það var þykkt umslag í pósthólfinu mínu í vikunni, ég var búin að fá dagatal 2012 frá viðskiptabankanum mínum og taldi að nú væri samkeppnisaðili að senda mér veglegra dagatal. En þegar ég opnaði umslagið reyndist þar vera komin Hjólabókin, skrifuð af Ómari Smára Kristinssyni. Gjöf höfundar til mín, þakklæti fyrir þá fræðslu og skemmtan sem bloggið mitt hefur veitt honum. Mikið svakalega var gaman að fá þessa sendingu.
Þessi bók er bara eins og skrifuð með mig í huga. Ég ferðast iðulega þannig að ég finn mér 20-80 km hringleiðir, kem mér á áfangastað á bíl með hjólið aftan á, og hjóla svo í hring, aftur að bílnum eða náttstað, tek jafnvel annan hring ef stutt er liðið á daginn. Þ.e. þegar ég er ein á ferð. Ég er sjálf búin að skipuleggja þrjár sumarleyfisferðir með þessum hætti, fór fyrst Vesturland, svo Norðurland og Austfirði í sumar. Ég hef skipulagt fyrirfram hvað ég ætla að hjóla á ja.is. Vesturlandið var aðeins of auðvelt, enda mest megins flatt. Norðurlandið kom mér á óvart, hvað það var mikið af troðningum og illfærum vegum sem litu út fyrir að vera sæmilega færir akvegir á kortinu, ég hélt að ég væri að fara svipaða slóða og á Vesturlandinu og var á götuhjóli í hvílíku torfærunum og grjóthnullungum.
Austurlandið var mikið á malbiki og heiðarnar það háar að ég er ekki viss um að ég hefði lagt í þær ef þokan hefði ekki byrgt mér sýn upp á topp. En þetta sér maður ekki á ja.is, þó að þar séu uppgefnar hæðarlínur, þá gefur það manni ekki tilfinningu fyrir hversu erfið eða illfær viðkomandi leið er, þá eru ekki gefin upp vöð og annað sem máli skiptir.
Í Hjólabókinni er margs konar fróðleikur, þarna er 14 dagleiðum lýst í máli og myndum, gps hnit gefin upp, erfiðleikastigsflokkun og sýnt hversu mikil hækkun og lækkun er á leiðunum. Þetta er alveg upplagt fyrir hjólafólk eins og mig, sem veit ekkert þegar ég legg af stað í hringinn, hvort ég verði tvo eða tíu tíma á leiðinni. Ég er raunar alltaf með nesti fyrir 24 tíma og fatnað fyrir hvaða veður sem er þegar ég fer í dags hjólatúr, en það er mikil hjálp í því að vita nokkurn veginn hvað maður er að fara út í fyrirfram. Og einmitt Vestfirðir, en ég hef lítið hjólað þar, hef þó hjólað tvær leiðir í bókinni, hringinn í kring um Reykjanes og Steinadalsheiðina. Ég var á leiðinni að setjast niður og skipuleggja hjólaferð næsta sumars, en þarf þess ekki, þessi bók mun sjá mér fyrir skemmtilegum hjólaleiðum alla vega tvö sumarfrí.
Það ættu allir að hafa gaman af þessari bók, hvort sem þeir eru nýbyrjaðir að hjóla, sem og reyndir hjólanaglar sem eru nú þegar búnir að hjóla þetta, alltaf gaman að rifja upp hvað maður er búinn að afreka.
Ómar Smári, til hamingju með þessa líka fínu bók, og hjartans þakkir fyrir að gefa mér eintak.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.12.2011 | 21:09
Hó, hó, hó
Ég vorkenndi jólasveininum þegar ég var lítil stelpa heima á Ísafirði. Sveinki birtist á öllum myndum sem gamall, feitur kall með hvítt skegg og mér fannst ófært að láta hann klifra upp á aðra hæð til að gefa mér í skóinn. Ég sjálf klifraði oft upp á skyggnið yfir dyrunum og stundum alveg upp á þak til að sækja bolta sem höfðu skorðast í þakrennunni. Svo ég vissi vel að þetta var erfitt. Hvað þá um hávetur þegar snjór og hálka var á skyggninu.
Eitt kvöldið datt mér það snjallræði í hug að binda þveng í skóinn minn og láta hann síga niður á götu. Næsta morgun spratt ég á fætur, og varð hissa á að sjá nammi í gluggakistunni, en skórinn minn var fullur af snjó þegar ég dró hann upp. Þótti mér skrítið að Sveinki hefði klöngrast upp með öll sín aukakíló þegar hann gat látið nammið í skóinn sem lá niðri á stétt.
Myndin hér fyrir ofan er tekin að sumarlagi, en á henni sést skyggnið. Afi og amma í móðurætt, mamma og svo hið merkilega, báðir bræður mínir á hjólum, en ekki ég! Engin furða að ég sé með hjólabakteríu í dag, hef ekkert fengið hjóla í æsku... Jú, jú, ég átti líka hjól, það er bara ekki til nein mynd af mér hjólandi. Veturnir voru hins vegar snjóþungir fyrir vestan og ekkert hjólafæri marga mánuði ársins, þó man ég eftir að við vöfðum snæri um dekkin og gátum hjólað eitthvað á þeim þannig. Þá voru ófá snjóhús byggð og ég man varla öðru vísi eftir mér en hálf ofan í skafli, á skautum eða skíðum.
Ég er nú ekki skömminni skárri en jólasveinninn. Ég hef undanfarin 2 ár hjólað sjálf með jólakortin til ættingja og vina á höfuðborgarsvæðinu, það hefur tekið mig 3 góða hjólatúra, og ég veit ekki alveg af hverju ég er að þessu þegar ég get setið heima með heitt súkkulaði og piparkökur og látið Íslandspóst bera þetta út fyrir mig. En ég get ekki svikið strákana, þeim finnst svo gaman að bera út jólapóstinn með mér.
Dægurmál | Breytt 24.1.2016 kl. 16:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.10.2011 | 00:14
Haustlitaferð
Það var vörpulegur hópur hjólreiðafólks sem lagði af stað í haustlitaferð Fjallahjólaklúbbsins. Ekki seinna vænna, því nær allt lauf er horfið af trjám og runnum, note to self, færa hana fram í september á næsta ári.
Flestir voru nú bara að fylgja okkur úr hlaði, við vorum 5 sem stefndum upp á Hengilinn og fjögur sem fóru alla leið yfir hann. Sóttist ferðin sæmilega greitt, en mótvindur var nokkur. Við þorðum ekki öðru en vera á nagladekkjum, það er ekkert grín að fara á fleygiferð niður bratta brekku og lenda skyndilega á hálkubletti.
Það var pínu kalt á tánum, og þess vegna ákváðum við að stinga okkur inn á Hótel Hengil og fá okkur vöfflur og kaffisopa og þýða upp kroppinn.
Hver kannast ekki við söguna af Gísla, Eiríki og Helga? Þekkið þið nokkuð systur þeirra? Jebb, hún heitir Hrönn. Ég mundi svo vel eftir því að hafa stungið lyklakippunni minni ofan í mittistöskuna að ég taldi mig hafa efni á að gantast við samferðafólk mitt. "Ji, skyldi ég hafa gleymt lyklunum að hjólalásnum heima". Reif svo upp kippuna sigri hrósandi og komst að því að ég var með lykilinn að nýja lásnum, en gamla nánast ónýta lásinn á hjólinu. Og ég hafði læst mínu hjóli við hjólið hennar Sifjar, svo ég var ekki bara búin að stefna mínu ferðalagi í voða, hennar líka. Hófst nú mikil vinna við að losa lásinn, voru til þess notaður hamar, naglbítur og járnsög. Tókst eftir mikið maus að saga lásinn í sundur og halda áfram för okkar niður að Álftavatni.
Það þekkja flestir Álftavatn sem er á leiðinni frá Landmannalaugum að Þórsmörk, en færri vita af Álftavatni sem er rétt hjá Selfossi. Nafnið má væntanlega rekja til þess að hópar af álftum halda til á vatninu og taka sig á loft í fagurri fylkingu, með tilheyrandi kvaki og vængjablaki. Ótrúlega áhrifamikil sjón í logni og kyrrð.
Við vorum glorhungruð þegar við komum að bústaðnum, hjálpuðumst að við eldamennskuna, en ég hafði tekið að mér að elda kjúklingasúpu.
Eitthvað efuðust samferðafélagarnir um hæfileika mína í eldhúsinu, það var alla vega hvíslað hvort það væri hægt að fá heimsenda pizzu frá Selfossi. En þess þurfti ekki, þessi súpa klikkar aldrei hjá mér. Og vil ég nota tækifærið og benda á barnaland.is sem nú heitir bland.is, en þar eru góðhjartaðar konur sem hafa gefið fólki eins og mér sem hefur hvorki tíma né nennu til að standa klukkutímunum saman í eldhúsi, uppskriftir sem er fljótlegt og auðvelt að hrista fram úr erminni.
Eftir snæðinginn var þreytan látin líða úr í heita pottinum, þar var margt skrafað, heimsmálin rædd, atburðir líðandi stundar sem og hin eilífa spurning, skiptir stærðin máli. Já, heldur betur, ég prófaði eitt stórt um daginn og það var bara kvöl og pína. Prófaði svo annað aðeins minna nokkrum dögum seinna og jeminn, allt annað líf, bara gaman! 54 cm er málið! 58 cm racer er allt of stór fyrir mig.
Ég er ekki nægilega mikil skrúfu og boltakelling til að hafa komið mér upp festingu fyrir myndavélina þegar ég er að taka upp myndbönd. Sumir eru með myndavélina á stýrinu eða fasta við hjálminn. Ég hef venjulega haldið á vélinni með annarri hendi og stýrt með hinni. Þetta gekk prýðilega á meðan ég var á hjóli, þar sem vinstri höndin var á afturbremsunni. Svo fékk ég nýtt hjól með víxluðum bremsum. Og flaug náttúrulega á hausinn þegar ég bremsaði bara að framan. En svo áskotnaðist mér peysa, sem er raunar of lítil á mig, en hún er með brjóstvasa og eftir að hafa geymt vélina þar part úr degi datt mér í hug að klippa gat á vasann fyrir linsuna. Svo nú lít ég út eins og gellan í matrix myndunum sem var með vélbyssur í stað geirvarta, eða næstum því *hóst*. Ergó, ég er ekkert með stór brjóst, það er bara brjóstahaldarinn sem er fullur af alls konar stöffi, græjum og dóti.
En afraksturinn má sjá hér á youtube:
Og svo eru myndirnar hér, teknar af mér, Sif og Kolbrúnu:
https://photos.app.goo.gl/Qc3YbXBZsASpR9ju9
Dægurmál | Breytt 2.4.2020 kl. 13:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.10.2011 | 16:09
Var hann með hjálm?
Spurning hvort þingmenn lögleiði ekki hjálmaskyldu hjá sjálfum sér rétt eins og reiðhjólafólki ef nýtt frumvarp til umferðarlaga nær fram að ganga.
Það var vitað fyrirfram að það yrði kastað eggjum og tómötum. Vonandi að fólk hafi vit á að kasta engu harðara en það. En menn verða að klæða sig eftir aðstæðum, ég mæli með regnslá og hjálmi við næstu þingsetningu. Sem sjá má geta menn verið reffilegir og smart, alveg sama hvort þeir klæðast hvítu eða svörtu.
Eggjum kastað í þingmenn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.9.2011 | 00:41
Þriðjudagsferðir - lokahóf
Uppskeruhátið þriðjudagsferða Fjallahjólaklúbbsins var haldin 6 september í boði hjólaverslunarinnar GÁP. Ferðirnar hafa verið vel sóttar í sumar. Alls sóttu þær 56 hjólarar á aldrinum 5 ára til 69 ára. Fjölmennust var Viðeyjaferðin, 28 og aldrei mættu færri en 5. Við breyttum skipulaginu aðeins, ákváðum að negla ekki niður dagskrána fyrir fram, heldur láta veður, vinda og óskir þátttakenda ráða hvert yrði hjólað. Þetta kom ágætlega út, sérstaklega fyrir þá sem uppgötvuðu ekki þennan frábæra félagsskap fyrr en á miðju sumri. Úrsúlu langaði t.d. að hjóla í gegn um Kópavogsdalinn, hafði séð myndir þaðan, en aldrei fundið dalinn.
Ég hugsa að Kópavogsdalurinn sé einn af náttúruperlum höfuðborgarsvæðisins sem ótrúlega margir hafa aldrei komið í. Ég sjálf er búin að búa fyrir sunnan í 25 ár og aldrei farið í gegn um dalinn, hef meira að segja átt óþægilega stund þar einu sinni, þar sem ég var farþegi í bíl sem valt út úr beygjunni Kópavogsmegin og ég kastaðist út úr bílnum beint í grýttan faðm móður náttúru, braut bein, marðist og skarst. Upplifun mín af dalnum hefur verið ívið ánægjulegri síðustu 2 ár eftir að ég rambaði óvart á hann þegar forvitni mín hvert leiðir þessi stígur rak mig áfram í kvöldsólinni. Það var margt brallað á þriðjudögum. Farið til Hafnarfjarðar í Hellisgerði.
Þaðan á kaffihús...
Upp í Heiðmörk...
Þetta breytta plan kom sér ágætlega þegar Kári blés hraustlega einn þriðjudaginn, þá héldum við okkur í Borginni, þræddum þröngar götur og reyndum að finna skjól af trjám og húsum. Enduðum svo á að stytta túrinn og stungum okkur inn í Ísbúðina Laugalæk.
Keppnin var hnífjöfn að þessu sinni, ég mætti 12 sinnum, Árni 13 sinnum, en þar eð við unnum mætingabikarinn síðustu tvö ár og vorum nokkurs konar fararstjórar í ár, þá komum við ekki til greina sem vinningshafar. Kristjana og Jóhannes mættu 13 sinnum og við vorum að íhuga að láta lokakvöldið skera úr um hvort þeirra færi heim með bikarinn. Kristjana sem varð fyrir því óhappi að handleggsbrotna í hjólaferð um miðjan ágúst, mætti gangandi. Og þegar við vorum í þann mund að leggja af stað kom Jóhannes líka gangandi, en hjólið hans bilaði kvöldið áður. Svo það var áfram jafntefli.
Við urðum að kasta upp pening til að skera úr um málið, og það var Kristjana sem varð hlutskarpari og fékk að launum mætingabikarinn, sem Hákon J. Hákonarson gaf Fjallahjólaklúbbnum.
Ég hef mundað myndavélina öðru hvoru í ferðunum, afraksturinn má sjá hér (sumar hafa ekki birst áður):
https://goo.gl/photos/F1UnCGrqFpuDSbJ38
Og svo myndaði Magnús Bergsson lokahófið, myndir hans er að finna á myndavef Fjallahjólaklúbbsins:
https://photos.app.goo.gl/PkUQrp4Z34d8xY4N8
Takk öll sem mættuð í þriðjudagsferðirnar, við sjáumst hress í maí á næsta ári.
Dægurmál | Breytt 2.4.2020 kl. 13:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eldri færslur
- Október 2017
- Ágúst 2017
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Desember 2013
- Október 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Maí 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Febrúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Janúar 2009
- Nóvember 2008
- Maí 2008
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar