4.5.2010 | 11:17
Hjóla-mamma
Einn vinur stráksins míns vildi nú gorta sig aðeins af pabba sínum en fann ekki alveg réttu orðin. "Pabbi minn er líka duglegur að hjóla, hann hefur hjólað, eh, umm, upp í sveit, eða eitthvað..." Pabbi stráksins er bloggvinur minn og hjólagarpur mikill, búinn að hjóla Ísland þvert og endilangt og sennilega hálfnaður með Evrópu. "Já, en mamma mín fékk bikar!", aftur "Vááá" frá strákaskaranum, meiri aðdáun og þar með var vinurinn alveg lens, enda getur sonur minn verið ákaflega dramatískur á köflum, ekki veit ég hvaðan drengurinn hefur það, hmmm.
Þriðjudagsferðirnar eru upplagt tækifæri til að læra hjólaleiðir í sínu nánasta umhverfi. Það er farið rólega yfir, hjólað í ca 2 tíma, stoppað oft, ferðirnar henta öllum, ungum, gömlum, mjóum sem feitum. Sjá nánar um starfsemina hér:
www.fjallahjolaklubburinn.is
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.5.2010 | 16:28
Það verður einhver að vera síðastur
Þó að maður eigi ekki að vanmeta eigin getu, þá efast ég stórlega um að ég vinni til nokkurra verðlauna í þetta skipti. Enda verð ég ekki á racer, og ekki með lappirnar fastar í klítum, en þá nýta menn uppstigið líka. Verandi miðaldra, gigtveik, ennþá of þung kelling eru ekki miklar líkur á að komast á verðlaunapall. Nema þetta sé flokkaskipt eftir kyni og aldri og ég ein í hópi kvenna, 45 ára og eldri, hehehe. En ég verð að sjálfsögðu dressuð í spandex uppúr og niðurúr. Maður fer ekki að mæta í hjólakeppni íklæddur flísnærfötum úr Rúmfó. Ég mun þó ekki mæta á brjóstahaldaranum einum klæða eins og þegar ég hjólaði Reykjanesið síðasta sumar. Þá var 22 stiga hiti og brakandi sól þegar ég lagði af stað frá Keflavík, en þegar ég kom að Reykjanesvita dró ský fyrir sólu, vindinn herti og hitastigið féll niður í 6 gráður. Og ég ekki með aukafötin með mér. Ég var næstum frosin í hel, var ennþá skjálfandi af kulda hálftíma eftir að ég fór ofan í heitan pott eftir 60 km hjólatúr. Á þremur og hálfum tíma. Það má lesa um það ferðalag hér: http://hrannsa.blog.is/blog/hrannsa/entry/915316/
Ætli ég muni ekki halda mig aftarlega í ráshópnum svo ég flækist ekki fyrir alvöru hjólafólki. Ég ætla ekki einu sinni að reyna að vera komin í mark á undan hjólagörpunum sem hjóla 60 kílómetra (tvöfalt lengri leið en byrjendahópurinn sem ég verð í), vona bara að ég verði ekki hjóluð niður nálægt markinu þegar fylkingin nálgast...
Uppfærsla 2 maí 2010 eftir hjólakeppnina
Ég fer bara ekki öðru vísi frá Sandgerði en með medalíu um hálsinn! Ég var búin að spá og spekúlera hvað ég gæti hjólað þessa 30 kílómetra á og taldi að ég ætti að geta hjólað þetta á innan við 90 mínútum, ef það væri ekki mikill mótvindur. Ég fór þetta á 69 mínútum og var í 3ja sæti í kvennaflokkinum. Það voru 40 hjólagarpar í keppninni, þar af 7 konur.
Annars er þetta held ég það alfyndnasta myndband sem ég hef séð úr hjólreiðakeppnum, þó að ég sé ekki fylgjandi ofbeldi, þá finnst manni gaurinn fá svo makleg málagjöld og enginn virðist hafa slasast við öll þessi ósköp.
Dægurmál | Breytt 2.4.2020 kl. 14:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.4.2010 | 18:52
Háskahelgi
Þar eð ég vinn sitjandi við tölvu flesta daga og eina hættan við atvinnuna er að brjóta á sér nögl, þá langar mann að gera eitthvað öðru vísi um helgar. Ég var búin að plana langan hjólatúr þegar ég sá frétt frá Landlækni, að fólk skyldi halda sig innandyra og hafa rykgrímur við höndina. Eftir það iðaði ég í sætinu að komast út að hjóla. Eftir að hafa skoðað veðurspána (norðan og vestan átt um helgina) þótti mér ekki miklar líkur á að verða skyndilega umvafin gjósku úr Eyjafjallajökli. Enda er þá minnsta málið að draga buffið yfir vitin og húkka far með næsta bíl. Hvað fleira er hægt að gera til að gera tilveruna ögn meira spennandi? Júbb, það má gista í þessum líka heillandi afskekkta sumarbústað.
Hverjar eru líkurnar á að það hrynji bjarg úr fellinu og brjóti kofann í spað? Þ.e. einmitt nóttina sem maður veldi að gista þar? Það væri ekki vitlaust fyrir eigendurna að prófa að auglýsa á eBay eina helgi í þessum sumarbústað með yfirvofandi grjóthruni eða öskufalli. Spennufíklarnir gætu heldur betur barist um hituna og menn grætt á tá og fingri. Nei, ég gisti raunar ekki hér, en ég gæti sko látið freistast ef það væri í boði!
Ég gleymdi ekki að afklæðast þegar ég fór ofan í pottinn, þessi buff eru bara svo ljómandi praktísk, hægt að nýta þau á marga vegu, ég notaði bara svona þunn buff undir hjálminn síðasta vetur, tvö saman ef það var meira en 5 stiga frost eða mikil vindkæling. Það var ansi stífur vindur þetta kvöld og mér kalt á hausnum ofan í pottinum. Þetta er bara venjulegt buff, ég klippti rifu þvert yfir fyrir andlitið, þannig að það virkar sem kragi og eyrnaband eftir tilfæringar. Ég hefði kannski átt að fara með hjálminn ofan í, eða hjólið. Svona til að standa undir nafni!
Ég hjólaði í kring um þrjú vötn um helgina, Þingvallavatn, Úlfljótsvatn og Álftavatn. Þetta voru samtals 90 kílómetrar. Ég keyrði til Úlfljótsvatns í útilegu í fyrra, og umferðarþunginn var slíkur að ég ákvað að hjóla aldrei hringinn í kring um Þingvallavatn. Mér finnst bara ekki heillandi að hjóla úti í náttúrunni og mæta bíl á 5 sekúndna fresti. En núna er lag, ferðamannatíminn er ekki byrjaður, umferðin er ekki svo mikil og veður farið að skána. Að vísu var 4 stiga frost um helgina, svo ég þorði ekki að taka nagladekkin undan hjólinu, ég fékk svo brjálaðan meðvind að ég var eiginlega hálfnuð með hringinn eftir 1 1/2 tíma. Það tók hins vegar ívið lengri tíma að fara á móti vindi. Það brast á með sól, haglél á köflum, hellidembu fékk ég líka, mótvindur sama í hvaða átt ég hjólaði. En þetta er bara náttúran á Íslandi, yndisleg í alla staði.
Dægurmál | Breytt 24.1.2016 kl. 16:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.4.2010 | 17:25
Gönguljós við Réttarholtsveg
Í fyrravetur var ég næstum því búin að keyra niður dreng á reiðhjóli. Þetta var við gönguljós yfir Réttarholtsveg, drengurinn kom dökkklæddur og ljóslaus út úr myrkrinu og skaust yfir götuna þegar gula ljósið var farið að blikka fyrir ökumenn. Ég bölvaði drengnum í sand og ösku, en ökumaðurinn á móti mér þurfti líka að nauðhemla til að keyra ekki á piltinn. Næsta dag lá þessi sami drengur í götunni, reiðhjólið við hliðina og ökumaður að hlúa að honum.
Aftur taldi ég drenginn hafa sýnt aðgæsluleysi og hjólað út á götuna þegar honum bar að bíða. En svo átti ég leið hjólandi fram hjá þessum gatnamótum og ákvað að skoða þessi ljós betur. Þegar einhver ýtti á hnappinn kom rautt ljós hjá ökumönnum, grænt ljós hjá þeim sem ætlaði yfir götuna. Eftir ákveðinn tíma byrjaði græna gönguljósið að blikka, á sama tíma kom gult blikkandi hjá ökumönnum. Svo drengurinn hefur talið að sér væri óhætt að fara yfir, ennþá grænt hjá honum. Börn eru ekki með sömu athyglisgáfu og fullorðnir og á fleygiferð á hjóli er erfitt að meta hvort ljósið sé farið að blikka eða ekki. Lýsingu var líka ábótavant við gönguljósin, ég sá drenginn ekki fyrr en hann skaust fram fyrir bílljósin hjá mér, samt var ég búin að rýna vel í báðar áttir til að sjá hvort fleiri voru að fara yfir.
Það er búið að gera þrengingu við þessi gönguljós, tíminn sem það tekur gangandi að fara yfir hefur styst og er það vel. Fólk hins vegar notar ekki alltaf hnappinn þegar það fer yfir, sérstaklega stálpuð börn og fullorðnir. Núna eru komin hvílíkar merkingar til að vara sljóa ökumenn við því að gatan sé einbreið á kafla, að það eitt og sér skapar nýja hættu. Gangandi geta verið ósýnilegir á bak við skiltin, sérstaklega börn. Ökumenn lenda í töfum þegar enginn er að fara yfir á gönguljósunum, þessi gata er með töluverðum umferðarþunga. Pirraðir ökumenn aka stundum yfir svona þrengingar, frekar en bíða eftir að röðin komi að þeim.
Þeir tveir þættir sem að mínu mati voru hættulegastir við þessi gönguljós fyrir breytingu eru enn til staðar. Ég gerði mér ferð að þessum ljósum til að sannreyna það. Það er ennþá grænt blikkandi ljós hjá gangandi þegar gult blikkar hjá ökumönnum. Og lýsingin er ennþá léleg.
Hér hefði kannski dugað að breyta ljósunum þannig að græna gönguljósið logi lengur, skipta svo strax yfir í rautt gönguljós, sleppa þessu blikkandi græna og stytta gula blikkandi ljósatímann hjá ökumönnum. Og koma upp lágum ljósastaurum við sitt hvorn endann. Kannski væru gönguljósin öruggari þannig í dag tvíbreið en við núverandi aðstæður?
Vilja draga úr umferðarhraða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 24.1.2016 kl. 16:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.4.2010 | 20:30
Fyrir nákvæmlega ári síðan...
... skrifaði ég bloggfærslu þar sem ég sagðist vera hætt að hjóla vegna heilsubrests. Auglýsti hjólin mín og hjólafatnað til sölu. Þetta var að sjálfsögðu aprílgabb og nokkrir hlupu fyrsta apríl og sendu inn fyrirspurnir um hjólin. Tveir tóku sérstaklega fram að þeir vissu vel að það væri 1 apríl, en vildu samt gera tilboð ef ég hefði ekki fattað sjálf að það væri 1 apríl og væri í alvörunni að selja hjólin.
Einn vildi fá myndir af mér í fötunum senda í email. Ég er enn að kitla hégómagirndina, að hann hafi virkilega langað í myndir af mér í þröngum spandex klæðnaði en væri ekki að reyna að láta mig hlaupa fyrsta apríl til baka.
Eftir því sem dagar, vikur og mánuðir liðu hélt fólk áfram að hlaupa apríl. Senda mér tilboð í hjólin. Ég fékk síðast tilboð í mars síðastliðnum, tæpu ári eftir að ég setti gabbið fram. Þá ákvað ég að fela færsluna, þó að það sé gaman að gabba fólk í einn dag á ári, þá vill maður ekki plata fólk allan ársins hring. Þó að ég hafi verið búin að uppfæra færsluna með 1 apríl klausu, þá dugði það ekki til, fólk las bara "hjól til sölu" og sendi svo póst hið snarasta til að missa nú ekki af tækifærinu.
Mér hefndist raunar fyrir gabbið, hjólinu mínu var stolið úr bakgarðinum um hábjartan dag. Við áttum þó margar ánægjustundir allt síðasta ár, þessi mynd er tekin nálægt Húsafelli einn sólríkan dag síðastliðið sumar. Einstaklega skemmtileg leið til að njóta náttúrunnar í návígi.
Ég hefði kannski átt að halda færslunni inni og sjá hvort ég geti ekki sett Íslandsmet í lengd aprílgabbs.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.3.2010 | 15:03
Ráð fyrir garðeigendur
Þegar við fluttum inn í núverandi húsnæði og vorum búin að raka saman laufinu fyrsta vorið, þá fyllti það 12 svarta ruslapoka. Annað eins féll til eftir garðslátt og runnaklippingar sumarsins. Einn veturinn felldum við aspirnar, enda var hálf kjánalegt að sjá 40 aspir teygja sig nokkra tugi metra yfir lítið hús í litlum garði. Einhver eigandinn hefur keypt þetta í misgripum fyrir Víði eða aðra limgerðisplöngur, trúi ekki að nokkur heilvita maður sem veit hvers konar ferlíki aspir eru fullvaxnar, planti 40 stykkjum í bakgarðinn hjá sér vís vitandi.
Þessar aspir fluttum við til Sorpu, þar sem þær hafa væntanlega verið kurlaðar niður í stígagerð. Eins gott að við vorum búin að þessu, annars myndi það kosta okkur töluverðan pening að losa okkur við laufið eða trén sjálf í dag. Gjaldskráin hljóðaði upp á rúmar 3000 krónur fyrir rúmmetrann. Hvað rúmast mikið í einum svörtum ruslapoka, nær það einum rúmmetra?
Þannig að við gætum þurft að punga út 70 þúsundum á ári til að losna við laufið. Eða bara gerast "white trash" og láta það liggja og sleppa slættinum og arfahreinsun, nágrönnunum til mikillar gleði...
En sem betur fer er Sorpa búin að afturkalla gjaldtökuna. Eða fresta henni óákveðið.
Sumir nenna ekki að koma sér upp safnhaugum vegna þess að þeim fylgir umstang, fýla og flugur. Þ.e. ef þeim er ekki sinnt eins og á að gera. Það er mun auðveldara að grafa holur í garðinn og setja garðaúrganginn þar ofan í. Eftir gröftinn þarf ekki að sinna haugnum sérstaklega, bara leggja nokkrar mjóar greinar í botninn, henda garðaúrgangi sem og öðrum úrgangi sem má fara í safnhauga ofan í og skella smá mold yfir öðru hvoru ef það fer að bera á flugum. Þegar holan er næstum full má setja smá lag af mold og sumarblóm þar ofan á eða skreyta með steinum. Ormarnir sjá um nauðsynlega loftun, svo það þarf ekki að róta neitt í haugnum. Eftir 3 ár hefur úrgangurinn breytt sér í næringarríka moltu, þá er auðvelt að grafa hana upp og dreifa yfir blómabeðin. Nota svo holuna aftur fyrir úrgang sumarsins. Núorðið nægir að grafa eina holu að vori fyrir allan úrgang sumarsins, ég varð að vísu að grafa aðra í fyrra eftir að villikisa flutti inn í safnhauginn, hvílíkt notalegt að hvíla þar í sólinni og nýslegnu grasinu. Gaman þegar fjölskyldan stækkar svona fyrirvaralaust, og ekki spillir að við þurftum ekki að sinna kisu neitt, hún sá um sig sjálf og vildi ekki láta stússast neitt í kring um sig.
Bara svona ef nágrannarnir skyldu halda að við værum einhverjir mafíósar, endalaust að grafa lík í bakgarðinum...
Sorpa frestar gjaldtöku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 24.1.2016 kl. 16:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.3.2010 | 15:38
Ég játa, eina ferðina enn
Oh, hvað það er hressandi fyrir sálina að játa allar sínar syndir. Ég hef horft á nektardans. Eins gott að lögin séu ekki afturvirk, þetta var 1990 og eitthvað. Kvennakvöld á Broadway, þar mætti föngulegur karlmaður og fækkaði fötum jafnt og þétt. Hann hélt að vísu eftir smá pungbindi, svo þannig lagað var þetta ekkert öðruvísi en fara í sund og glápa þar á flotta karlmannskroppa.
Ég var afar blönk á þessu tímabili, að reyna að standa á eigin fótum, nýbúin að kaupa mína fyrstu íbúð. Visa kortið var fullnýtt, svo og heimildin, hvorki seðill né klink í veskinu. Og nokkrar vinkonur að fara á þetta kvennakvöld og ég vildi ekki hringja Vestur í mömmu og pabba að betla pening. Þá datt mér í hug að blikka stelpurnar í mötuneytinu að endurkaupa matarmiðana mína, svo ég kæmist á djammið. Ég er samt ekki eins mikil djammgella og fólk gæti ætlað af skrifum mínum hér, þetta er alla vega í fyrsta og eina skiptið þar sem ég hef selt matinn af disknum mínum til að geta keypt mér gott í glas á barnum.
Það birtist meira að segja mynd af mér við þetta tækifæri í einhverju afþreyingartímaritinu, sönnunargagn #1. Ég ætla rétt að vona að ég verði ekki boðuð í yfirheyrslu á lögreglustöðinni, en þá mun ég að sjálfsögðu axla mína ábyrgð og taka út viðeigandi refsingu.
Alþingi bannar nektardans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 24.1.2016 kl. 16:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.3.2010 | 21:25
Heiðmörk
Stundum er gott að hjóla með öðrum, manni hættir til að koma sér í þægilegan gír og dóla sér á milli staða áreynslulaust þegar maður er einn á ferð, stundum næ ég ekki einu sinni að svitna. Ég var líka forvitin að sjá hvort ég hefði eitthvað í Carbon Kings, en ferðin var auglýst í slagtogi við þá. Þeir sem þekkja ekki Carbon Kings, skal upplýst að þar er um að ræða þrjá vaska hjólakappa sem hjóla 50-70 kílómetra á degi hverjum.
Að vísu var einhver misskilningur um tímasetningu, CK reyndust vera komnir upp að Úlfarsfelli um það leiti sem við vorum að leggja af stað úr Árbænum. Og við Steini sem komum með banana til að passa nú inn í hópinn!
Við hjóluðum sem leið lá í gegn um Heiðmörkina í bongóblíðu, þræddum kræklótta stíga, upp og niður brekkur. Meðfram Elliðavatni og svo brenndi ég vestur í bæ á kóræfingu.
Myndavélin var með í för, og ég skaut smá video. Sjá hér fyrir neðan. Það voru þó tvö sérlega skemmtileg atvik sem náðust ekki á filmu, annars vegar þegar Steini flækti löppinni í smellupetalanum og steig undarlegan ballett til að losna úr honum og hitt var þegar ég ætlaði að fara aðeins á undan hópnum til að filma föngulegu fylkinguna, þá bremsaði ég og hjólið snarstoppaði. Ég hélt hins vegar áfram á fullri ferð og tók nettan kollhnís fram af hjólinu, bara svona til að prófa splunkunýja hjálminn minn! Það komu ekki nema 4 marblettir, sem verða nú að teljast lítið þegar ég og mínar byltur eru annars vegar...
Dægurmál | Breytt 2.4.2020 kl. 14:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.3.2010 | 14:15
Hnakkur á veginum
En ef einhver alsæll hjólarinn skyldi nú vera kominn til Keflavíkur eða lengra og saknar hnakksins síns, þá getur hann haft samband við mig
Vegir eru víða auðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 24.1.2016 kl. 16:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.3.2010 | 15:32
Geitungur var það heillin
Var að hjóla á Skúlagötunni þegar ég lenti í árekstri við eitthvað afar óþægilegt. Hélt fyrst að einhver bílstjórinn væri ósáttur við veru mína á götunni og spænt yfir mig möl, en þegar ég kom heim sá ég 3 stórar upphleyptar bólur á gagnauganu og þótti líklegt að ég hefði verið stungin. Fannst samt skrítið að geitungarnir væru komnir á stjá í mars. En samkvæmt þessari frétt eru þessi vinalegu dúllur komnar á kreik.
Ef ykkur finnst geitungar líta illúðlega út, þá getið þið rétt ímyndað ykkur hvernig við mannfólks-hlussurnar lítum út í þeirra augum. Það hefur ábyggilega verið óþægilegt fyrir flugu-greyið að fá mig upp að sér á ofsahraða. Svona að hennar mati.
En fyrr má nú vera fýlan að stinga mig þrisvar sinnum, ég hjólaði bara einu sinni á hana.
Geitungar í atkvæðagreiðslu um Eurovision | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Eldri færslur
- Október 2017
- Ágúst 2017
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Desember 2013
- Október 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Maí 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Febrúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Janúar 2009
- Nóvember 2008
- Maí 2008
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 9
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar