Bloggfærslur mánaðarins, september 2009
29.9.2009 | 19:52
Hjólaföt - netverslanir
Svo ég áræddi að panta meira og nú allt úr kvengeiranum. En nei, xl er sko ekki sama og xl. Þó að það sé innan sama framleiðanda. Pantaði buxur og bol. Í xl. Buxurnar voru níðþröngar en náðu upp að herðablöðum að aftan. Að framan náðu þær varla upp fyrir hárlínu. Fór að lesa nánar lýsinguna á þessum buxum og þær reyndust vera hannaðar sérstaklega fyrir racer-konur. Jahá, er ekki gert ráð fyrir því að konur þurfi að stíga af baki einhvern tíma??? Bolinn sem ég hafði keypt við passaði ágætlega á þverveginn, nema hann var óvenju stuttur að framan. Aftur eitthvað racer-dæmi og merkilegt nokk, virtist vera hannað á holduga konu 160 á hæð. Síddin að aftan er hins vegar það mikil að ég þarf ekki að taka með dömubindi í hjólatúrana... "so there is no annoying gap" stóð í lýsingunni á vefsíðunni. Nei, það angrar mig ekki baun þótt brjóstin gægist niður undan bolnum og brúskurinn upp úr buxunum. Gaaarrrggg. Og nei, þið fáið ekki mynd!
Dægurmál | Breytt 24.1.2016 kl. 16:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.9.2009 | 20:29
Verðlaunabikar
Ég hef einu sinni fengið verðlaunapening, varð önnur í 17 júní hlaupinu í Sandgerði þegar ég var 10 ára. Að öðru leiti er íþróttaferill minn fremur viðburðalítill.
Þar til í sumar, er ég fékk mætingabikar Fjallahjólaklúbbsins. Ég setti mér það markmið í byrjun sumars að komast í eiturgott form og liður í því var að mæta í allar þriðjudagsferðir klúbbsins. Ég skrópaði bara í einni ferð, nr. 2, en þá var hífandi rok og mér til afsökunar var undankeppni Eurovision sama kvöld. En ég mætti í allar hinar, fyrir utan tvær, en þá var ég stödd úti á landi í sumarfríi, hjólandi að sjálfsögðu.
Ásgeir var næstum búinn að vinna bikarinn í fyrra, mætti í allar ferðir nema eina, en þar eð Edda hafði mætt í jafn margar ferðir var dregið og Edda hreppti bikarinn. Ásgeir komst ekki í 4 ferðir í sumar, og þess vegna varð hann aftur að sjá á eftir bikarnum. Ég skora á Ásgeir að ná honum af mér á næsta ári, en hann stendur fyrir aftan mig á myndinni, skiljanlega svolítið súr á svipinn.
Dægurmál | Breytt 24.1.2016 kl. 16:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.9.2009 | 13:23
Vanfærar konur?
Voðalega fer það í taugarnar á mér þegar barnshafandi konur eru skilgreinar sem vanfærar konur. Óléttar konur gengur eiginlega ekki heldur, ég er búin að vera bæði vanfær og ólétt síðustu árin, en hef þó ekki verið barnshafandi.
Ég var ekki vanfær um eitt né neitt þegar ég gekk með mín börn, stundaði hjólreiðar og fjallgöngur, fór upp á þak til að dytta að húsinu, gróf safnhaugi og sagaði niður tré með keðjusög. Gerði allt sem ég var vön að gera áður en ég varð barnshafandi. Labbaði meira að segja Lónsöræfin með gönguklúbbnum komin 5 mánuði á leið.
Hér er ég með hressu kellunum mínum á toppinum á Búrfelli síðasta laugardag.
Búið að forgangsraða vegna bóluefnis | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.9.2009 | 18:25
Óvissu helgarferð
Menn voru misþreyttir eftir daginn, sumir fóru í háttinn klukkan 22, aðrir vöktu fram eftir við að ræða landsins gögn og nauðsynjar, ferðasögur, fjarlæg lönd, dagskrána framundan hjá Fjallahjólaklúbbnum, hjólagræjur og hvaðeina. Ég er ægileg prinsessa þegar kemur að svefnvenjum. Þarf helst að sofa á hvítu laki og hafa blómamynstur á koddum og sæng. Það er langt síðan ég svaf síðast í svefnpoka og átti von á að nóttin yrði erfið. En merkilegt nokk, ég sofnaði kl 01 og rumskaði ekki fyrr en kl 10 næsta morgun. Þá handviss um að klukkan mín væri biluð og hefði stoppað kvöldið áður. En ilmurinn af ný löguðum hafragraut lagði inn til mín og nokkuð ljóst að ég var búin að sofa óslitið í 9 tíma. Það sem fjallaloftið gerir manni gott. Allt verður einhvern tíma fyrst, ég hef aldrei smakkað hafragraut með rúsínum og kanelsykri. Bragðaðist bara ljómandi vel.
Veðrið hafði ekkert skánað frá deginum áður og var meira að segja ívið blautara. En við vorum með vindinn í bakið og fukum til Hafnarfjarðar á mettíma. Áðum hjá fallegum hraundröngum og kláruðum nestið og konfektið frá kvöldinu áður. Nýju hjólabuxurnar mínar reyndust vera vatnsheldar eins og framleiðandinn lofaði, en regnvatnið hafði runnið niður eftir þeim og bókstaflega fyllt skóna mína. Hitinn var áfram kring um 15 stig svo okkur var ekkert kalt þótt við værum svolítið blaut. Þá hófst leitin að góðri hjólaleið frá Hafnarfirði að Garðabæ. Ekki var hún auðfundin, en fannst loks eftir smá leit um iðnaðarhverfið. Ó, hve það var þægilegt að skríða upp í sófa með teppi, heitt kakó og góða bók þegar ég kom heim úr þessari líka ánægjulegu hjólaferð.
Hér má sjá myndband úr ferðinni:
Dægurmál | Breytt 2.4.2020 kl. 14:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.9.2009 | 14:41
Klæðaburður
Þegar ég var tvítug var ég afskaplega horuð, ekkert nema skinn og bein. Mér hefur iðulega fundist kvenfólk fallegra ef það er aðeins þrýstið og reyndi eins og ég gat að fita mig á þessum tíma, drakk meira að segja glas af rjóma á hverju kvöldi. Án árangurs, ég var alltaf sama horrenglan. Ég var í pönkinu á þessum tíma, oft klædd í leðurbuxur og leðurjakka, keðjur, rifna boli og svartar blúndur. Þegar ég lenti í bílslysinu 1984 þurfti að klippa utan af mér fötin. Ég harðbannaði þeim að vísu að klippa leðurjakkann, vildi frekar þola að vera klædd úr honum, hrygg og mjaðmagrindarbrotin. En þar eð ég var að reyna að vera þrýstin skvísa var ég í bara og aðeins 5 gammosíum undir leðurbuxunum, þar af tvær ullar stil-longs. Ég gleymi ekki svipnum á hjúkkunni sem fór með sundurklippta gammosíu-staflann í ruslið, henni hefur ábyggilega fundist þetta afskaplega skrýtin múnderíng í heitum júní mánuði.
Ef það þyrfti að grafa mig grútskítuga upp úr skurði í dag eftir umferðaslys (ég þá á hjólinu) og klippa utan af mér larfana gætu menn á slysadeild rekið upp stór augu. Yst fata er ég iðulega í sjúskuðu gulu endurskinsvesti, trosnuðu á köntunum og með bikslettur sem fara ekki úr við þvott. Þar undir er ég oftast í karlmanna flíspeysu eða renndum bol en þar undir er ég svo í afskaplega fallegum rauðum glimmer og pallíettu-topp sem mamma keypti á Spáni fyrir nokkrum árum. Svona eins og prinsessa í álögum. Ég uppgötvaði í sumar að þessi bolur væri bara assgoti fínn hjólabolur þegar öll föt voru orðin skítug og mig vantaði þunnan og þægilegan bol til að hjóla í. Þornar fljótt, svitalykt festist ekki í honum, mér er ekki of heitt í honum undir annarri flík og ég er þá ekki nakin undir ef ég þarf að renna niður þegar ég fer inn í búð. Nú og svo er ég ballfær ef ég einhverra hluta vegna þyrfti að skella mér fyrirvaralaust á djammið úr hjólatúr, annað eins hendir mann nú öðru hvoru...
Dægurmál | Breytt 24.1.2016 kl. 16:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.9.2009 | 19:49
Mér fannst eitthvað vanta
"Ég ætla ekki að..." og orðið var gripið á lofti af móður minni. "Þú færð utanlandsferð ef þú fermist." Þar með voru örlög mín ráðin, ég fór í fermingarfræðsluna og fermdist síðan með pompt og prakt. Svo sem allt í lagi með það, og ég á þessa líka fínu *hóst* fermingarmynd sem minningu um daginn.
Ég hef hjólað til vinnu, mína venjulegu leið um Langholtsveginn eftir sumarfrí og fannst eitthvað vanta. Kom því samt ekki alveg fyrir mig hvað vantaði. En auðvitað var það hann Helgi með mótmælaspjöldin sín "sem vantaði".
Vinkona mín ákvað að skíra ekki son sinn þegar hann fæddist, ein ástæðan var að hún gat ekki hugsað sér að hann yrði jafn ósáttur við skírnina og Helgi sálugi. Segið svo að kallinn hafi ekki haft áhrif.
Ég sakna þess að sjá hann ekki á horninu sínu. Blessuð sé minning hans!
Dægurmál | Breytt 12.9.2009 kl. 09:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eldri færslur
- Október 2017
- Ágúst 2017
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Desember 2013
- Október 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Maí 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Febrúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Janúar 2009
- Nóvember 2008
- Maí 2008
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar